Hópmálsókn gegn Booking.com

Evrópsk hótel krefjast skaðabóta frá Booking.com vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu

Taktu þátt í að sækja skaðabætur til Booking.com

Samtök ferðaþjónustunnar, evrópsku hagsmunasamtökin HOTREC og yfir 25 landsamtök fyrirtækja í gistiþjónustu víðs vegar um Evrópu standa sameiginlega að hópmálsókn gegn Booking.com. Íslensk hótel geta tekið þátt í málsókninni sér að kostnaðarlausu og eru hvött til að skrá sig til þátttöku í gegnum vefinn www.mybookingclaim.com. Athugið að síðasti skráningardagur er 29. ágúst 2025.

Grundvöllur málsóknarinnar

Árið 2021 slitu Booking.com samningaviðræðum við þýsku hótelsamtökin (IHA) og höfðuðu mál gegn hundruðum þýskra hótela fyrir dómstólum í Amsterdam. Niðurstaða þeirra málaferla var dómur Evrópudómstólsins sem staðfesti mat þýsku samkeppnisstofnunarinnar þess efnis að verðjöfnunarskilmálar (e. price parity clauses) Booking.com væru ólögmætir samkvæmt evrópskum samkeppnislögum. Nú hefur því skapast grundvöllur til að sækja bætur fyrir hótel um alla Evrópu með sameiginlegri málsókn sem Samtök ferðaþjónustunnar styðja ásamt HOTREC, evrópusambandi landssamtaka fyrirtækja í gisti- og veitingaþjónustu og yfir 25 öðrum landssamtökum í Evrópuríkjum.

Verðjöfnunarskilmálar Booking.com hafa haft neikvæð áhrif á íslensk hótel um árabil. Þeir komu í veg fyrir að fyrirtæki gætu boðið betra verð eða betri aðgengi á eigin vefsíðum eða í gegnum aðrar söluleiðir. Þetta hefur hindrað samkeppni, hækkað þóknanir og skert sjálfstæði fyrirtækja í eigin verðlagningu og markaðssetningu.

Notkun Booking.com á þessum skilmálum hefur því valdið íslenskum hótelum verulegu fjárhagslegu tjóni.

Samkvæmt reglum evrópskra samkeppnislaga eiga hótel á Íslandi rétt á að krefjast skaðabóta frá Booking.com fyrir það tjón sem þau hafa orðið fyrir. Aðstandendur málsóknarinnar áætla að hægt verði að endurheimta verulegan hluta þeirra þóknana sem greiddar voru til Booking.com á tímabilinu 2004–2024, auk vaxta.

Þátttaka í málsókninni felur jafnframt í sér skýr og öflug skilaboð um að evrópsk ferðaþjónustufyrirtæki standi saman þegar kemur að því að verja lögmæt réttindi sín gagnvart ráðandi markaðsaðilum.

Þátttaka er gjaldfrjáls og án allrar lagalegrar áhættu. Allur kostnaður er borinn af fjármögnunaraðila málsins. Sama teymi sérfræðinga sem stóð að dómi Evrópudómstólsins mun leiða málið, lögmenn, hagfræðingar og sérfræðingar með mikla reynslu á sviði samkeppnismála.

Samtök ferðaþjónustunnar hvetja því öll hótel sem hafa ýtt sér þjónustu Booking.com einhvern tíma á tímabilinu 2004-2024 til að skrá sig til þátttöku í málsókninni á vefnum www.mybookingclaim.com.

Skráningin tekur aðeins nokkrar mínútur og eftir skráningu mun innleiðingarteymi málsóknarinnar hafa samband og leiða fyrirtækið í gegn um ferlið.

Athugið að síðasti skráningardagur er 31. júlí 2025.

Algengar spurningar og svör um málsóknina

Um hvað snýst þessi málsókn?

Málsóknin snýst um að fá bætur fyrir rekstraraðila gistiþjónustu víðs vegar um Evrópu sem urðu fyrir tjóni vegna samkeppnishamlandi skilmála sem Booking.com beitti á árunum 2004 til 2024. Þessir skilmálar komu í veg fyrir eðlilega verðsamkeppni og leiddu til hærri þóknana – í andstöðu við samkeppnislög Evrópusambandsins.

Af hverju núna?

Dómur Evrópudómstólsins frá 2024 gerir það nú kleift að framfylgja þessum bótakröfum með bindandi hætti í öllum löndum Evrópusambandsins.

Hver var niðurstaða Evrópudómstólsins?

Þann 19. september 2024 úrskurðaði Evrópudómstóllinn að bæði víðtækir og takmarkaðir verðjöfnunarskilmálar Booking.com brytu gegn samkeppnisreglum ESB. Dómurinn er endanlegur og bindandi í öllum aðildarríkjum sambandsins.

Hvað eru verðjöfnunarskilmálar?

Verðjöfnunarskilmálar (e. price parity clauses) skiptast í víða og þrönga skilmála. Báðir þessir skilmálar drógu úr samkeppni og leiddu til fjárhagslegs tjóns fyrir rekstraraðila.

Víðir skilmálar bönnuðu rekstraraðilum að bjóða betra verð eða betri kjör á öðrum bókunarsíðum eða á eigin vef.

Þröngir skilmálar bönnuðu einungis betri kjör á eigin heimasíðu.

Hverjir geta tekið þátt í málsókninni?

Öll hótel skráð í Evrópuríki (á EES svæðinu) sem voru skráð á Booking.com einhvern tíma á tímabilinu 2004–2024 geta tekið þátt. 

Með orðinu “hótel” er átt við gistingu sem er veitt að jafnaði á dags- eða vikugrunni, aðallega fyrir gesti í styttri dvöl. Um er að ræða innréttaða gistingu í herbergjum eða svítum, þar sem dagleg þrif og uppábúin rúm eru hluti af þjónustunni. Að auki getur verið boðið upp á ýmsa aukna þjónustu, svo sem veitingar og drykki, bílastæði, þvottaþjónustu, sundlaug, líkamsræktaraðstöðu og aðra afþreyingu auk ráðstefnu- og fundaraðstöðu.

Þessi skilgreining nær meðal annars yfir hótel og sambærilegan rekstur (t.d. gistiheimili eða „bed & breakfast“), dvalarhótel (e. resort hotels), íbúðahótel (e. suite/apartment hotels) og mótel (e motels).

Skilgreiningin nær ekki yfir langtímaleigu á húsnæði sem leigt er til varanlegrar búsetu, t.d. á mánaðar- eða ársgrundvelli.

Hvernig fer málsóknin fram?

Málið verður höfðað fyrir dómstólum í Hollandi, þar sem höfuðstöðvar Booking.com eru. Það gerir mögulegt að sameina allar bótakröfur í einni málsókn. Stofnunin Stichting Hotel Claims Alliance fer með málið fyrir hönd þátttakenda. Rekstraraðilar þurfa að skrá sig á www.mybookingclaim.com, undirrita þátttökusamning og afhenda nauðsynleg gögn áður en málið er tekið fyrir.

Fylgir einhver áhætta eða kostnaður því að taka þátt í málsókninni?

Nei. Málsóknin er að fullu fjármögnuð og rekstraraðilar bera hvorki kostnað né lögfræðilega áhættu. Fjármögnunaraðilar fá eingöngu greitt ef málið vinnst.

Getur þetta haft neikvæð áhrif á samband rekstraraðila við Booking.com í dag?

Nei. Málið verður rekið í nafni stofnunarinnar Stichting Hotel Claims Alliance, ekki í nafni einstakra rekstraraðila. Þátttakendur eru því ekki beinir aðilar að dómsmálinu og njóta lagaverndar. Reynsla úr fyrri málum sýnir að Booking.com hefur virt slíkar aðgerðir. Sú staðreynd að málið er rekið í nafni fjölmargra veitir aukið öryggi og samstöðu. Hvers kyns hefndaraðgerðir af hálfu Booking.com væru einnig ólögmætar.

Hversu háum bótum gætu rekstraraðilar átt rétt á?

Aðstandendur málsóknarinnar áætla að hægt verði að endurheimta verulegan hluta þeirra þóknana sem greiddar voru til Booking.com á tímabilinu 2004–2024 (mögulega 30%), auk vaxta.

Hvert er hlutverk Samtaka ferðaþjónustunnar í þessu ferli?

Samtökin styðja við málsóknina með því að upplýsa aðildarfélög sín og aðra hótelrekstraraðila um réttindi sín, skráningu og leiðir til að sækja skaðabætur. Verkefnið er unnið í samstarfi við HOTREC, samband evrópskra samtaka fyrirtækja í gisti- og veitingaþjónustu.

Hvert er hlutverk HOTREC í þessu ferli?

HOTREC hefur umsjón með málsókninni á evrópskum vettvangi og starfar í samstarfi við landsamtök, sérfræðinga í greininni og lögfræðinga. Markmiðið er að virkja þátttöku og tryggja að réttar upplýsingar berist.

Ertu með spurningu um hópmálsóknina?