Samstarf

Samskipti og samstarf við félagasamtök, stofnanir og fjölda annarra aðila innanlands

Samtök ferðaþjónustunnar eru hluti af víðara stoðkerfi atvinnugreinarinnar

Ferðaþjónusta er atvinnugrein sem teygir anga sína ótrúlega víða um samfélagið. Það þýðir einnig að fjallað er um ferðaþjónustu á ótrúlega fjölbreyttum vettvangi. Samtökin starfa með ýmsum aðilum, opinberum og einkaaðilum, að fjölbreyttum málefnum til framþróunar atvinnugreininni, og eru hluti af stoðkerfi hennar. 

Samtök atvinnulífsins

SAF eru aðildarsamtök að Samtökum atvinnulífsins, sem eru heildarsamtök íslenska atvinnulífs með sex aðildarsamtökum sem starfa á grunni atvinnugreina. Samtök ferðaþjónustunnar eru í nánu samstarfi við SA og öll aðildarfélög þeirra en saman vinnum við að samkeppnishæfu rekstrarumhverfi sem stuðlar að arðbæru, fjölbreyttu og ábyrgu atvinnulífi sem bætir lífskjör allra. 

Aðildarfyrirtæki SAF eru einnig aðilar að Samtökum atvinnulífsins og geta sótt margvíslega þjónustu til SA, t.d. varðandi kjarasamninga, vinnumarkað og rekstur.

Hæfnisetur ferðaþjónustunnar

Hæfnisetrið starfar á forsendum ferðaþjónustunnar við að efla hæfni og gæði í atvinnugreininni og er þjónustan fyrirtækjum og starfsfólki að kostnaðarlausu. Meðal verkefna Hæfnisetursins er þróun fræðslu- og stuðningsefnis fyrir stjórnendur og starfsfólk í ferðaþjónustu í samstarfi við hagaðila, auk þess að veita ráðgjöf og aðstoð til fyrirtækja innan ferðaþjónustunnar við að koma á fræðslu og þjálfun.

Samtök ferðaþjónustunnar skipa formann stýrihóps Hæfnisetursins og mikið samstarf á sér stað á milli þessara stofnanna. SAF og Hæfnisetrið standa, ásamt Markaðsstofum landshlutanna, að Menntamorgnum ferðaþjónustunnar sem eru reglulegir morgunfundir þar sem fjallað er um það sem er efst á baugi varðandi hæfni og gæði ferðaþjónustunnar á Íslandi. Þá standa SAF og Hæfnisetrið að fræðsluefninu ,,Menntaspjall” þar sem góðir gestir eru fengnir í létt spjall um ýmis málefni sem snerta menntamál, hæfni og gæði í ferðaþjónustu.

Rannsóknamiðstöð ferðamála

Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Háskólans á Hólum. Auk háskólanna þriggja, tilnefna Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofa hvor sinn fulltrúa í stjórn RMF. Markmið miðstöðvarinnar eru að efla rannsóknir á sviði ferðamála, styrkja tengsl háskólastarfs og atvinnulífs og auka þekkingu um ferðamál gegnum innlent og erlent samstarf.

Stefna RMF er að efla rannsóknir og skilning á áhrifum ferðamennsku á hagkerfi, samfélag og umhverfi. Þetta gerir miðstöðin með samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaraðila og atvinnulíf, með útgáfu fræðirita og annarri upplýsingamiðlun og ráðgjöf og með því að standa fyrir ráðstefnum og fyrirlestrum.

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) veita árlega verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Verðlaunin eru afhent á aðalfundi SAF.

Ferðamálastofa Íslands

Ferðamálastofa er ríkisstofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra. Stofnunin fer með stjórnsýslu ferðamála samkvæmt lögum um Ferðamálastofu. Ráðherra skipar ferðamálastjóra til fimm ára í senn og veitir hann Ferðamálastofu forstöðu. Ferðamálastjóri ber ábyrgð á starfsemi og rekstri stofnunarinnar, mótar helstu áherslur, verkefni og starfshætti og annast daglega stjórn hennar.

Ferðamálastofa skal með starfsemi sinni fylgjast með og stuðla að þróun ferðaþjónustu sem mikilvægrar og sjálfbærrar grunnstoðar í íslensku samfélagi að teknu tilliti til þolmarka íslenskrar náttúru og samfélags ásamt því að vinna að samræmingu, greiningum og rannsóknum í ferða­þjónustu með hliðsjón af stefnu stjórnvalda.

Samtök ferðaþjónustunnar eiga í miklum samskiptum við Ferðamálastofu um margvísleg málefni greinarinnar, og starfa einnig með Ferðamálastofu að ýmsum sérverkefnum, til að mynda Ferðamálastofa og Ferðaþjónustuvikunni.

Iðan fræðslusetur

Iðan fræðslusetur er samstarfsverkefni Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka iðnaðarins, Samiðn, MATVÍS, Grafía, FIT, Bílgreinasambandsins, VM og Meistarafélaga húsasmiða. Hlutverk Iðunnar er fyrst og fremst að bæta hæfni fyrirtækja og starfsmanna í iðnaði.

SAF eiga í samstarfi um ýmis verkefni með IÐUNNI. SAF tilnefna fulltrúa í stjórn og fagráð iðunnar. Meðal verkefna sem samstarf er um er m.a. að tryggja framboð námskeiða, eftirfylgni með fagnámi matvælagreina, eftirfylgni með raunfærnimati í matvæla og veitingagreinum, framþróun í námsframboði í matvælagreinum og öðrum faggreinum ferðaþjónustu o.fl. Þá fá félagsmenn SAF sérkjör af námskeiðum matvæla- og veitingasviði Iðunnar.

Íslandsstofa

Íslandsstofa er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs um stefnu og aðgerðir til að efla ímynd og orðspor Íslands. Íslandsstofa sinnir mörkun og markaðssetningu fyrir Ísland og íslenskar útflutningsgreinar, styður íslensk fyrirtæki í sókn á erlenda markaði og greiðir götu erlendrar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi.

Ferðaþjónusta er ein helsta stoð útflutningstekna landsins og sinnir Íslandsstofa kynningu og markaðsstarfi á áfangastaðnum Íslandi. Markaðsstarfið miðar að laða til landsins erlenda gesti, bæta viðhorf og auka vitund um Ísland sem heilsársáfangastað í því skyni auka framlegð ferðaþjónustu.

Fagráð ferðaþjónustu er eitt sérstakra fagráða sem skipuð eru af stjórn Íslandsstofu en fagráðin eru stjórninni til ráðuneytis við að móta stefnu og áherslur. Mikilvægt er að fagráðin vinni vel sem bakland Íslandsstofu og leggi sitt af mörkum við þróun nýrra verkefna og öflun fjármuna til þeirra. Fagráðið er skipað 14 aðilum og þar af eiga Samtök ferðaþjónustunnar 8 fulltrúa.

Auk þess starfa SAF náið með Íslandsstofu að ýmsum verkefnum er snúa að málefnum ferðaþjónustunnar.

Íslenski ferðaklasinn

Íslenski ferðaklasinn er samstarfsvettvangur aðila sem starfa í ferðaþjónustu og tengdum atvinnugreinum. Hlutverk félagsins er að efla samkeppnishæfni og auka verðmætasköpun íslenskrar ferðaþjónustu. Samstarfið byggir á verkefnadrifnum grunni þar sem áhersla er lögð á að efla og styrkja samvinnu og samstarf, stórefla nýsköpun í ferðaþjónustu, stuðla að aukinni fagmennsku og gæðum ásamt því að efla innviði greinarinnar.

SAF og Íslenski ferðaklasinn starfa saman að ýmsum verkefnum, til að mynda Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar sem fram fer í Ferðaþjónustuvikunni ár hvert og verkefninu Ábyrg ferðaþjónusta sem er hvatningarverkefni um að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki sammælist um nokkrar skýrar og einfaldar aðgerðir um ábyrga ferðaþjónustu.

Markaðsstofur landshlutanna

Markaðsstofur eða áfangastaðastofur landshlutanna eru samvinnuvettvangur ríkis, sveitarfélaga, ferðaþjónustufyrirtækja og annarra hagsmunaaðila um ferðamál og þróun ferðamála landshlutanna til framtíðar. Markaðsstofurnar eru sjö talsins, hver í sínum landshluta: á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi, Austurlandi, Reykjanesi, Höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi.

SAF og markaðsstofurnar eiga í miklu og góðu samstarfi um þróun ferðamála á Íslandi. Meðal samstarfsverkefna má nefna Ferðaþjónustuvikuna og Menntamorgna ferðaþjónustunnar.

Verkiðn

Verkiðn – Skills Iceland eru samtök sem miða að því að auka sýnileika iðn- og starfsmenntunar, bæta ímynd iðn- og verkgreina og verkja athygli á þeim tækifærum sem felast í námi og starfi í þessum greinum, ásamt því að vera samstarfsaðili við erlenda aðila og samtök sem starfa á sama grunni. Meðal verkefna Verkiðn er skipulagning og framkvæmd Íslandsmóts iðngreina og þátttaka í erlendu mótunum EuroSkills og WorldSkills.

Samtök ferðaþjónustunnar eru meðal stofnaðila Verkiðn og vinna samtökin saman að málefnum iðn- og verkgreina.

Landsbjörg - Safe Travel

Slysavarnafélagið Landsbjörg eru landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi. Safetravel er slysavarnaverkefni á vegum Landsbjargar sem er ætlað að auka forvarnir og öryggi ferðamanna hér á landi. Safetravel verkefnið miðar að því að koma upplýsingum til ferðamanna um ábyrga ferðahegðun, ásamt upplýsingum um veður- og akstursskilyrði í rauntíma. Til þess eru nýtt ýmis verkfæri, þar á meðal upplýsingaskjáir víða um landið, heimasíðan safetravel.is, netspjall við þjónustufulltrúa, samfélagsmiðlar og snjallforritið SafeTravel Iceland.

SAF hafa verið samstarfsaðili Landsbjargar um Safetravel frá upphafi verkefnisins árið 2010. Samtökin veita Slysavarnafélaginu Landsbjörg stuðning í formi vinnuframlags starfsmanna SAF vegna ýmissa verkefna tengd samstarfinu.

Akademias

Akademias er vettvangur fyrir menntun og þjálfun framtíðarinnar. Akademias vinnur með einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum til þess að efla þekkingu, hugvit og færni með það að markmiði að skapa verðmæti.

Meðal námskeiða sem Akademias býður upp á er Segull – leiðtoganám í ferðaþjónustu en námið er samstarfsverkefni Akademias, Samtaka ferðaþjónustunnar og Íslenska ferðaklasans. Þá býðst félögum SAF sérkjör á ýmsum námskeiðum Akademias er tengjast málefnum ferðaþjónustunnar.

...og fjölmargir fleiri

Samtök ferðaþjónustunnar starfa auk þess með fjölmörgum aðilum sem snerta ferðaþjónustu innan ferðaþjónustunnar og stoðkerfi þess, stjórnsýslunnar og hins opinbera, háskólasamfélagsins o.flr.

Frekari upplýsingar um samstarfsaðila og -verkefni má nálgast hjá skrifstofu SAF.

Viltu vita meira?