Þjónusta við aðildarfélög

Aðildarfélög SAF geta sótt ýmsa þjónustu til samtakanna

Starfsfólk SAF vinnur fyrir þitt fyrirtæki

Samtök ferðaþjónustunnar reka fjölþætta starfsemi í þágu aðildarfyrirtækja í samtökunum og atvinnugreinarinnar í heild. Samtökin veita aðildarfélögum sínum ýmsa mikilvæga þjónustu, meðal annars varðandi vinnumarkað og kjarasamninga, samskipti við stjórnkerfi og eftirilitsaðila, ráðgjöf um rekstur og lögfræðileg álitaefni og samskipti við fjölmiðla. 

Vinnumarkaður

SA og SAF eru mótaðilar stéttarfélaganna í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Við aðstoðum fyrirtækið þitt við að túlka og lesa úr kjarasamningum, að gera ráðningarsamninga og veitum ráðgjöf um allt sem þitt fyrirtæki þarf að vita um vinnumarkaðsmál. Við aðstoðum þig við að leysa úr lögfræðilegum álitaefnum og ágreiningsmálum við starfsmenn og sjáum um samskipti við stéttarfélög og stofnanir varðandi slík mál ef á þarf að halda. Aðildarfélög SAF fá einnig fullan aðgang að ítarlegum upplýsingum um allt sem viðkemur ráðningum, starfsmannahaldi og önnur vinnumarkaðsmál á vinnumarkaðsvef SA.

Við hjálpum þér að hafa allt á hreinu varðandi kjara- og starfsmannamál. SA er mótaðili stéttarfélaganna og stjórnvalda í kjarasamningum, þ.e. SAF og SA er fyrir fyrirtækin það sem stéttarfélögin eru fyrir starfsfólk. Hjá okkur hefur þú beinan aðgang að ítarlegum upplýsingum og ráðgjöf um vinnumarkaðsmál, sem og aðstoð við lögfræðileg álitaefni, túlkun kjarasamninga. Við styðjum við þitt fyrirtæki ef upp koma ágreiningsmál við starfsfólk og aðstoðum þig við samskipti við verkalýðsfélög. 

Samskipti við stjórnkerfi og stofnanir

Ein helsta þjónusta Samtaka ferðaþjónustunnar er að gæta hagsmuna íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja meðal annars í gegnum samskipti við stjórnkerfi og stofnanir. Góð samskipti og fagleg umræða er lykilþáttur í að efla tengsl við opinbera aðila með það að markmiði að byggja atvinnugreininni réttlátt, hagkvæmt og samkeppnishæft rekstrarumhverfi.

Á hverju ári veita Samtök ferðaþjónustunnar stjórnvöldum umsagnir um ýmis opinber mál, þar á meðal um lagafrumvörp, lagasetningaráform, reglugerðarbreytingar, skipulagsbreytingar og fleira. Í umsögnunum koma fram helstu ábendingar samtakanna um þau áhrif sem viðkomandi áform stjórnvalda muni hafa, m.a. á rekstur og starfsumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja, rekstur þeirra, þróun atvinnugreinarinnar og efnahagsmál í víðara samhengi. Umsagnir SAF um opinber mál eru birtar í samhengi hvers máls á vefsvæðum viðkomandi stjórnvalda en einnig er hér hægt að nálgast allar umsagnir sem SAF sendir stjórnvöldum.

SAF eru fulltrúi þinn í samskiptum við opinberar stofnanir á ýmsum stigum stjórnsýslunnar, t.d. Ferðamálastofu, Samgöngustofu, Umhverfisstofnun, Vegagerð, Vinnumálastofnun og fagráðuneytin. SAF gætir einnig hagsmuna þinna eftir því sem við á gagnvart eftirlitsaðilum eins og Heilbrigðiseftirliti, Vinnueftirliti, lögreglu og Skattinum.

Við hjá SAF tökum bæði upp mál fyrir þína hönd að eigin frumkvæði eða stígum inn í mál sem orðið hafa til að frumkvæði viðkomandi stofnana gagnvart félagsmanni. SAF eru málsvari þinn í öllum samskiptum tengdum þínum málum, sendum erindi á hlutaðeigandi aðila, mætum með þér eða fyrir þína hönd á fundi og fylgjum málinu eftir.

Gögn og greiningar

SAF vinnur markvisst að því að efla gagnaöflun og greiningar um ferðaþjónustu og að koma þeim á framfæri á opinberum vettvangi, til stjórnvalda, ríkis og sveitarfélaga, sem og til aðildarfélaga. Það er veigamikill þáttur í starfsemi samtakanna að efla skilning á ferðaþjónustunni í efnahagslegu og samfélagslegu tilliti og stuðla að upplýstri umræðu í því samhengi. Samtökin birta fjölda greina opinberlega um ferðaþjónustu í þessu samhengi og miðla reglulega til aðildarfélaga.


Aðildarfélög SAF hafa aðgang að ráðgjöf og þjónustu starfsmanna samtakanna þegar kemur að greiningum og gagnasöfnun. Við höfum langa reynslu að greina og vinna með gögn um ferðaþjónustu og innra og ytra umhverfi greinarinnar. Þá eiga starfsmenn samtakanna í stöðugum samskiptum við stjórnvöld og stofnanir varðandi greiningar um ferðaþjónustu og um að betrumbæta gögn varðandi atvinnugreinina.


Samtökin vinna ýmsar skýrslur og samantektir. SAF lætur árlega framkvæma greiningu á skattspori ferðaþjónustunnar til að upplýsa um hvert framlag ferðaþjónustunnar sé til samfélagsins í formi skatta og gjalda. SAF heldur úti mælaborðinu ferdagogn.is þar sem gögn um ferðaþjónustu í nærsamfélagi þíns fyrirtækis eru tekin saman. Mælaborðið nýtist einna helst til að átta sig á umfangi ferðaþjónustu eftir sveitarfélögum og landshlutum og þeim sköttum og gjöldum sem renna til nærsamfélagsins. SAF framkvæmir sömuleiðis árlegar viðhorfskannanir hjá aðildarfélögum varðandi hin ýmsu málefni, svo sem stöðu og horfur ferðaþjónustufyrirtækja, menntamál, um gæða- og sjálfbærnivottanir ofl. Þar fá aðildarfélög tækifæri til að koma sínum helstu málum á framfæri sem nýtast í samskiptum við stjórnvöld og stofnanir sem og í opinberri umræðu.

Lögfræðiráðgjöf

Aðildarfélög SAF hafa aðgang að ráðgjöf og þjónustu lögfræðings samtakanna. Lögfræðingur samtakanna veitir þér lögfræðiráðgjöf og aðstoðar við flest álitaefni sem snertir rekstur ferðaþjónustufyrirtækja. Lögfræðingur samtakanna aðstoðar þig við að meta réttarstöðu þína strax í upphafi máls, veitir almenna lögfræðiráðgjöf og setur málið í réttan farveg. Við fylgjum málinu eftir og aðstoðum þig við að koma málinu áfram og fá viðunandi lausn eftir aðstæðum. Mikilvægt er að aðildarfélög komi málum sínum í réttan farveg strax í upphafi enda getur slíkt komið í veg fyrir óþarfa kostnað.

Við höfum langa reynslu af samskiptum við stjórnvöld og við að fá lausn við álitaefnum sem snerta samskipti stjórnvalda og aðildarfélaga. Þá eiga starfsmenn samtakanna í stöðugum samskiptum við stjórnvöld við að endurmeta og einfalda laga-og regluumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja.

Í gegn um aðild að SAF hefur þú einnig aðgang að lögfræðingum Samtaka atvinnulífsins og beinni þjónustu þeirra gagnvart álitaefnum sem snerta vinnumarkaðsrétt og túlkun kjarasamninga.

Rekstrarráðgjöf

Með aðild að SAF fá félagsmenn aðgang að rekstrarráðgjöf sem Samtök atvinnulífsins veita. Fyrirtæki geta leitað til rekstrarráðgjafa með spurningar um rekstur og fengið aðstoð t.d. við rekstrargreiningu og endurskipulagningu. Rekstrarráðgjöfin hentar ekki síst eigendum lítilla fyrirtækja sem vilja fara betur yfir rekstur sinn. 

Við aðstoðum þig við að bæta rekstur fyrirtækisins þíns á ýmsan hátt. Við vinnum með stjórnvöldum að breytingum á lögum og regluverki sem bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja og tölum máli þínu t.d. gagnvart eftirlitsstofnunum og ráðuneytum þegar á þarf að halda. Við bjóðum einnig upp á fræðslu, tengsl og samskiptavettvang fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Hjá okkur getur þú einnig fengið aðgang að upplýsingum um og fyrir ferðaþjónustuna, m.a. greiningum á hagtölum og öðrum upplýsingum sem nýtast fyrirtækinu í rekstri.  

Samskiptaráðgjöf

Aðildarfélög SAF hafa aðgang að aðstoð varðandi samskipti við stjórnvöld, fjölmiðla og almenning varðandi málefni sem snerta fyrirtækið og ferðaþjónustu almennt. 

Við aðstoðum þig við að undirbúa samskipti við opinberar stofnanir og koma málstað og þörfum fyrirtækisins á framfæri, veitum upplýsingar sem geta fyllt upp í myndina í samskiptum við fjölmiðla, veitum ráðgjöf varðandi hvernig fyrirtæki takast á við áföll og krísur sem komið geta upp í starfseminni og aðstoðum við að koma rödd fyrirtækisins á framfæri í opinberri umræðu þegar það á við.

Þarft þú á aðstoð að halda?