Konur í ferðaþjónustu

Raddir kvenna fá rými og vettvang

Tengslanet kvenna í íslenskri ferðaþjónustu

Ferðaþjónusta er gífurlega viðamikil og stór atvinnugrein, bæði hérlendis en einnig í alþjóðlegu samhengi. Það er því mikilvægt að atvinnugreinin leggi sitt að mörkum er kemur að jafnrétti kynjanna og þótt Ísland standi framarlega í jafnréttismálum má alltaf gera betur. Raddir kvenna skipta máli og SAF hafa því sett á laggirnar verkefnið Konur í ferðaþjónustu.

Verkefnið Konur í ferðaþjónustu hefur það að markmiði að skapa vettvang til að efla tengslanet og samstöðu kvenna í atvinnugreininni og miðla fræðslu og hagnýtum upplýsingum ásamt því að veita innblástur og hvatningu til frekari þátttöku og forystu kvenna í ferðaþjónustu.

Verkefnið verður unnið í formi viðburða þar sem áhersla verður lögð á miðlun þekkingar og reynslu, þátttöku ólíkra hópa sem og fjölbreytt viðburðaform og umfjöllunarefni. Vettvangur sem þessi er jákvæð viðbót við tengslanet íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja og annarra hagaðila greinarinnar. Konur í ferðaþjónustu eru því hvattar til þess að taka þátt, efla tengslin sín á milli og styrkja samstöðu kvenna í atvinnugreininni.

Konur hvattar til þátttöku

Taktu þátt í að efla tengslanet kvenna í ferðaþjónustu!

Hægt er að skrá sig á póstlista verkefnins hér.

Þá eru áhugasamar einnig hvattar til að fylgjast með miðlum samtakanna. Frekari upplýsingar um verkefnið, viðburði og samstarf veitir skrifstofa SAF í gegnum netfangið saf@saf.is

Það var létt og leikandi stemning í Gamla kvennaskólanum miðvikudaginn 27. ágúst 2025 þegar fjöldi kvenna koma saman til að fagna upphafi verkefnsins. Lestu meira um síðsumarteiti kvenna í ferðaþjónustu hér.

Félagskonum SAF var boðið á glæsilegan viðburð, í samstarfi við Center Hotels, þriðjudaginn 9. desember 2025. Þar heyrðu gestir á fróðlegt og skemmtilegt erindi er snéri að framkomu, auk þess að kynnast sögu og starfsemi Center Hotels. Lestu nánar um viðburðinn hér.

Um 150 konur komu saman við upphaf Ferðaþjónustuvikunnar þegar SAF og Íslandshótel buðu konum í greininni í hádegishitting. Lestu nánar um viðburðinn hér.

Konur í SAF

Samtök ferðaþjónustunnar styðja heilshugar við og hafa lengi beitt sér fyrir jafnrétti á vinnumarkaði.

Frá upphafi hafa konur ávallt verið mjög sýnilegar í forystuhlutverkum innan SAF og gengt hinum ýmsu störfum í starfsemi samtakanna. Fyrsti framkvæmdastjóri SAF var Erna Hauksdóttir en hún gegndi því starfi frá stofnun samtakanna árið 1998 til 2013. Auk þess var Erna framkvæmdastjóri Samtaka veitinga- og gististaða (SVG), forvera SAF, en á undan henni var Hólmfríður Árnadóttir framkvæmdastjóri SVG. Helga Árnadóttir tók svo við keflinu frá Ernu og var framkvæmdastjóri SAF til ársins 2018. Því má segja að konur hafi verið í forystu frá upphafi samtaka fyrirtækja í ferðaþjónustu. Bjarnheiður Hallsdóttir var fyrsta konan sem gegndi hlutverki formanns Samtaka ferðaþjónustunnar (2018-2024). Konur hafa þó ávallt gegnt veigumiklu hlutverki í starfsemi samtakanna, hvort sem heldur í stjórn SAF, í fagnefndum og starfshópum eða sem starfsmenn skrifstofu samtakanna.

Lestefni tengt konum í ferðaþjónustu