Samtök ferðaþjónustunnar eru sterkasti vettvangurinn sem þú getur nýtt þér til að vinna að þeim breytingum sem þú vilt sjá í íslenskri ferðaþjónustu. Kjarasamningar, samskipti við opinberar stofnanir, fagnefndastarf, fræðsla og fjölbreyttir viðburðir eru meðal þess sem aðild að SAF veitir þér aðgang að.
Með aðild að SAF færð þú aðgang að margs konar þjónustu og ráðgjöf starfsfólks SAF og SA, þar á meðal um allt sem viðkemur starfsmannahaldi og kjarasamningum, rekstur og rekstrarumhverfi fyrirtækja og upplýsingar um styrki til fræðslu og mannauðsmála í fyrirtækinu.
Við aðstoðum þig við samskipti fyrirtækisins þíns við opinberar stofnanir, leiðbeinum þér um frumskóg regluverksins og tölum máli fyrirtækisins þíns gagnvart stjórnsýslunni.Með þátttöku í fagnefndastarfi SAF getur þú tekið mál sem skipta miklu fyrir þitt fyrirtæki upp í starfi samtakanna. Við rekum m.a. formleg erindi gagnvart ráðuneytum og stofnunum, veitum Alþingi umsagnir um mál í meðferð þingsins og komum rödd þíns fyrirtækis á framfæri varðandi breytingar á lögum og reglugerðum.
Með aðild að SAF og þátttöku í starfi samtakanna færð þú sæti við borðið þegar kemur að undirbúningi kjarasamninga. Við viljum að þín rödd heyrist þegar kemur að stærsta kostnaðarlið fyrirtækja á Íslandi!
SA og SAF eru mótaðilar stéttarfélaganna í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Við aðstoðum fyrirtækið þitt við að túlka og lesa úr kjarasamningum, að gera ráðningarsamninga og veitum ráðgjöf um allt sem þitt fyritæki þarf að vita um vinnumarkaðsmál. Við aðstoðum þig við að leysa úr lögfræðilegum álitaefnum og ágreiningsmálum við starfsmenn og sjáum um samskipti við stéttarfélög og stofnanir varðandi slík mál ef á þarf að halda. Aðildarfélög SAF fá einnig fullan aðgang að ítarlegum upplýsingum um allt sem viðkemur ráðningum, starfsmannahaldi og önnur vinnumarkaðsmál á vinnumarkaðsvef SA.
Við hjálpum þér að hafa allt á hreinu varðandi kjara- og starfsmannamál. SA er mótaðili stéttarfélaganna og stjórnvalda í kjarasamningum, þ.e. SAF og SA er fyrir fyrirtækin það sem stéttarfélögin eru fyrir starfsfólk. Hjá okkur hefur þú beinan aðgang að ítarlegum upplýsingum og ráðgjöf um vinnumarkaðsmál, sem og aðstoð við lögfræðileg álitaefni, túlkun kjarasamninga. Við styðjum við þitt fyrirtæki ef upp koma ágreiningsmál við starfsfólk og aðstoðum þig við samskipti við verkalýðsfélög.
Við aðstoðum þig við að bæta rekstur fyrirtækisins þíns á ýmsan hátt. Við vinnum með stjórnvöldum að breytingum á lögum og regluverki sem bæta rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni fyrirtækja og tölum máli þínu t.d. gagnvart eftirlitsstofnunum og ráðuneytum þegar á þarf að halda. Við bjóðum einnig upp á rekstrarráðgjöf, fræðslu, tengsl og samskiptavettvang fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Hjá okkur getur þú einnig fengið aðgang að upplýsingum um og fyrir ferðaþjónustuna, m.a. greiningum á hagtölum og öðrum upplýsingum sem nýtast fyrirtækinu í rekstri.
SAF koma þínum ábendingum varðandi laga- og regluumhverfi ferðaþjónustunnar á framfæri við stjórnvöld á ýmsan hátt. Við veitum Alþingi og ráðuneytum umsagnir um lagafrumvörp og breytingar á regluverki sem varða ferðaþjónustuna, eigum samskipti við stofnanir kerfisins um t.d. túlkun á reglum og framkvæmd eftirlits, tökum upp mál að fyrra bragði og leggjum til breytingar sem geta bætt t.d. rekstrarumhverfi, eftirlit eða samkeppnishæfni fyrirtækja í greininni. Við sendum og fylgjum eftir erindum í stjórnkerfinu fyrir hönd einstakra fyrirtækja.
SAF eru fulltrúi þinn í samskiptum við opinberar stofnanir á ýmsum stigum stjórnsýslunnar, t.d. ráðuneytin, Ferðamálastofu, Samgöngustofu, Umhverfisstofnun og Vinnumálastofnun. Við tökum bæði upp mál að eigin frumkvæði eða stígum inn í mál sem orðið hafa til að frumkvæði viðkomandi stofnana, erum málsvari þinn í þeim samskiptum, sendum inn erindi, mætum með þér á fundi og fylgjum málinu eftir.
Hjá SAF og SA starfar fjöldi sérfræðinga á sviði vinnumarkaðsmála, samkeppnismála, lögfræði, hagfræði svo dæmi séu nefnd. Hjá samtökunum er til staðar mikil þekking á stjórnkerfinu og stjórnsýslu ferðamála, kjarasamninga og vinnumarkaðsmála, túlkun laga og reglugerða, framkvæmd eftirlits stofnana og fyrri úrlausn svipaðra mála og komið geta upp hjá fyrirtækjum um allt land. Við veitum þér ráðgjöf um þetta allt á grunni áratuga þekkingar starfsfólks samtakanna sem vinnur við að aðstoða þig.
SAF gefur þér aðgang að öflugu fagnefndastarfi fyrirtækja þar sem fjallað er um sameiginleg álitamál og úrlausnarefni og stefnumarkandi málefni er varða viðkomandi starfsgreinar innan ferðaþjónustunnar. Þáttttaka í starfi fagnefndanna gefur þér tækifæri til að koma þínum skoðunum og reynslu af rekstri ferðaþjónustufyrirtækis á framfæri á margs konar hátt. Fagnefndirnar halda reglulega fundi um málefni sem brenna á félagsmönnum á hverjum tíma, veita stjórn og starfsfólki SAF ábendingar og aðhald, tryggja skýra innsýn samtakanna í áhrif laga og reglugerðabreytinga á rekstur fyrirtækjanna og leggja til hugmyndir og tillögur að efni í umsagnir SAF um lagafrumvörp og -breytingar.
SAF standa fyrir fjölbreyttum viðburðum og upplýsingagjöf til félagsmanna allt árið. Við fylgjumst með breytingum á rekstrarumhverfi, lögum og í stjórnmálaumhverfinu og komum upplýsingum áfram til þín. Við höldum t.d. málþing og ráðstefnur um fjölmörg málefni sem snerta ferðaþjónustu og eigum í samstarfi við fjölda opinberra og einkaaðila um viðburðahald sem ýtir undir fræðslu og betri þekkingu hjá félagsfólki SAF og getur komið að gagni í rekstri fyrirtækja.
SAF starfar með Hæfnisetri ferðaþjónustunnar, Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Iðunni og fleiri aðilum að ýmsum verkefnum sem varða hæfni og menntun starfsfólks í ferðaþjónustu. Við störfum einnig með ráðuneytum og öðrum stjórnvöldum á sviði menntamála að uppbyggingu menntamála í ferðaþjónustu og atvinnulífsins í heild. Við leiðbeinum þér t.d. um frumskóg styrkja til starfsmenntunar til að auðvelda þér að fá fjármagn til fræðslu í þínu fyrirtæki sem minnkar kostnað við þjálfun og starfsmannaveltu. Einnig færð þú aðgang að tilboðum á fræðslu og endurmenntun sem ýmsir aðilar bjóða aðildarfélögum SAF.
Tengslanetið er verðmætt og hjá SAF bjoðast fjölmargar leiðir til að byggja það upp. Við hjálpum þér að fylgjast með í bransanum, nálgast upplýsingar sem þú þarft á að halda og hitta samstarfsfólk og samkeppnisaðila á viðburðum þar sem fjallað er um sameiginleg hagsmunamál atvinnugreinarinnar. SAF á einnig í virku samstarfi við erlend hagsmunasamtök í ferðaþjónustu, t.d. regnhlífarsamtökin HOTREC í Evrópu, og eiga í reglulegu samráði við norræn ferðaþjónustusamtök um sameiginlega hagsmuni, lagasetningu, reynslu af reglusetningu og sameiginlegt þrýstistarf gagnvart stjórnvöldum. Aðild að SAF veitir þér þannig aðgang að sterku tengslaneti fyrirtækja í ferðaþjónustu, í gegnum grasrótarstarf, starf fagnefnda SAF og í gegnum viðburði á vegum samtakanna.
Með sameiginlegri rödd SAF náum við mun meiri árangri en nokkuð eitt fyrirtæki getur gert. Við tölum fyrir hagsmunum ferðaþjónustufyrirtækja gagnvart stjórnkerfinu og erum reglulegur og mikilvægur samstarfsaðili stjórnvalda í öllum málefnum er varða ferðaþjónustu á Íslandi. Við veitum alþingismönnum, ráðherrum, sveitastjórnarfólki, forstöðumönnum stofnanna og öðrum sem vinna að ákvörðunum sem snerta greinina, upplýsingar og greiningar um stöðu hennar og áhrif ákvarðana þeirra á fyrirtæki og rekstrarumhverfi. Við leggjum líka áherslu á að standa fyrir og ýta undir uppbyggilega og jákvæða umræðu um ferðaþjónustu, m.a. með miklum samskiptum við fjölmiðla, og aðstoðum þig við að koma þínum sjónarmiðum á framfæri í opinberri umræðu þegar á þarf að halda.
Einkunnarorð SAF eru fagmennska í ferðaþjónustu og það er kappsmál okkar að fólk geti treyst því að þegar það á viðskipti við aðildarfyrirtæki SAF eigi það við viðskipti við fyrirtæki sem vinna af fagmennsku og ábyrgð á öllum sviðum. Við leggjum höfuðáherslu á að aðildarfyrirtæki samtakanna fari í öllu eftir lögum og gildandi kjarasamningum og ástundi góða viðskiptahætti í hvívetna. Við tökum þátt í og styðjum við ýmis verkefni á sviði gæða og öryggis í ferðaþjónustu, t.d. Ábyrg ferðaþjónusta, Safe Travel, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Vakinn, og hvetjum til góðra verka innan ferðaþjónustunnar með viðburðahaldi, upplýsingagjöf og veitingu verðlauna til fyrirmyndarfyrirtækja í ábyrgri ferðaþjónustu, Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar og ritgerðarverðlauna til útskriftarnemenda í ferðamálafræði.
Samstarf okkar við SAF hefur verið mjög gott og samtökin hafa stuðlað að betra rekstrarumhverfi fyrir hótel á Íslandi. Sá styrkur sem felst í sameiginlegum vettvangi fyrirtækjanna hefur gert það að verkum að við höfum komið sterkari út eftir vöxtinn og þær miklu áskoranir sem við höfum þurft að takast á við á síðustu árum.
framkvæmdastjóri
Hilton Reykjavík Nordica
Það er mjög mikilvægt að ferðaþjónustan sem öflug atvinnugrein hafi kröftur hagsmunasamtök eins og SAF sér að baki. Samstaða fyrirtækja í greininni er lykilatriði til að mynda öflugan slagkraft út á við. Því er mikilvægt að sem flest fyrirtæki sjái sér hag í því að vera hluti af SAF.
Framkvæmdastjóri
Friðheimar
Þátttaka í nefndastarfi og fjölda verkefna hjá SAF hefur veitt okkar sérhæfða fyrirtæki innsýn í ólíka anga greinarinnar, eflt tengslanet okkar og veitt okkur aukinn styrk og innblástur til góðra verka. Við höfum einnig leitað eftir og fengið dýrmæta aðstoð frá SAF vegna áskorana og álitamála sem komið hafa upp.
Framkvæmdastjóri
Pink Iceland
Það er dýrmætt að hafa SAF til að fókusera á stóru myndina er varðar starfsskilyrði og samkeppnishæfni fyrirtækja í veitingageiranum. Aðild að SAF reyndist t.d. hverrar krónu virði í heimsfaraldrinum og þá sá maður hversu mikilvægt er að hafa samtök sem maður getur heyrt í og sem berjast fyrir okkur varðandi lagabreytingar og rekstrarumhverfi.
Framkvæmdastjóri
Jómfrúin
Lítill veitingastaður hefur takmarkað aðgengi að stóra borðinu og þá er gott að geta leitað til SAF. Þau eru alltaf með puttana á púlsinum, grípa fljótt boltann og fara með hann lengra, hvort sem það tengist starfsmannamálum, kostnaðarhækkunum, skattamálum eða öðru.
Framkvæmdastjóri
Eiríksson Brasserie
Félagsgjald SAF er ákveðið á aðalfundi samtakanna ár hvert. Félagsgjald er nú 0,15% af heildarveltu næstliðins árs (tekjum skv. ársreikningi). Hámarksfélagsgjald SAF er 2,5 milljónir á ári og lágmarksgjald 29 þúsund. Auk félagsgjalda til SAF greiða aðildarfyrirtæki einnig félagsgjöld til SA.
Sláðu veltu og laun skv. síðasta ársreikningi þíns fyrirtækis inn í reiknivélina hér til hliðar og skoðaðu hver árgjaldið er.
Þegar um er að ræða tvö eða fleiri fyrirtæki í samstæðu þar sem eignarhlutur er 50% eða meiri þannig að skylt er að gera samstæðureikning, er veittur 20% afsláttur af álögðu félagsgjaldi SAF sé þess óskað. Samanlögð félagsgjöld samstæðufyrirtækjanna geta þó aldrei verið lægri en álagt félagsgjald veltuhæsta aðildarfyrirtækis samstæðunnar. Afslátturinn er reiknaður á síðasta greiðsluseðli ársins.
Reiknaðu áætlað árgjald þíns fyrirtækis
© 2025 SAMTÖK FERÐAÞJÓNUSTUNNAR. Allur réttur áskilinn.