Sjálfbærni

Sjálfbærni er undirstaða framþróunar

Sjálfbærni í víddum efnahags, umhverfis og samfélags

Sjálfbær ferðaþjónusta byggir á hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar sem er skilgreind sem „þróun sem mætir þörfum nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum“ – Brundtland skýrslan, 1987.

Hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar kom fram í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun “Our common future” eða Brundtland skýrslunni eins og hún er oft kölluð. Skýrslan var gefin út árið 1987 og er almennt talin vera fyrst til þess að skilgreina sjálfbærni í þeim þremur stoðum sem við notumst við í dag, þ.e. efnahagslega, umhverfislega og samfélagslega.

Hugtakið hlaut pólitískan samhug þegar Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti skýrsluna. Frekari alþjóðleg samstaða um sjálfbæra þróun náðist á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun í Brasilíu árið 1992 þegar fulltrúar 179 landa hittust í miklu átaki til að einbeita sér að áhrifum félags- og efnahagslegra athafna manna á umhverfið. Á ráðstefnunni voru Ríó yfirlýsingin og Dagskrá 21 undirrituð en bæði eru skjöl sem útlista meginreglur til að leiðbeina þjóðum í átt að sjálfbærri framtíðarþróun. Þessi athöfn stofnanafesti hugmyndina um sjálfbæra þróun og lagði grunn að nýrri tegund af samstarfi milli þjóða heims sem byggir á sameiginlegri ábyrgð, gagnkvæmum þörfum og sameiginlegum hagsmunum.

Umhverfið

Umhverfisleg sjálfbærni snýr að verndun umhverfisins – hvort sem er loftið, hafið eða lífríkið. Eitt stærsta verkefni mannkynsins er að berjast gegn loftlagsbreytingum en einnig þarf að hlúa að og vernda önnur þolmörk, svo sem auðlindir jarðar og líffræðilega fjölbreytni.

Samfélagið

Samfélagsleg sjálfbærni snýr að samfélagslegri sátt, samlyndi og lífsgæðum fyrir öll. Hér eru athafnir fyrirtækja, stjórnvalda og stofnanna skoðuð með tilliti til félagslegra þátta: jafnréttis, mannréttinda og aðgengi að grunnþörfum svo sem heilbrigðisþjónustu, menntun, öryggi, næringu og heimili.

Efnahagurinn

Efnahagsleg sjálfbærni snýr að því að skapa langtímahagvöxt og efnahagslega velsæld í samfélaginu án þess að hafa neikvæð áhrif á umhverfið og félagslega þætti. Hagkvæmni, arðsemi og samkeppnishæfni eru meðal þátta sem skipta sköpum í efnahagslegri sjálfbærni.

Sjálfbær ferðaþjónusta er „ferðaþjónusta sem tekur fullt tillit til núverandi og framtíðar efnahagslegra, félagslegra og umhverfislegra áhrifa sinna og sinnir þörfum gesta, atvinnugreinarinnar, umhverfisins og nærsamfélaga“ – Alþjóðaferðamálasamtökin (UNWTO).

Sjálfbær ferðaþjónusta er dótturhugtak sjálfbærrar þróunar sem varð til þegar ferðaþjónustuaðilar fóru að tengja umfjöllun Brundtland skýrslunnar við atvinnugreinina. Hugtakið sjálfbær ferðaþjónusta speglar skilgreiningu sjálfbærrar þróunar, það er að horft er til þriggja stoða (umhverfis, efnahagslegra og samfélagslegra þátta) en eins og sjá má á skilgreiningu Alþjóðaferðamálasamtakanna (UNWTO) er einnig tekið tillit til þarfa gesta og atvinnugreinarinnar.

Samfélagsábyrgð

Samfélagsábyrgð felst í því að fyrirtæki taki ábyrgð á afleiðingum starfsemi sinnar á þjóðfélagið – Evrópusambandið, 2011

Undanfarin ár hefur átt sér vitundavakning varðandi mikilvægi þess að fyrirtæki starfi með ábyrgum hætti í sátt við umhverfi og samfélag. Hugtakið samfélagsábyrgð getur haft margvíslegar og ólíkar merkingar en hægt er að segja í sinni einföldustu mynd snúi samfélagsábyrgð að því að taka ákvarðanir sem snúast ekki einungis um eigin nærtækustu hagsmuni og að ákvarðanataka ígrundi hvaða afleiðingar eigin gjörðir hafi.

Samfélagsábyrgð fyrirtækja getur snúið að ýmsum þáttum, til dæmis jákvæðum áhrifum reksturs á umhverfi og samfélag, fræðslu starfsfólks, að sýna ábyrgð og virðingu gagnvart starfsfólki, huga að öryggi starfsfólks og viðskiptavina.

Samtök ferðaþjónustunnar hvetja starfsmenn sína, aðildafyrirtæki og aðra hagaðila til að hafa samfélagsábyrgð, umhverfismál og ábyrga stjórnarhætti að leiðarljósi í allri sinni starfsemi. Lesa má meira um áherslur SAF í stefnu samtakanna um samfélagsábyrgð.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Ákall til aðgerða í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (e. Sustainable Development Goals – SDGs) eru ákall til aðgerða í þágu mannkynsins, jarðarinnar og hagsældar en árið 2015 var Ísland í hópi 193 þjóða Sameinuðu þjóðanna sem settu sér sameiginleg markmið um betri heim. Markmiðin eru 17 talsins með 169 undirmarkmiðum sem í grunninn fela í sér að fyrir árið 2030 takist heimsbyggðinni að auka jöfnuð, útrýma sárafátækt og ná tökum á loftlagsbreytingum. 

Áhugasömum um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna er bent á vefinn www.heimsmarkmidin.is en þar má finna nánari upplýsingar um markmiðin, um Sjálfbært Ísland sem er samstarfsvettvangur um sjálfbæra þróun, sem og mælaborð sem sýnir stöðu Íslands gagnvart þeim mælikvörðum sem fylgja undirmarkmiðunum.

Ferðaþjónusta og heimsmarkmiðin

Sameinuðu þjóðirnar tileinkuðu árið 2017 sem alþjóðlegt ár sjálfbærrar ferðaþjónustu og efnahagslegrar þróunar og var meginmarkmið þess að draga fram og leggja áherslu á með hvaða hætti ferðaþjónustan getur lagt lóð sitt á vogarskálina til að byggja upp betri heim, m.a. með vísan í áætlun Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun fram til ársins 2030. Sem ein stærsta atvinnugrein heimsins í dag, bæði á alþjóðavísu en einnig hér á Íslandi, getur ferðaþjónusta stuðlað á margvíslegan hátt að því heimsmarkmiðunum sé náð. Á vef Alþjóðaferðamálaráðsins (UNWTO), Tourism4SDGs, má sjá yfirlit yfir tengingu ferðaþjónustunnar við hvert og eitt markmið.

Á Íslandi var eitt undirmarkmiða markmiðs nr. 8 („Góð atvinna og hagvöxtur“), að „eigi síðar en árið 2030 hafi verið mótuð og innleidd stefna í því skyni að stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu sem skapar störf og leggur áherslu á staðbundna menningu og framleiðsluvörur“. Þann 21. júní 2024 samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar, sem þáv. ferðamálaráðherra Lilja D. Alfreðsdóttir, lagði fram um ferðamálastefnu og aðgerðaráætlun til 2030. Þar kemur fram að framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni jafnvægis efnahags-, samfélags- og umhverfislegra þátta. Þá eru aðgerðir í aðgerðaráætlun, sem fylgir stefnunni eftir, tengdar við Heimsmarkmið SÞ.

Verkefni SAF tengd sjálfbærni

Ferðamálstefna til 2030 - Leiðandi í sjálfbærni

Undir lok vorþings 2024 samþykkti Alþingi tillögu til þingályktunar, sem Lilja Dögg Alfreðsdóttir ráðherra ferðamála lagði fram, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Með samþykkt þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030 er um ákveðin tímamót að ræða sem birtist í heildstæðri stefnumótun á sviði ferðaþjónustu með víðtækri þátttöku haghafa og almennings, segir í frétt á vef ráðuneytisins.

Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu er að vera leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni umhverfis-, efnahags- og samfélagsleg jafnvægis en áhersla er lögð á sjálfbærni og samkeppnishæfni í stefnunni og aðgerðaráætlun sem henni fylgir. 

Að vinnunni við uppfærðan stefnuramma, sem myndar grunn að ferðamálstefnu og aðgerðaráætlun til 2030, kom fjöldi sérfræðinga og hagaðila. Samtök ferðaþjónustunnar tóku mikinn og virkan þátt í vinnunni en framkvæmdastjóri SAF sat í stýrhóp verkefnisins auk þess sem tveir starfsmenn skrifstofu samtakanna voru starfsmenn verkefnisins.

Áhugasömum er bent á vef Ferðamálastofu þar sem finna má frekari upplýsingar um verkefnið, ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun, sem og upplýsingar um stöðu einstaka aðgerða.

Ferðamálastefnan, og aðgerðaáætlun hennar, hefur verið gerð aðgengileg með sérstakri útgáfu sem kynnt var á fjölmennu útgáfuhófi hjá Samtökum ferðaþjónustunnar þann 14. desember 2024.

Ábyrg ferðaþjónusta

Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni um að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki sammælist um einfaldar og skýrar aðgerðir um ábyrga ferðaþjónustu. Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar. Fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu skuldbunda sig til að setja sér og birta markmið um samfélagsábyrgð. Er þar horft til eftirfarandi atriða: að ganga vel um og virða náttúruna, að tryggja öryggi gesta og koma fram við þá af háttvísi, að virða réttindi starfsfólks og að hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið. Á vef Íslenska ferðaklasans má lesa nánar um verkefnið Ábyrg ferðaþjónusta.

Verkefninu er stýrt af Íslenska ferðaklasanum í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar. Meðal annarra samstarfsaðila eru Ferðamálastofa, Íslandsstofa, Markaðsstofur landshlutanna, Safe Travel og Festa – miðstöð um sjálfbærni.

Loftlagsvegvísar atvinnulífsins

Loftlagsbreytingar eru ein stærsta áskorun okkar tíma og hefur Ísland sett sér metnaðarfull markmið um 55% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir 203 og lögfest markmið um kolefnishlutleysi eigi síðar en árið 2040. Til að svo megi verða er mikilvægt að stjórnvöld og atvinnulíf taki höndum saman, móti sér stefnu og taki metnaðarfullar og aðgerðadrifnar ákvarðanir. Í því skyni var ákveðið að koma Loftslagsvegvísum atvinnulífsins (LVA) á legg, en markmið verkefnisins er að auka samstarf og samtal á milli atvinnulífs og stjórnvalda um tækifæri til samdráttar í losun í þeim tilgangi að hraða aðgerðum í þágu loftslagsmarkmiða Íslands og auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs.

Vegvísarnir eru unnir á forsendum íslensks atvinnulífs með stuðningi frá vinnuteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Mikil áhersla var lögð á víðtækt samráð við gerð vegvísanna til að þeir endurspegluðu fjölbreytileika íslensks atvinnulífs og til að efla umræðu um viðfangsefnið innan atvinnugreina. Á Grænþingi Samtaka atvinnulífsins þann 7. júní 2023 afhentu ellefu atvinnugreinar Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, 332 tillögur að aðgerðum sem stuðla eiga að auknum samdrætti í losun atvinnugreina. Vegvísarnir eru lifandi skjöl sem verða uppfærð reglulega og mun þeim fjölga með uppfærslu aðgerða og fjölgun atvinnugreina.

Samtök ferðaþjónustunnar hafa tekið virkan þátt í verkefninu frá upphafi en hér er hægt að skoða loftslagsvegvísi ferðaþjónustu.

Loftslagsvegvísar atvinnulífsins varða leiðina að auknum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda hjá atvinnulífinu til stuðnings settum loftslagsmarkmiðum Íslands en hér má nánar kynna sér  loftslagsvegvísa.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða tók til starfa 8. ágúst 2011 en sjóðurinn er í vörslu Ferðamálastofu sem annast rekstur hans. Samkvæmt lögum nr.75/2011 um Framkvæmdasjóða ferðamannastaða er markmið og hlutverk sjóðsins að veita styrki til uppbyggingar, viðhalds og vernd­unar ferðamannastaða sem eru í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila um land allt og til aðgerða sem stuðla að öryggi ferðamanna og verndun náttúru landsins. Einnig er sjóðnum ætlað að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða fjármagnar framkvæmdir á ferðamannastöðum og ferðamannaleiðum í eigu eða umsjón sveitarfélaga og einkaaðila. Heimilt er að fjármagna framkvæmdir sem snúa að uppbyggingu, viðhaldi og vernd mannvirkja og náttúru á ferðamannastöðum og öryggi ferðamanna.

Ráðherra ferðamála skipar fjóra fulltrúa í stjórn Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til tveggja ára í senn. Þar eiga sæti aðilar sem tilnefndir eru af Samtökum ferðaþjónustunnar, Sambandi íslenskra sveitafélaga, þeim ráðherra sem fer með málefni náttúruverndar og einn án tilnefningar, sem jafnframt skal vera formaður stjórnar. Stjórn sjóðsins skal gera tillögur til ráðherra um úthlutanir úr sjóðnum.

Hægt er að lesa nánar um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða á vef Ferðamálastofu en þar má finna yfirlit yfir úthlutaða styrki, upplýsingasíðu um umsóknir í sjóðinn, kortasjá Framkvæmdasjóðsins og fleira.

Vakinn

Vakinn er gæða- og umhverfisvottun fyrir íslenska ferðaþjónustu. Markmið Vakans er að efla gæði, öryggi og umhverfisvitund í ferðaþjónustu á Íslandi ásamt því að byggja upp samfélagslega ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja. Vakinn, sem hefur verið í boði fyrir íslensk ferðaþjónustu fyrirtæki frá 2012, byggir á Qualmark, nýsjálensku gæða- og umhverfiskerfi fyrir ferðaþjónustu. Mikil vinna var lögð í að staðfæra kerfið og laga að íslenskum aðstæðum og samráð haft við fjölda aðila úr ferðaþjónustu og sérfræðinga á ýmsum sviðum, bæði í upphafi og í gegnum árin, m.a. við hverja endurskoðun viðmiðanna.

Ferðamálastofa stýrir Vakanum en verkefnið var upphaflega unnið í samvinnu við Samtök ferðaþjónustunnar, Nýsköpunarmiðstöð og Ferðamálasamtök Íslands. Frekari upplýsingar má finna á vef Vakans.

Umhverfisdagur atvinnulífsins

Umhverfisdagur atvinnulífsins er árlegur viðburður þar sem umhverfismál eru í brennidepli. Meðal málefna sem fjallað hefur verið um á undanförnum árum eru Loftlagsvegvísar atvinnulífsins, hringrásarhagkerfið, loftlagsbreytingar, fjárfestingar og fleira. Auk áhugaverðra erinda frá aðilum í atvinnulífinu, opinberum stofnunum og af vettvangi stjórnmálanna, hafa Umhverfisverðlaun atvinnulífsins verið veitt fyrirtækjum sem staðið hafa vel að þessum málum. Veitt eru tvenn verðlaun, annars vegar til umhverfisfyrirtækis ársins og hinsvegar fyrir framtak ársins.

Umhverfisdagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samtaka atvinnulífsins, Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnararins og Samtaka verslunar og þjónustu.

Umhverfisdagur atvinnulífsins (1)

Landsáætlun um uppbyggingu innviða

Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum er stefnumarkandi tólf ára áætlun sem fjallar um stefnumótun vegna uppbyggingar innviða á ferðamannastöðum, leiðum og svæðum. Í henni eru sett fram markmið um stýringu og sjálfbæra þróun, vernd náttúru og menningarsögulegra minja, öryggismál, skipulag og hönnun og ferðamannaleiðir. Alþingi samþykkti áætlunina sem þingsályktun í júní 2018.

Samhliða stefnumarkandi landsáætlun er í gildi verkefnaáætlun til þriggja ára, en þar eru settar fram tillögur að verkefnum á ferðamannastöðum, sem lagt er til að njóti stuðnings 2018-2020, auk tillagna um eflda landvörslu. Í verkefnaáætlun 2018-2020 er gerð tillaga um 71 ferðamannastað og eina ferðamannaleið.

Stefnumarkandi landsáætlun og þriggja ára verkefnaáætlun eru unnar samkvæmt lögum, nr. 20/2016, um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Markmið laga þessara er að móta og samræma stefnu um uppbyggingu, rekstur og viðhald innviða í þágu náttúruverndar og til verndar menningarsögulegum minjum vegna álags af völdum ferðamennsku og útivistar.

Verkefnisstjórn landsáætlunar forgangsraðar verkefnum og gerir tillögu að stefnumarkandi tólf ára áætlun og þriggja ára verkefnaáætlun. Í henni sitja fulltrúar forsætisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga, auk umhverfis – og auðlindaráðuneytis. Ráðgjafarnefnd er verkefnisstjórn til ráðgjafar og samráðs við undirbúning stefnumarkandi landsáætlunar til tólf ára. Í tengslum við innleiðingarferli stefnumarkandi landsáætlunar er starfandi Samstarfshópur um eflingu fagþekkingar, hönnunar og samræmingu við uppbyggingu innviða til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum á ferðamannastöðum.

Ferðamálastofa sér um rekstur sjóðsins en hægt er að finna nánari upplýsingar á vef Stjórnarráðsins.

Ýmislegt um sjálfbærni og umhverfismál

Þekkir þú verkefni tengt sjálfbærni sem á heima hér?