Aukin hæfni og fagmennska er lykill að betri rekstri og upplifun
Með auknum vexti ferðaþjónustunnar hefur þörfin fyrir vel þjálfað starfsfólk í atvinnugreininni aukist verulega og hefur fræðslu- og menntunarkostum innan ferðaþjónustu fjölgað samhliða vexti greinarinnar. Aðilum innan ferðaþjónustunnar og þeim sem hafa áhuga á að sækja sér fræðslu og menntun innan greinarinnar stendur nú til boða ýmis konar nám og fræðsla á ólíkum stigum menntakerfisins: á framhaldsskólastigi, háksólastigi (innalands og erlendis) og í gegnum sí- og endurmenntastöðvar. Þá er margs konar stuðningar og ráðgjöf í boði fyrir ferðaþjónustufyrirtæki og starfsfólk þeirra hjá SAF, samstarfsaðilum og eftir opinberum leiðum.
Hér má finna stofnanir sem bjóða upp á nám og fræðslu sem tengjast ferðaþjónustu með beinum hætti. Bent er á að listinn er ekki tæmandi enda margs konar menntun og hæfni sem nýtist vel innan fjölbreyttrar atvinnugreinar líkt og ferðaþjónustu. Á vef Hæfnisetur ferðaþjónustunnar má finna yfirlit yfir nám á Íslandi sem tengist ferðaþjónustu.
Hæft og vel menntað starfsfólk er lykilþáttur í velgengni ferðaþjónustufyrirtækja. Nú á fyrri hluta ársins 2025 hefst nýtt nám og raunfærnimat fyrir ferðaþjónustu, sem Hæfnisetur ferðaþjónustunnar hefur unnið að síðustu ár í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar.
Allar upplýsingar um námið, raunfærnimat, einingafjölda, brautir í boði og námskrá þeirra er að finna á vef Hæfnisetursins.
Samtök ferðaþjónustunnar benda ferðaþjónustufyrirtækjum sérstaklega á að hvetja starfsfólk sem uppfyllir skilyrðin til að nýta sér námið og raunfærnimatið.
Raunfærnimat er leið til að meta þá færni og þekkingu sem öðlast má á vinnumarkaði og getur mögulega stytt nám og verið hvatning til að ljúka því.
Mat á raunfærni byggist á þeirri hugmynd að nám fari ekki eingöngu fram innan formlega skólakerfisins heldur við allskonar aðstæður og í alls konar samhengi. Allt nám er verðmætt og því mikilvægt að það sé skjalfest óháð því hvar þess hefur verið aflað. Raunfærni er því samanlögð færni sem einstaklingur hefur náð með ýmsum hætti, s.s. starfsreynslu, starfsnámi, frístundanámi, skólanámi, félagsstörfum og fjölskyldulífi.
Raunfærnimat er staðfesting og mat á raunfærni einstaklings án tillits til þess hvernig eða hvar hennar hefur verið aflað. Markmiðið er að einstaklingur fái viðurkennda raunfærni, sem hann býr yfir á ákveðnum tíma, þannig að hann þurfi ekki að sækja nám í því sem hann kann. Raunfærnimatið staðfesti hans hæfni. Raunfærnimat getur því mögulega stytt nám og verið fólki hvatning til að ljúka því.
Skilyrði fyrir þátttöku í raunfærnimati eru að viðkomandi hafi náð 23 ára aldri og hafi 3 ára staðfesta starfsreynslu í viðkomandi grein. Einfaldasta leiðin til að fá upplýsingar um raunfærnimat er að hafa samband við náms- og starfsráðgjafa sem starfa á símenntunarmiðstöð í þinni heimabyggð.
Hægt er að kynna sér meira um raunfærnimat hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Iðunni fræðslusetri og Björgunarskóla Landsbjargar.
Menntamorgnar ferðaþjónustunnar eru reglulegir morgunfundir þar sem fjallað er um það sem er efst á baugi varðandi hæfni og gæði ferðaþjónustunnar á Íslandi, til að mynda um öryggismenningu fyrirtækja, samskipti á vinnustað, markaðssetningu og margt fleira. Hægt er að nálgast upptökur af Menntamorgnum á vef Hæfnisetursins.
Menntamorgnar ferðaþjónustunnar eru samstarfsverkefni Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, Samtaka ferðaþjónustunnar og Markaðsstofa landshlutanna.
Menntadagur atvinnulífsins er árlegur viðburður helgaður menntamálum og er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins , Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.
Auk fjölbreyttrar og skemmtilegar dagskrár eru Menntaverðlaun atvinnulífsins veitt í fyrirtækjum sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Verðlaunin eru veitt í tveimur flokkum, annars vegar Menntafyrirtæki ársins og hinsvegar Menntasproti ársins.
Norræna nemakeppnin er árleg keppni nema í matreiðslu og framleiðslu en þar mætast nemar frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi. Markmið keppninnar er að hvetja nemana til bættrar frammistöðu og stuðla að kynningu meðal nema hinna norrænu þjóða. Keppnin á sér langa sögu en fyrsta keppnin var skipulögð árið 1981. Tveir matreiðslunemar og aðrir tveir framreiðslunemar, 23 ára og yngri, keppa frá hverju landi.
Samtök ferðaþjónustunnar og Matvæla- og veitingafélag Íslands (MATVÍS) standa fyrir norrænu nemakeppninni með stuðningi Iðunnar fræðsluseturs.
Á lokamisseri nemenda í ferðamálafræði við Háskóla Íslands taka nemendur þátt í námskeiðinu Starfsþróun í ferðaþjónustu. Tilgangur námskeiðsins er að tengja betur saman fræðilega þekkingu sem unnið er með innan veggja skólans og hagnýta innsýn í atvinnugreinina.
Samtök ferðaþjónustunnar eru samstarfsaðili að námskeiðinu og hefur milligöngu um að tengja fyrirtæki og stofnanir í ferðaþjónustu við námskeiðið. Samstarf SAF og námsbrautar í ferðamálafræði byggir á gömlum grunni en fyrsti samstarfssamningur milli þeirra var gerður árið 2015. Þá var um að ræða eitt valnámskeið í starfsþróun en nú er unnið markvisst að starfsþróun nemenda á öllum námsárum sem endar svo með þessu námskeiði.
Þau fyrirtæki sem hafa áhuga á að taka þátt í samstarfinu geta haft samband við skrifstofu SAF til að fá nánari upplýsingar.
Segull – leiðtogaþjálfun ferðaþjónustunnar er nám fyrir starfsfólk og stjórnendur í ferðaþjónustu sem gengur út á leiðtogahæfni og leiðtogaþjálfun. Segull felur í sér 20 – 30 klst nám sem annars vegar stafrænt nám og hins vegar vinnustofur. Meðal viðfangsefna námsins eru verkefnastjórnun og skipulag, markaðsmál, verðmætasköpun og nýsköpun og fleira.
Akademias býður upp á námið sem er hannað og undirbúið í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar og Íslenska ferðaklasann. Á vef Akademias má finna frekari upplýsingar um Segull – Leiðtogi í ferðaþjónustu.
Athygli er vakin sérkjörum meðlima SAF á námskeiðinu. Þá veita mörg stéttarfélög styrk í gegnum starfsmennuntarsjóði fyrir allt að 90% af náminu en jafnframt eru aðrar styrkjaleiðir færar fyrir fyrirtæki (sjá www.attin.is).
Samtök ferðaþjónustunnar eiga í samstarfi við svissneskar skólasamsteypur en allir skólar samsteypanna hafa löngum verið metnir meðal bestu hótel- og veitingaskóla heims. Samstarf SAF við þessa aðila er liður í því að auka hæfni og gæði í ferðaþjónustu, fjölga valkostum þeirra sem vilja sækja sér menntun í greininni og styrkja tengsl SAF við erlenda aðila. Þá taka samtökin einnig þátt í Evrópuverkefni sem gengur út á þróun, meðferð og öryggi viðurkenninga fyrir örnámskeið í hótel- og veitingarekstri. Kynntu þér samstarfið og verkefnin hér að neðan en frekari upplýsingar fást hjá skrifstofu SAF.
Í maí 2024 undirrituðu Samtök ferðaþjónustunnar samsamstarfsyfirlýsingu við Sommet Education, sem á og rekur meðal annars skólana Les Roches Global Hospitality Education og Glion Institute of Higher Education.
Meðal samstarfsverkefna SAF og Sommet Education er kynning á námi skólanna og þróun styttri námskeiða (e. masterclass) um ýmis málefni hótel- og veitingageirans fyrir stjórnendur og starfsmenn aðildarfyrirtækja SAF. Þá býðst aðildarfélögum SAF kostur á að sækja um námsstyrki vegna framhaldsnáms.
Áhugasömum er bent á að hægt er að bóka viðtalstíma hjá Goran Yordanov, umdæmisstjóra Mið-Evrópu og Norðurlanda hjá Sommet Education, sem veitir upplýsingar og ráðgjöf um þær námslínur sem standa til boða.
Um mitt ár 2024 hófu Samtök ferðaþjónustunnar samstarf við Swiss Education Group (SEG), sem á og rekur skólana Culinary Arts Academy Switzerland, HIM Business School, Swiss Hotel Management School og César Ritz Colleges Switzerland.
Meðal samstarfsverkefna SAF og SEG er kynning á námsframboði skólanna, þróun styttri námskeiða (e. masterclasses) fyrir stjórnendur og starfsfólk aðildarfyrirækja SAF og þróun starfs- og verknáms fyrir nemendur og aðila sem starfa innan hótel- og veitingageirans. Stjórnendum og starfsmönnum aðildafyrirtækja SAF stendur til boða námsstykur til framhaldsnáms.
Hér má finna kynningarbækling um það nám sem er í boði á vegum skóla SEG. Áhugasömum er bent á að hafa samband við skrifstofu SAF.
Í lok árs 2023 var gengið frá samningi um þátttöku SAF í þróunarverkefninu “Upskilling the EU Hospitality Industry with Portable Micro-Credentials”. Verkefnið hlaut 900 þúsund evra styrk úr KA2 – Erasmus+ styrkjaáætlun Evrópusambandsins og miðar að því að þróa örgráður (e. micro credentials) í því skyni að styðja við símenntun með örfræðslu og viðbótarþjálfun (e. upskilling) starfsmanna í hótel- og veitingageiranum. Verkefnið fellur undir Partnerships for Innovation – Forward-Looking Projects. Verkefnið er til þriggja ára og gert ráð fyrir skilum í lok árs 2026.
Verkefninu er stýrt af UCN (University College Nordjylland) í Danmörku. Auk SAF eru þátttakendur í verkefninu:
• Diplomasafe APS
• Hosco (Hospitality connection Barcelona sl)
• C.G.R: Sant Pol (Sant Pol School of Hospitality and Culinary Management | Barcelona)
• Iðan Fræðslusetur
• Nalco Water
• Lobster Ink
• UCN (University college Nordjylland)
• Access Advisors
Innan ESB er mikil áhersla lögð á þróun og innleiðingu örnámskeiða og stafrænni mörkun. Leiðarljósið er að örfræðsla sem studd er öruggri vottun með stafrænum viðurkenningum geri fræðslu aðgengilegri og fólki einfaldara um vik að afla sér nauðsynlegrar færni og hæfni fyrir þátttöku á vinnumarkaði sem er í stöðugri þróun. Ekki er gert ráð fyrir að þessi fræðsluleið komi í stað hefðbundinnar menntunar heldur er um að ræða hreina viðbótarþjálfun sem er til þess gerð að mæta bæði óskum einstaklinga og kröfum vinnumarkaðarins.
Hæfnisetur ferðaþjónustunnar er víðtækt samstarfsverkefni innan greinarinnar sem ætlað er að auka hæfni starfsmanna í ferðaþjónustu. Meðal verkefna Hæfnisetursins er þróun fræðslu- og stuðningsefnis fyrir stjórnendur og starfsfólk í ferðaþjónustu og ráðgjöf og aðstoð til fyrirtækja innan greinarinnar við að koma á fræðslu og þjálfun. Kynntu þér Hæfnisetrið á www.haefni.is
Áttinn er vefgátt nokkurra stórra starfsmenntasjóða og veitir upplýsingar og tekur við umsóknum um ýmsa styrki fyrir fræðslu og menntun starfsmanna. Kynntu þér hvernig þitt fyrirtæki og starfsfólk getur sótt fjármagn til menntunar og fræðslu á www.attin.is
Fræðslumiðstöð atvinnulífsins (FA) er samstarfsvettvangur og verkfærasmiðja eigenda í fullorðins- og starfsmenntun á íslenskum vinnumarkaði. Hlutverk Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins er að auka gæði í fullorðinsfræðslu og starfsfræðslu á vinnumarkaði. Frekari upplýsingar má finna á vef Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins – www.frae.is
Á vef Hæfniseturs ferðaþjónustunnar má finna fjölbreytt úrval verkfæra fyrir stjórnendur og starfsfólk til að efla hæfni og gæði. Þar má meðal annars finna fagorðalista, upplýsingar um nýliðaþjálfun og upplýsinga- og fræðsluvef fyrir framlínustarfsfólk í ferðaþjónustu. Kynntu þér fræðsuefnið á www.haefni.is/fraedsluefni
Verkefnið byggist á að lána mannauðsráðgjafa til fyrirtækja, sérhæfðum í vinnustaðafræðslu og óformlegri menntun. Ráðgjafinn fer yfir fræðslu- og þjálfunarmál fyrirtækisins, dregur fram það sem vel er gert, gerir eða dýpkar greiningu á þörfum fyrirtækisins og samhæfir við önnur námskeið eða viðurkenndar fræðsluleiðir innan óformlega fræðslukerfisins. Kynntu þér verkefnið á www.attin.is/fraedslustjori-ad-lani/
Upplýsingavefurinn Næsta skref veitir upplýsingar um nám, störf, raunfærnimat og ráðgjöf. Kynntu þér næstu skref á www.naestaskref.is.
© 2025 SAMTÖK FERÐAÞJÓNUSTUNNAR. Allur réttur áskilinn.