Saga SAF

Sterkari saman í yfir 25 ár

Sterkari saman!

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) voru stofnuð 11. nóvember 1998 og eru hagsmunasamtök allra fyrirtækja sem starfa í ferðaþjónustu. Samtökin voru byggð á grunni Sambands veitinga- og gistihúsa (SVG), sem stofnuð voru árið 1945 og lögðu önnur hagsmunasamtök sem störfuðu innan ferðaþjónustunnar niður starfsemi sína á sama tíma. Á þessum tímamótum voru hátt í 200 aðilar að SVG sem gengu til liðs við SAF sem í dag telur um 400 fyrirtæki í ferðaþjónustu í öllum geirum greinarinnar um allt land. 

Meginhlutverk SAF er að gæta sameiginlegra hagsmuna félagsmanna sinna gagnvart stjórnvöldum, vinna að vexti og viðgangi greinarinnar og því að fyrirtækin búi við starfsskilyrði sem gera þau samkeppnishæf á alþjóðamarkaði, og stuðla að því að ferðaþjónusta á Íslandi grundvallist á virðingu fyrir landi og þjóð. 

Í dag er fjöldi ólíkra fyrirtækja í SAF. Þar eru flugfélög, ferðaskrifstofur, gististaðir, veitingahús, bílaleigur, hópbifreiðafyrirtæki, afþreyingarfyrirtæki, tæknifyrirtæki, viðburðafyrirtæki og fleiri fyrirtæki sem með margvíslegum hætti telja sig til ferðaþjónustufyrirtækja. SAF starfa með öðrum hagsmunasamtökum og eru þau ein af 6 aðildarsamtökum Samtaka atvinnulífsins sem stofnuð voru 15. september 1999 með samruna Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambandsins. 

Stefna SAF í hinum ýmsum málum unnin á vegum stjórnar og nefnda. Innan samtakanna starfa átta fagnefndir sem hver um sig sinnir málefnum sinnar greinar innan ferðaþjónustunnar. 

Með stofnun og starfi SAF hefur íslensk ferðaþjónusta talað einni röddu gagnvart stjórnvöldum, fjölmiðlum svo og öðrum sem ferðaþjónustufyrirtæki skipta við í 25 ár. Styrkur þess að atvinnugreinin komi sameinuð fram út á við um hagsmunamál sín er óumdeildur eins og fjölmörg dæmi um árangur í hagsmunamálum greinarinnar á liðnum aldarfjórðungi sýna.

Það er kominn gestur

Árið 2014 kom út bókin Það er kominn gestur: Saga ferðaþjónustu á Íslandi, sem var listilega unnin fyrir Samtök ferðaþjónustunnar af þeim Sigurveigu Jónsdóttur og Helgu Guðrúnu Johnson með góðum stuðningi ráðuneytis ferðamála.

Í formála bókarinnar segir Árni Gunnarsson þáverandi formaður SAF meðal annars: 

“Það er skemmtileg tilviljun að á sama tíma og saga ferðaþjónustunnar kemur út á bók eru einmitt þau tímamót að íslensk ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem skapar þjóðarbúinu mestar gjaldeyristekjur. Umfang greinarinnar hefur vaxið gríðarlega á stuttum tíma og því eru margir af frumkvöðlum íslenskrar ferðaþjónustu enn starfandi. Við sem störfum í greininni erum stolt af árangrinum þegar litið er yfir farinn veg og eigum frumkvöðlunum mikið að þakka. Án hugmyndaflugs þeirra og trúar á Ísland sem ferðamannaland hefði ævintýrið aldrei orðið að veruleika.”

Lumar þú á skemmtilegum mola um sögu SAF?