Ferðagögn

Gagnaöflun og rannsóknir eru undirstaða ákvarðana um þróun atvinnugreina

Byggjum þróun ferðaþjónustu á gögnum og rannsóknum

Rannsóknir og gögn gegna lykilhlutverki í ákvörðunartöku, þróun og stefnumótun innan ferðaþjónustu. Með því að nýta gögn og rannsóknir, meðal annars er varða fjölda gesta og ferðavenjur þeirra, áhrif atvinnugreinarinnar á efnahag, samfélag og umhverfi – svo fátt sé nefnt, geta fyrirtæki, stjórnvöld og aðrir hagaðilar tekið upplýstar ákvarðanir sem auka samkeppnishæfni og tryggir langtíma vöxt í greininni.

Verkefni SAF í málaflokknum

Ferðagögn

Ferðagögn Samtaka ferðaþjónustunnar er mælaborð þar sem ýmis svæðisbundin gögn um umsvif ferðaþjónustu í nærsamfélaginu eru sett fram með myndrænum og markvissum hætti.

Í mælaborðinu fyrirfinnast ýmis gögn, meðal annars um atvinnutekjur, skatttekjur sveitarfélaga, framboð og nýtingu gistirýmis og afkomu ferðaþjónustufyrirtækja eftir landshlutum. Ferðagögn nýtast meðal annars opinberum aðilum, starfsfólki í stjórnsýslu og stofnunum og kjörnum fulltrúum á Alþingi og í sveitarstjórnum. Ásamt rekstraraðilum ferðaþjónustufyrirtækja og fjárfestum til að glöggva sig betur á vægi atvinnugreinarinnar.

Kynntu þér mælaborðið á www.ferdagogn.is

Rannsóknamiðstöð ferðamála

Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Háskólans á Hólum. Auk háskólanna þriggja, tilnefna Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofa hvor sinn fulltrúa í stjórn RMF. Markmið miðstöðvarinnar eru að efla rannsóknir á sviði ferðamála, styrkja tengsl háskólastarfs og atvinnulífs og auka þekkingu um ferðamál gegnum innlent og erlent samstarf.

Stefna RMF er að efla rannsóknir og skilning á áhrifum ferðamennsku á hagkerfi, samfélag og umhverfi. Þetta gerir miðstöðin með samstarfi við innlenda og erlenda rannsóknaraðila og atvinnulíf, með útgáfu fræðirita og annarri upplýsingamiðlun og ráðgjöf og með því að standa fyrir ráðstefnum og fyrirlestrum.

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) veita árlega verðlaun fyrir framúrskarandi lokaverkefni um ferðamál sem unnið er af nemanda við háskóla hér á landi. Verðlaunin eru afhent á aðalfundi SAF.

Ráðgefandi nefnd um gagnaöflun og rannsóknir

Samkvæmt reglugerð nr.20/2020 um gagnaöflun og rannsóknir á sviði ferðamála skal Ferðamálastofa móta og láta framkvæma rannsóknaráætlun um þá gagnaöflun, greiningar og rannsóknir sem stjórnvöldum er nauðsynleg til að taka stefnumarkaðandi ákvarðanir um uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu með sjálfbærni að leiðarljósi. Áætlunin er til þriggja ára. Liður við undirbúning og gerð rannsóknaráætlunar er aðkoma ráðgefandi nefndar um gagnaöflun og rannsóknir en með samsetningu nefndarinnar er leitast við að draga að vísindalega þekkingu, kunnáttu og sérfræði hagsmunaðila í greininni. Niðurstöður nefndarinnar skulu lagðar til grundvallar við mótun rannsóknaráætlunar. 

Samtök ferðaþjónustunnar tilnefna einn fulltrúa í ráðgefandi nefnd um gagnöflun og rannsóknir.

Mælaborð og gagnakeldur

Þekkir þú vef eða mælaborð tengt ferðaþjónustu sem á heima hér? Sendu okkur línu á saf@saf.is 

Þekkir þú vef eða mælaborð sem á heima hér?