Samkeppnishæfni ferðaþjónustu er samfélagsmál
Samkeppnishæfar útflutningsgreinar eru grundvöllurinn að lífskjörum þjóðar. Þar gegnir ferðaþjónusta lykilhlutverki, en greinin hefur umbylt efnahag þjóðarinnar á síðustu árum. Samtök ferðaþjónustunnar starfa í þágu félagsmanna sinna og atvinnugreinarinnar allrar til þess að tryggja samkeppnishæfni áfangastaðarins Íslands.
Ferðaþjónustan er ein af undirstöðuatvinnugreinum Íslands og skapar mikil verðmæti fyrir samfélagið í heild. Til að tryggja sjálfbæran vöxt og áframhaldandi samkeppnishæfni er nauðsynlegt að rekstrarumhverfi greinarinnar sé stöðugt, fyrirsjáanlegt og samkeppnishæft í alþjóðlegu samhengi. Stöðugar og ófyrirsjáanlegar breytingar á regluverki, gjöldum og sköttum geta haft neikvæð áhrif á fyrirtæki í greininni og dregið úr hvata til fjárfestinga og nýsköpunar.
Mikilvægt er að stjórnvöld tryggi rekstrarskilyrði sem stuðla að sjálfbærum vexti, meðal annars með skynsamlegri skattastefnu, einföldu og skilvirku regluverki og aukinni fjárfestingu í innviðum. Aðgangur að hæfu vinnuafli, hagstæð fjármögnunarskilyrði og stöðugleiki í opinberri stefnumótun eru lykilþættir í því að ferðaþjónustan geti áfram verið leiðandi atvinnugrein sem skilar miklum efnahagslegum og samfélagslegum ávinningi. Þá er fyrirsjáanleiki grundvallarforsenda þess að fyrirtæki í ferðaþjónustu geti skipulagt sig til lengri tíma og haldið áfram að skapa verðmæti fyrir land og þjóð.
Skilvirkt, einfalt og fyrirsjáanlegt regluverk er lykilforsenda fyrir sjálfbæran vöxt ferðaþjónustunnar og samkeppnishæfni atvinnugreinarinnar. Ferðaþjónustan byggir á öflugu þjónustuumhverfi þar sem skýrar reglur, aðgengi að leyfum og skilvirk stjórnsýsla skipta sköpum. Flókið og óskilvirkt regluverk getur skapað óþarfa hindranir, aukið kostnað og dregið úr hvata til fjárfestinga og nýsköpunar.
Samtök ferðaþjónustunnar vinna markvisst að því að stjórnvöld einfaldi regluverk greinarinnar, stytti boðleiðir í stjórnsýslunni og tryggi að allar breytingar á starfsumhverfi fyrirtækja séu kynntar með nægum fyrirvara. Það er lykilatriði að regluverkið stuðli að fagmennsku og sjálfbærni en sé jafnframt sveigjanlegt og raunhæft. Með skýrri stefnu og skilvirku samstarfi við stjórnvöld er hægt að skapa stöðugt rekstrarumhverfi sem styður við áframhaldandi vöxt ferðaþjónustunnar og eykur samkeppnishæfni íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja.
Samkeppnishæft og fyrirsjáanlegt skattaumhverfi er lykilatriði fyrir rekstur og þróun ferðaþjónustunnar. Skattar og gjöld hafa bein áhrif á verðlagningu, arðsemi og getu fyrirtækja til að fjárfesta í nýsköpun, þjónustugæðum og sjálfbærum lausnum. Ófyrirsjáanlegar skattabreytingar eða íþyngjandi álögur geta dregið úr samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu gagnvart öðrum áfangastöðum og haft neikvæð áhrif á eftirspurn.
Samtök ferðaþjónustunnar vinna að því að tryggja stöðugt og sanngjarnt skattaumhverfi sem styður við vöxt greinarinnar og eflir verðmætasköpun til lengri tíma. Mikilvægt er að skattastefna stjórnvalda taki mið af samkeppnisstöðu Íslands, sé í takt við rekstrargetu fyrirtækja og veiti nægan fyrirvara á breytingum. Með skynsamlegri skattastefnu má tryggja að ferðaþjónustan geti áfram verið drifkraftur í efnahagslífi landsins og skapa verðmæti fyrir samfélagið í heild.
Frá árinu 2022 hafa Samtök ferðaþjónustunnar fengið Reykjavík Economics til þess að reikna skattspor ferðaþjónustunnar og skila skýrslu með sambærilegum hætti og gert hefur verið fyrir stærstu fyrirtæki landsins sem og aðrar atvinnugreinar.
Öflug og stöðug markaðssetning Íslands sem áfangastaðar er lykilatriði til að viðhalda samkeppnishæfni íslenskrar ferðaþjónustu. Ísland er í harðri samkeppni við aðra áfangastaði um athygli ferðamanna, og nauðsynlegt er að tryggja að ímynd landsins sé skýr, eftirsóknarverð og samkeppnishæf á alþjóðlegum vettvangi. Þar skiptir neytendamarkaðssetning hins opinbera lykilmáli – markvisst og viðvarandi markaðsstarf er nauðsynlegt til að tryggja að Ísland verði ekki undir í samkeppninni um ferðamenn.
Einnig er mikilvægt að miðlun upplýsinga til erlendra markaða sé skilvirk, sérstaklega þegar óvænt áföll dynja á, svo sem vegna jarðhræringa eða annarra atburða sem geta haft áhrif á ferðaþjónustuna. Samtök ferðaþjónustunnar hafa ítrekað lagt áherslu á mikilvægi stöðugrar fjármögnunar í markaðssetningu og upplýsingamiðlun, þannig að hægt sé að tryggja öfluga og skipulagða nálgun í samræmi við alþjóðlega samkeppni.
SAF tekur þátt í gerð samninga í gegnum Samtök atvinnulífsins sem fer fyrir viðræðunum fyrir hönd atvinnulífsins. Gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði er eitt meginverkefni Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka þeirra. Ætíð má nálgast nýjustu kjarasamninga á Vinnumarkaðsvef SA.
Samningar Samtaka atvinnulífsins ákvarða lágmarkskjör launafólks í hlutaðeigandi starfsgrein og er óheimilt að semja um lakari kjör.
Með aðild að SAF og SA fela aðildarfyrirtækin Samtökum atvinnulífsins umboð til kjarasamningsgerðar og er einstökum fyrirtækjum óheimilt að semja við stéttarfélög án milligöngu eða samþykkis SA.
Alþjóðaefnahagsráðið (The World Economic Forum – WEF) eru alþjóðleg samtök sem beita sér í stefnumótun á sviði efnahagsmála, iðnaðar og viðskipta. Ráðið er vettvangur þar sem hinir ýmsu hagaðilar úr röðum viðskiptalífsins, stjórnvalda, fræðasamfélagsins, fjölmiðlastéttarinnar og fleiri geta komið saman og unnið saman að framþróun á sviðum efnahagsmála.
Alþjóðaefnahagsráðið birtir vísitölina Travel & Tourim Development Index sem mælir ýmsa þætti er snúa að sjálfbærri þróun ferðaþjónustu sem atvinnugreinar. TTDI vísitalan tekur til 119 landa en alls eru 102 mælikvarðar að baki hennar sem hver um sig fellur undir eina af eftifarandi stoðum: eflandi umhverfi (e. enabling environment), stjórnarstefna í ferðaþjónustu og eflandi aðstæður (e. T&T policy and enabling conditions), innviðir og þjónusta (e. infrastructure and services), ferðaþjónustu innviðir (e. T&T resources) og sjálfbærni ferðaþjónustu (e. T&T sustainability).
Í nýjustu útgáfu TTDI, sem gefin var út í maí 2024, má sjá að Ísland féll niður um 10 sæti frá árinu 2019 og stendur í 32. sæti.
© 2025 SAMTÖK FERÐAÞJÓNUSTUNNAR. Allur réttur áskilinn.