Öryggi

Öryggi gesta og starfsfólks í forgangi

Lifandi öryggismenning í ferðaþjónustu

Öryggismál eru eitt mikilvægasta sameiginlega hagsmunamál ferðaþjónustunnar, hvort sem um ræðir öryggi gesta landsins, fyrir ímynd Íslands sem ferðamannastaðar, öryggismenningu á vinnustöðum eða öryggi þeirra sem starfa í greininni. Öryggi er grunnur að gæðum í ferðaþjónustu og mikilvægt að allir hagaðilar hugi að þessum málum.

Hvar er gott að byrja?

Ferðamálastofa

Ferðamálastofa sinnir ýmsum verkefnum er snúa að öryggi í ferðaþjónustu. Meðal þeirra er:

  • eftirlit með öryggisáætlunum en lögum samkvæmt ber öllum þeim sem framkvæma skipulagðar ferðir á íslensku yfirráðasvæði að hafa slíkar áætlanir.
  • forvarnastarf og aukning öryggisvitundar innan geirans í gegnum fræðslu, leiðbeiningar og ráðgjöf
  • kortlagning á öryggisatvikum
  • kortlagning á hættum á áfangastöðum
  • miðlun öryggisupplýsinga til ferðaþjónustuaðila

Leiðbeinandi reglur um öryggismál

Ferðamálastofa hefur gefið út leiðbeinandi reglur um öryggismál fyrir ferðaþjónustuaðila sem bjóða upp á afþreyingarferðir, þ.e. ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur. Tilgangur reglnanna er að mæta auknum öryggiskröfum til handhafa ferðaskipuleggjenda- og ferðaskrifstofuleyfa ásamt því að einfalda rekstraraðilum leit að þeim öryggiskröfum sem gerðar eru fyrir mismunandi tegundir ferða.

Hægt er að kynna sér leiðbeinandi reglur um öryggismál ferðaskipuleggjanda og ferðaskrifstofa hér.

Vakinn

Ferðamálastofa hefur gefið út leiðbeinandi reglur um öryggismál fyrir ferðaþjónustuaðila sem bjóða upp á afþreyingarferðir, þ.e. ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur. Tilgangur reglnanna er að mæta auknum öryggiskröfum til handhafa ferðaskipuleggjenda- og ferðaskrifstofuleyfa ásamt því að einfalda rekstraraðilum leit að þeim öryggiskröfum sem gerðar eru fyrir mismunandi tegundir ferða.

Hægt er að kynna sér leiðbeinandi reglur um öryggismál ferðaskipuleggjanda og ferðaskrifstofa hér.

Frekari upplýsingar um öryggismál má finna á vef Ferðamálastofu eða í gegnum netfangið oryggi@ferdamalastofa.is

Ýmis verkefni SAF í öryggismálum

Safe Travel

Safetravel er slysavarnaverkefni á vegum Landsbjargar sem er ætlað að auka forvarnir og öryggi ferðamanna hér á landi. Safetravel verkefnið miðar að því að koma upplýsingum til ferðamanna um ábyrga ferðahegðun, ásamt upplýsingum um veður- og akstursskilyrði í rauntíma. Til þess eru nýtt ýmis verkfæri, þar á meðal upplýsingaskjáir víða um landið, heimasíðan safetravel.is, netspjall við þjónustufulltrúa, samfélagsmiðlar og snjallforritið SafeTravel Iceland.

SAF hafa verið samstarfsaðili Landsbjargar um Safetravel frá upphafi verkefnisins árið 2010. Samtökin veita Slysavarnafélaginu Landsbjörg stuðning í formi vinnuframlags starfsmanna SAF vegna ýmissa verkefna tengd samstarfinu.

Viðbragðsáætlun stjórnvalda og ferðaþjónustu

Viðbragðsáætlun stjórnvalda og ferðaþjónustu er ætlað að segja fyrir um skipulag og samhæfingu aðgerða í náttúruvá og öðrum áföllum til að tryggja eins og kostur er öryggi ferðamanna á Íslandi. Engin skref eru tekin án samráðs við Almannavarnadeild RLS. Markmið áætlunarinnar eru að tryggja skipulögð og samhæfð viðbrögð allra aðila á neyðartímum. Ekki er um endanleg fyrirmæli að ræða og geta ríkislögreglustjóri, almannavarnadeild RLS og ferðamálastjóri ákveðið að breyta starfstilhögun með tilliti til ástands og aðstæðna hverju sinni. Helstu verkefnin eru að:

  • Tryggja framkvæmd ákvarðana Samhæfingarstöðvar (SST)
  • Tryggja öryggi ferðamanna á Íslandi
  • Lágmarka áhrif á samgöngur innanlands
  • Lágmarka áhrif neyðarvár á för ferðamanna til og frá Íslandi
  • Vinna að upplýsingaflæði til ferðaþjónustuaðila frá SST
  • Vinna að upplýsingaflæði frá ferðaþjónustuaðilum til SST
  • Upplýsa ferðamenn og veita nauðsynlegan stuðning við þá sem eru strandaglópar
  • Lágmarka áhrif neyðarvár á ímynd og orðspor Íslands sem ferðamannalands

Grunneiningar í stjórnkerfi viðbragðsáætlunnar samanstendur af Samhæfingarstöðinni (SST), aðgerðastjórn ferðaþjónustunnar (ASF), framkvæmdahóp ferðaþjónustunnar (FHF) og sérfræðihóp ferðaþjónustunnar (SHF). Framkvæmdastjóri SAF situr í framkvæmdahóp ferðaþjónustunnar en hlutverk þess hóps er: framkvæmd neyðarviðbragða við vá, upplýsingagjöf til ferðaþjónustunnar og upplýsingagjöf til ASF frá ferðaþjónustu.

Hægt er að kynna sér viðbragðsáætlun stjórnvalda og ferðaþjónustuaðila hér.

Öryggi á vegum

Aldrei má gefa afslátt þegar kemur að því að tryggja öryggi í umferðinni. Samtök ferðaþjónustunnar hafa á undanförnum árum átt frumkvæði að samræðum við stjórnvöld, viðbragðsaðila, tryggingafélög og aðra hagaðila um forvarnaraðgerðir sem snúa að öryggi á vegum landsins. Afrekstur af því starfi eru m.a. stýrisspjöld bílaleigubíla, merkingar á ensku, verkefnið Nap and Go o.fl. Þá hafa samtökin talað fyrir auknu svigrúmi varðandi notkun nelgdra hjólbarða í umferðinni sem hluta af forvarnaraðgerðum til að efla aðgerðir til að draga úr umferðarslysum og hjálpa til við þá núllsýn sem stefnt er að.

Samtökin eiga í miklum samskiptum og samvinnu við Vegagerðina og Samgöngustofu um m.a. vetrarþjónustu, viðhald og öryggismál í vegakerfinu. Þá standa SAF reglulega fyrir opnum félagsfundum með stofnunum þar sem félagsmönnum gefst færi á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.

Eftirlit með erlendri og ólöglegri starfsemi

Það eru sameiginlegir hagsmunir atvinnurekenda, launþega og hins opinbera að stöðva skattsvik, félagsleg undirboð og aðra starfsemi í ferðaþjónustu sem ekki fylgir lögum, reglum og kjarasamningum. Árangur í baráttu við brotastarfsemi í ferðaþjónustu leiðir til jafnara samkeppnisumhverfis og betri afkomu ferðaþjónustufyrirtækja, tryggari atvinnu og betri réttinda starfsfólks í ferðaþjónustu og eykur tekjur ríkisins sem nýtast til uppbyggingar samfélagsins.

Samtök ferðaþjónustunnar kynntu í mars 2019 tillögur á níu sviðum um aðgerðir til að takmarka erlenda og ólöglega starfsemi í ferðaþjónustu á Íslandi. Tillögurnar taka á ýmsum sviðum eftirlits níu opinberra stofnana og fjalla meðal annars um mikilvægi þess að komið verði á lögbundum samstarfsvettvangi eftirlitsaðila. Þær byggja á reynslu eftirlitsaðila og félagsmanna samtakanna og miða að því að koma í veg fyrir skakka samkeppnisstöðu á ferðaþjónustumarkaði.

Tillögurnar taka á eftirfarandi sviðum:

  • Átak gegn skattsvikum
  • Rekstrarleyfi
  • Sjálfboðaliðastarfsemi
  • Eftirlit með erlendum ökutækjum
  • Samvinna eftirlitsaðila
  • Heimagisting
  • Fjármagn og mannaflaþörf
  • Afleiðingar brota og fælingarmáttur
  • Ábendingar og viðbrögð

 

Hægt er að kynna sér tillögurnar í heild sinni hér.

Skýrsla um öryggismál stjónvalda og ferðaþjónustuaðila

Í upphafi árs 2022 skipaði ferðamála-, viðskipta- og menningarmálaráðherra, í samvinnu við dómsmálaráðherra, verkefnastjórn í tengslum við öryggismál stjórnvalda og ferðaþjónustuaðila.

Framkvæmdastjóri SAF sat í verkefnastjórn ásamt aðilum tilnefndum af dómsmálaráðuneytinu, Ferðamálastofu, Ríkislögreglustjóra, Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, Umhverfisstofnun og menningar- og viðskiptaráðuneytinu.

Verkefnastjórninni var falið að:

  • skilgreina eftir því sem kostur er hvaða fjölsóttu ferðamannastaðir geta ógnað öryggi fólks umfram aðra við vissar aðstæður
  • athuga hvaða gildandi lag- og/eða reglugerðarheimildum sé hægt að beita við lokanir á fjölsóttum ferðamannastöðum þegar öryggi og lífi lamennings er fyrirsjáanlega stefnt í hættu
  • athuga hvort þörf sé á laga og/eða reglugerðarbreytingum í þeim tilgangi að loka fjölsóttum ferðamannastöðum þegar öryggi og lífi lamennings er fyrirsjáanlega stefnt í hættu

 

Verkefnastjórn skilaði menningar- og viðskiptaráðherra niðurstöðum sínum í júlí 2022 en í skýrslu verkefnastjórnar leggur hún til nokkrar aðgerðir, þar á meðal að hafin verði vinna við að skilgreina tilgreind áhættusvæði og gert að skylda að áhættumeta umrædd svæði með reglubundnum hætti. Þá bendir hópurinn á að lögregla hefur nú þegar heimild samkvæmt 15. gr. lögreglulaga til að loka aðgengi að fjölsóttum ferðamannastöðum eða takmarka aðgengi að þeim vegna öryggissjónarmiða. Að mati verkefnastjórnar veitir sú heimild viðbragðsaðila tækifæri til að bregðast við með skjótum og einföldum hætti, meðal annars vegna þeirra ólíku aðstæðna sem skapað geta hættu á fjölsóttum ferðamannastöðum, s.s. í kjölfar skjótra breytinga á veðri. Skýrsluna má nálgast í heild hér.

Öryggi í Reynisfjöru

Á Íslandi leynast margar hættur en Reynisfjara sker sig úr þegar kemur að tíðni slysa og ekki síst banaslysa. Það er því gífurlega mikilvægt að öryggi gesta á svæðinu sem sé best tryggt.

Árið 2022 hófu Samtök ferðaþjónustunnar, í samráði við Landsbjörg, söfnun til kaupa á tækjabúnaði á björgunarbúnaði með það að markmiði að bæta öryggi ferðamanna í Reynisfjöru. Söfnun gekk vel og í byrjun maí 2024 afhentu formaður og framkvæmdastjóri björgunarsveitinni Víkverjum í Vík í Mýrdal tvo fjarðstýrða björgunarhringi auk fjármagns til kaupa á hefðbundum dróna sem notaður verður í leitaraðgerðum, m.a. í Reynisfjöru.

Auk SAF lögðu eftirfarandi fyrirtæki söfnuninni lið:

  • Nordic Visitor hf.
  • Ferðaskrifstofa Kynnisferða ehf.
  • Straumhvarf ehf.
  • Snæland Grímsson ehf.
  • GoNorth
  • Katla DMI ehf.
  • Bílaleiga Flugleiða ehf.
  • Bílaleiga Reykjavikur
  • Bílaleiga Akureyrar
  • Blue Lagoon
  • Keahótel ehf.
  • Brekkugerði ehf.
  • Leiðsögn – félag leiðsögumanna
  • Ferðaþjónusta bænda
  • Viator ehf.
  • True adventure ehf.
  • Iceland Encounter ehf.
  • Arnarstakkur ehf.
  • Góð framkvæmd ehf.
Öryggi í Reynisfjöru

Vopn gegn vændi

Verkefnið Vopn gegn vændi og kynlífsmansali er samstarfsverkefni Reykjavíkurborgar, Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og Samtaka ferðaþjónustunnar.

Verkefnið byggir á fræðsluefni fyrir hótel og gististaði um vændi og kynlífsmansal. Markmiðið með gerð efnisins er að starfsfólk hótela, gististaða og veitingastaða þekki einkenni vændis og kynlífsmansals og tilkynni það til lögreglu ef grunur leikur á að slíkt fari fram á staðnum.

Fræðsluefnið var unnið af þeim Stellu Sif Jónsdóttur, Ísól Fanney Ómarsdóttur, Þórgunni Jóhannsdóttur, Ágústu Ýr Sveinsdóttur, Ingunni Þorðvarðsdóttur og Bryndísi Ósk Björnsdóttur í samvinnu við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavíkurborg og Samtök ferðaþjónustunnar. Verkefnið var hluti af áfanga í MPM námi við Háskólann í Reykjavík.

Fræðsluefnið inniheldur fyrirlestur ásamt myndböndum og efni til að stilla fram á hótelum og gististöðum. Í fræðsluefninu er að finna myndbönd sem framleidd voru af sænsku lögreglunni og evrópsku samtökunum Real Stars. Í myndböndunum má sjá ólíkar aðstæður sem geta komið upp og eiga að kenna starfsfólki að bera kennsl á það hvort um sé að ræða kaupendur eða seljendur vændis.

Fyrirtæki í ferðaþjónustu geta nýtt efnið til að fræða sitt starfsfólk. Þá er einnig hægt að fá fyrirlesara á vegum SAF sem fer yfir kynningu á efninu. Hægt er að hafa samband í gegnum netfangið saf@saf.is fyrir nánari upplýsingar.

Fræðsluefnið:

Samtök ferðaþjónustunnar hvetja alla sem starfa í ferðaþjónustu til að láta sig málefnið varða og taka þannig þátt í að útrýma þeirri vá sem mansal og vændi er.

Vefur

Netöryggi

Við búum í síbreytilegum heimi þar sem netöryggismál eru brýnni en nokkru sinni, hvort sem um er að ræða stórfyrirtæki eða örfyrirtæki – þvert á allar atvinnugreinar. Svikarar verða sífellt klókari í að ná fram sínu og afleiðingar netárása fyrir rekstraraðila geta verið gríðarlegar miklar. Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) hafa því tekið höndum saman um að miðla upplýsingum um netöryggi í formi fræðslumola og örfyrirlestra.

Á vormánuðum 2024 fengu samtökin Hörn Valdimarsdóttur, sérfræðing í netöryggismálum, til þess halda örfyrirlestur um hvernig sálfræði er eitt sterkasta vopn hakkarans. Hægt er að horfa á upptöku af fyrirlestrinum hér: Listin að hakka fólk! Örfyrirlestur um netöryggi.

Þá birta SAF og SVÞ hollráð og fræðslumola á miðlum sínum og við hvetjum rekstraraðila til að fylgjast með og huga að þessum málum. Einnig er bent á vef háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins um netöryggi en þar má finna ýmsa fræðslu og úrræði sem eiga erindi við alla sem vilja huga að netöryggismálum.

Ábyrg ferðaþjónusta

Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni um að íslensk ferðaþjónustufyrirtæki sammælist um einfaldar og skýrar aðgerðir um ábyrga ferðaþjónustu. Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar. Fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu skuldbunda sig til að setja sér og birta markmið um samfélagsábyrgð. Er þar horft til eftirfarandi atriða: að ganga vel um og virða náttúruna, að tryggja öryggi gesta og koma fram við þá af háttvísi, að virða réttindi starfsfólks og að hafa jákvæð áhrif á nærsamfélagið. Á vef Íslenska ferðaklasans má lesa nánar um verkefnið. (ATH ítarlegri umfjöllun hjá FESTA)

SAF er á meðal samstarfaðila að verkefninu Ábyrg ferðaþjónusta ásamt FESTA – miðstöð um sjálfbærni, Íslenska ferðaklasanum, Ferðamálastofu, Íslandsstofu, Markaðsstofu landshlutanna og Safe Travel.

Ertu með ábendingu varðandi öryggismál?