Starfsemi

Ferðaþjónusta stuðlar að bættum lífskjörum og hagsæld

Hagsmunavörður og málsvari ferðaþjónustunnar

Samtök ferðaþjónustunnar reka fjölþætta starfsemi í þágu aðildarfyrirtækja í samtökunum og atvinnugreinarinnar í heild. Þau eru heildarsamtök ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi og eiga í samskiptum við stjórnvöld sem hagsmunavörður þeirra. Samtökin veita aðildarfélögum ýmsa mikilvæga þjónustu og eru rödd og málsvari atvinnugreinarinnar á opinberum vettvangi. 

SAF eru heildarsamtök ferðaþjónustufyrirtækja á Íslandi og hagsmunavörður þeirra

Samtökin eiga í miklum og reglulegum samskiptum við stjórnvöld á öllum stjórnsýslustigum um starfs- og rekstrarumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja – við Alþingi, ráðuneyti, opinberar stofnanir og sveitarfélög. Samtökin veita þessum aðilum meðal annars fjölda umsagna um opinber mál á ýmsum stigum stjórnsýslunnar og taka þannig virkan þátt í mótun laga og reglna um ferðaþjónustu og starfsumhverfi fyrirtækjanna. Innan samtakanna fer fram öflugt fagnefndastarf fyrirtækja í mismunandi greinum ferðaþjónustunnar og samtökin eiga í fjölbreyttu samstarfi við samtök og aðila innanlands og utan.

Starfsemi SAF

SAF veita aðildarfélögum margvíslega þjónustu

Aðildarfélög samtakanna hafa meðal annars aðgang að ráðgjöf varðandi vinnumarkaðs- og kjaramál, gerð samninga og úrlausn álitamála varðandi starfsmannahald og túlkun kjarasamninga. Þá geta aðildarfélögin sótt til samtakanna lögfræðiráðgjöf um álitaefni varðandi rekstur ferðaþjónustufyrirtækja, rekstrarráðgjöf varðandi spurningar um rekstur fyrirtækja, aðstoð varðandi samskipti og úrlausn mála gagnvart opinberum stofnunum og ráðgjöf varðandi fjölmiðlasamskipti og krísustjórn. Samtökin halda einnig saman greiningum á tölfræði og gögnum varðandi ferðaþjónustu og miðla til aðildarfélaganna.

SAF eru málsvari og rödd ferðaþjónustunnar í opinberri umræðu

Samtökin taka þátt í opinberri umræðu um ferðaþjónustu og ferðaþjónustufyrirtæki með það að markmiði að fræða, upplýsa og miðla þekkingu um ferðaþjónustu til stjórnvalda og almennings. SAF safna þannig saman og miðla upplýsingum um ferðaþjónustu, koma fram í fjölmiðlum sem málsvari atvinnugreinarinnar og stuðla þannig að jákvæðri og staðreyndamiðaðri umræðu um þróun ferðaþjónustu á Íslandi og mikilvægi hennar fyrir lífskjör þjóðarinnar allrar. Þá standa SAF fyrir fjölda viðburða á hverju ári sem snúa að tilteknum sviðum ferðaþjónustu og tengslum hennar við samfélagið.  

Starfsemi