Við erum SAF - sterkari saman

Trúnaðarfólk samtakanna leggur grunninn að samtakamætti ferðaþjónustunnar

Trúnaðarfólk SAF - spegilmynd ferðaþjónustunnar

Fjölbreyttur hópur trúnaðarfólks tekur virkan þátt í starfi Samtaka ferðaþjónustunnar og styrkir þannig starfsemi og rödd samtakanna um land allt.

Að baki starfsemi Samtaka ferðaþjónustunnar stendur fjöldi trúnaðarfólks sem tekur virkan þátt í faglegu samstarfi ferðaþjónustuaðila og hagsmunagæslu atvinnugreinarinnar. Trúnaðarfólk SAF eru stjórn samtakanna, fagnefndir og starfsfólk og aðrir félagsmenn sem gegna trúnaðarstörfum fyrir samtökin á vettvangi SAF og SA.

Þessi hópur kemur úr öllum kimum atvinnugreinarinnar – frá litlum og stórum fyrirtækjum, víðs vegar á landinu og úr ólíkum starfsgreinum ferðaþjónustu. Með þátttöku sinni leggja þau fram dýrmæta reynslu, sjónarmið og þekkingu sem endurspeglar fjölbreytileika íslenskrar ferðaþjónustu. Hvort sem um ræðir aðila í gististarfsemi, veitingarekstri, afþreyingu, samgöngum eða annarri þjónustu við ferðafólk, þá er öflugt trúnaðarfólk órjúfanlegur hluti af starfi SAF.

Þessi fjölbreytti hópur – sem spannar allt frá einstaklingum í sjálfstæðum rekstri til stórra fyrirtækja – er burðarásinn í samtakamættinum sem Samtök ferðaþjónustunnar byggir á. Þau skapa brú á milli fyrirtækja, svæða og atvinnugreina og tryggja að samtökin tali fyrir hagsmunum íslenskrar ferðaþjónustu.

Við erum SAF - Sterkari saman

Á starfsárinu 2025-2026 telur hópur trúnaðarfólks SAF yfir 80 manns. Þau eru framkvæmdastjórar, forstjórar, verkefnastjórar, lögfræðingar, upplýsingafulltrúar og veitingastjórar. Sum eiga fyrirtækin sem þau stýra, önnur reka hótel, stjórna flugi eða leiða mannauðs- og gæðasvið. Hver og einn kemur með sína sérfræðiþekkingu og reynslu — hvort sem það er úr ævintýraferðum, vöruþróun, rekstri áfangastaða eða rekstri hópferðabíla.

Sum starfa hjá fyrirtækjum sem hafa verið aðilar að Samtökum ferðaþjónustunnar frá stofnun samtakanna, á meðan önnur hafa komið inn á undanförnum árum með krafti. Meðaltími aðildar fyrirtækjanna sem trúnaðarmenn SAF starfa hjá er tæplega 17 ár. Þá er meðal starfstími trúnaðarfólks SAF í ferðaþjónustu tæp 24 ár og sá lengsti 45 ár. Hópurinn býr því yfir gríðarlega mikilli þekkingu og reynslu.

Þrátt fyrir ólíkan bakgrunn, starfstitla og reynslu í atvinnugreininni er markmiðið sameiginlegt: að efla íslenska ferðaþjónustu með fagmennsku og samvinnu.

Fagnefndir SAF 2025-2026

Aðildarfyrirtæki SAF standa að öflugu fagnefndastarfi fyrirtækja þar sem fjallað er um sameiginleg álitamál og úrlausnarefni og stefnumarkandi málefni er varða viðkomandi starfsgreinar innan ferðaþjónustunnar.

Afþreyingarnefnd

Bílaleigunefnd

Ferðaskrifstofunefnd

Flugnefnd

Gististaðanefnd

Hópbifreiðanefnd

Siglinganefnd

Veitinganefnd

Stjórn SAF 2025-2026

Stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar fer með málefni samtakanna á milli aðalfunda en hana skipa formaður og sex meðstjórnendur.

Fulltrúar SAF á vettvangi SA 2025-2026

SAF eru aðildarsamtök að Samtökum atvinnulífsins, sem eru heildarsamtök íslensks atvinnulífs. Þar eiga Samtök ferðaþjónustunnar 18 fulltrúa í fulltrúaráði og fjóra fulltrúa í stjórn, ásamt því að formaður SAF situr í framkvæmdastjórn SA.

Starfsfólk SAF

Á skrifstofu Samtaka ferðaþjónustunnar starfar öflugur hópur sérfræðinga sem annast allan daglegan rekstur samtakanna og hefur það að markmiði að efla ferðaþjónustu á Íslandi.