Viðburðir

Reglulegir viðburðir á ferðaþjónustuárinu

Félagsfundir, fræðslufundir, ráðstefnur og fjör

Samtök ferðaþjónustunnar og Samtök atvinnulífsins standa fyrir fjölda viðburða sem snúa að málefnum ferðaþjónustunnar og atvinnulífsins í heild, til að mynda um efnahagsmál, rekstararumhverfi fyrirtækja, umhverfis- og sjálfbærnimál, stjórnsýslu og mennta- og fræðslumál. SAF standa fyrir reglulegum viðburðum af ýmsu tagi og áhugasamir geta fylgst með vefsíðum og samfélagsmiðlum SAF og SA – og tölvupóstinum sínum – til þess að fá upplýsingar um þá fjölmörgu viðburði sem samtökin standa að á hverju ári. 

Ferðaþjónustudagurinn

Samtök ferðaþjónustunnar standa fyrir Ferðaþjónustudeginum ár hvert. Dagurinn er helgaður málefnum atvinnugreinarinnar og er frábær vettvangur fyrir leikna og lærða í ferðaþjónustu til þess að hittast og ræða málefni greinarinnar. Hér má kynna sér fyrri Ferðaþjónustudaga.

Árið 2023 var Ferðaþjónustudagurinn með öðru sniði en áður, en þá voru liðin 25 ár frá stofnun samtakanna. Því var blásið til glæsilegrar afmælisráðstefnu undir yfirskriftinni „Samtaka í 25 ár“. Ráðstefnan er einn stærsti ferðaþjónustuviðburður sem haldinn hefur verið hér á landi, en um 400 gestir sóttu viðburðinn þar sem boðið var upp á fjölda erinda í fjórum þemum, um framtíð ferðaþjónustunnar, vöruþróun í greininni, þekkingu á ferðaþjónustu og áhrif hennar á samfélagið.

Hér má nálgast upptökur af erindunum og frekari upplýsingar um ráðstefnuna og efni og upptökur frá Ferðaþjónustudögum síðustu ára.

Ferðaþjónustuvikan og Nýársmálstofa ferðaþjónustunnar

Samtök ferðaþjónustunnar, Íslenski ferðaklasinn og KPMG halda í upphafi hvers árs Nýársmálstofu ferðaþjónustunnar. Dagskrá fundarins tengist niðurstöðum úr viðhorfskönnun sem KPMG framkvæmir árlega meðal ferðaþjónustufyrirtækja, auk þess sem rætt er um málefni greinarinnar hverju sinni.

Nýársmálstofa ferðaþjónustunnar er hluti ferðaþjónustuvikunnar. Vikan fer fram í upphafi hvers árs og þar er áhersla lögð á að auka vitund um mikilvægi ferðaþjónustu og efla samstarf og fagmennsku í greininni með fróðlegri og skemmtilegri dagskrá. Ferðaþjónustuvikan er samstarfsverkefni SAF, Markaðsstofu landshlutanna, Íslenska ferðaklasans, Ferðamálastofu og Íslandsstofu.

Nýármálstofa

Menntamorgnar ferðaþjónustunnar

Menntamorgnar ferðaþjónustunnar eru reglulegir morgunfundir þar sem fjallað er um það sem er efst á baugi varðandi hæfni og gæði ferðaþjónustunnar á Íslandi, til að mynda um öryggismenningu fyrirtækja, samskipti á vinnustað, markaðssetningu og margt fleira. Menntamorgnar ferðaþjónustunnar eru samstarfsverkefni Hæfniseturs ferðaþjónustunnar, Samtaka ferðaþjónustunnar og Markaðsstofa landshlutanna.

Dagur Ábyrgrar ferðaþjónustu

Dagur Ábyrgrar ferðaþjónustu er árlegur viðburður þar sem sjálfbærni og samfélagsleg ábyrgð ferðaþjónustufyrirtækja er í brennidepli. Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni sem er stýrt af Íslenska ferðaklasanum í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar og fleiri hagaðila. Hægt er að kynna sér verkefnið nánar hér.

Á viðburðinum fara fram fræðandi og skemmtileg erindi er tengjast meginþemum Ábyrgrar ferðaþjónustu: virðingu fyrir og verndun náttúru, öryggi og kurteisi í samskiptum við ferðamenn, réttindi starfsfólks og jákvæð áhrif á nærsamfélag.

Þá er veitt viðurkenning til fyrirtækis sem þykir hafa skarað fram úr þegar kemur að ábyrgum og sjálfbærum rekstrarháttum en forseti Íslands, sem jafnframt er verndari verkefnisins, veitir verðlaunin.

Z49kf5bqstJ99qwW_B93A1259

Haustfundur hótel- og veitingamanna

Haustfundur hótel- og veitingamanna er vettvangur rekstraraðila í veitinga- og gistiþjónustu til þess að koma saman og ræða þau málefni er varða þessar greinar sérstaklega, til að mynda um lykil hagtölur í hótel- og veitingarekstri, tækninýjungar, mannauðsmál og fleira.

Fundurinn byggir á gamalli hefð Sambands veitinga- og gistihúsa en SAF voru stofnuð á grunni þeirra samtaka. Mikil ánægja hefur verið með þessa fundi en sú hefð hefur myndast að annað hvert ár er fundurinn haldinn á höfuðborgarsvæðinu en árið á móti er fundurinn haldinn á landsbyggðinni.

Skattspor ferðaþjónustunnar

Þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustu hér á landi ætti að vera orðið öllum ljóst enda er atvinnugreinin er ein stærsta útflutningsstoð þjóðarbúsins. Á undanförnum árum hefur orðræða landsmanna og stjórnmálanna hins vegar oftar en ekki verið á þann veg að ferðaþjónusta skili litlu eða að minnsta kosti ekki nægjanlega miklu til hins opinbera eða samfélagsins. Í raun hefur ferðaþjónusta, sem og aðrar atvinnugreinar, verið undir sívaxandi þrýstingi að gera grein fyrir skattspori sínu, eða með öðrum orðum, að gera grein fyrir því hversu miklu greinin skilar til samfélagsins í formi skatta og gjalda.

SAF fengu því Reykjavík Economics til þess að reikna skattspor ferðaþjónustunnar fyrir árið 2022 og skila skýrslu með sambærilegum hætti og hefur verið gert fyrir stærstu fyrirtæki landsins sem og aðrar útflutningsatvinnugreinar. Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar á vel sóttum morgunverðarfundi í desember 2023. Skattspor ársins 2023 var kynnt á sambærilegum fundi í febrúar 2025 en stefnt er að því að vinna sambærilega skýrslu ár hvert og kynna á opnum fundi.

Skýrslur um skattspor ferðaþjónustunnar eru aðgengilegar á útgáfuvef SAF.

Umhverfisdagur atvinnulífsins

Umhverfisdagur atvinnulífsins er árlegur viðburður þar sem umhverfismál eru í brennidepli. Meðal málefna sem fjallað hefur verið um á undanförnum árum eru Loftlagsvegvísar atvinnulífsins, hringrásarhagkerfið, loftlagsbreytingar, fjárfestingar og fleira. Auk áhugaverðra erinda frá aðilum í atvinnulífinu, opinberum stofnunum og af vettvangi stjórnmálanna, hafa Umhverfisverðlaun atvinnulífsins verið veitt fyrirtækjum sem staðið hafa vel að þessum málum. Veitt eru tvenn verðlaun, annars vegar til umhverfisfyrirtækis ársins og hinsvegar fyrir framtak ársins.

Umhverfisdagur atvinnulífsins er samstarfsverkefni Samtaka atvinnulífsins, Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnararins og Samtaka verslunar og þjónustu.

Umhverfisdagur atvinnulífsins

Menntadagur atvinnulífsins

Menntadagur atvinnulífsins er árlegur viðburður helgaður menntamálum og er samstarfsverkefni Samorku, Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka fyrirtækja í fjármálaþjónustu, Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtaka iðnaðarins , Samtaka verslunar og þjónustu og Samtaka atvinnulífsins.

Auk fjölbreyttrar og skemmtilegar dagskrár eru Menntaverðlaun atvinnulífsins veitt í fyrirtækjum sem hafa staðið sig vel á sviði fræðslu- og menntamála. Verðlaunin eru veitt í tveimur flokkum, annars vegar Menntafyrirtæki ársins og hinsvegar Menntasproti ársins.

Menntadagur 25

Hotel Camp

HotelCamp er heilsdags samkoma þar sem þátttakendur koma með tillögur og kjósa um umræðuefni sem fjalla á um. Þá eru hringborðumræður um umræðuefnin þar sem skoðanir og hugmyndir eru ræddar með alþjóðlegum þátttakendum og styrktaraðilum víðsvegar að úr Evrópu og Íslandi.

Hver þátttakandi getur tekið virkan þátt, lagt fram hugmyndir sínar, þekkingu og kosið um æskileg umræðuefni. HotelCamp býður uppá tækifæri til að ræða ný umræðuefni í afslöppuðu umhverfi en hægt er að kynna sér viðburðinn nánar á vef HotelCamp.

Fylgstu með viðburðadagatalinu