Ferðamálastefna til 2030

Leiðandi í sjálfbærri þróun

Víðtækt samráð um framtíð greinarinnar

Í júní 2024 samþykkti Alþingi tillögu ferðamálaráðherra til þingsályktunar um ferðamálastefnu og aðgerðaráætlun til 2030. Öðlaðist þingsályktunin þegar gildi. Stefnan og aðgerðaáætlun var unnin í náinni samvinnu við atvinnulíf, grasrót og fagfólk úr ólíkum geirum, en um 100 einstaklingar höfðu beina aðkomu að gerð stefnunnar og aðgerðaáætlunarinnar og yfir þúsund haghafar tóku þátt settu mark sitt á hana í samráðsferlinu.

Stefnurammi og aðgerðaáætlun

Ferðasmálastefna til 2030 er tvíþætt, annars vegar stefnurammi eða leiðarljós sem sett er fram í myndinni hér að neðan, hins vegar aðgerðaáætlun sem ætlað er að færa íslenska ferðaþjónustu nær markmiðum stefnurammans. Stefnuramminn var fyrst gefinn út árið 2019 og síðar uppfærður árið 2023. Stefnuramminn byggir á fjórum víddum, Efnahag, samfélagi, Umhverfi og gestum, og leggur upp grunnmarkmið fyrir hverja og eina. Á sama hátt er grunnur lagður með fjórum stoðum samhæfingar, þekkingar, samgangna og gæða.

Framtíðarsýn stefnunnar er að hér á landi sé rekin arðsöm og samkeppnishæf ferðaþjónusta sem starfi í sátt við bæði land og þjóð. Ferðaþjónustan stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld á Íslandi og verði áfram ein af grundvallarstoðum íslensks efnahagslífs. Meginmarkmið ferðamálastefnu er að tryggja framtíðarsýn ferðaþjónustu til lengri tíma og að styðja við sjálfbærni í ferðaþjónustu á öllum sviðum, þannig að íslensk ferðaþjónusta verði þekkt fyrir gæði og einstaka upplifun.

Við framkvæmd ferðamálastefnu er lögð áhersla á jafnvægi og samþættingu á milli víddanna fjögurra, efnahags, samfélags, umhverfis og gesta. Undir hverri stoð er að finna þrjá áhersluþætti sem varða veginn til næstu ára

Með aðgerðaáætlun, sem er hluti ferðamálastefnu, verður framtíðarsýn, áherslum og markmiðum ferðamálastefnu fylgt eftir til 2030 með skilgreindum, kostnaðarmetnum og tímasettum aðgerðum. Alls er þar um 43 aðgerðir að ræða sem skiptast niður á lykilstoðir ferðaþjónustu.

Hægt er að kynna sér ferðamálastefnuna og aðgerðaáætlunina nánar á www.ferdamalastefna.is og fylgjast má með stöðu aðgerða á vef Ferðamálastofu.

Aðkoma Samtaka ferðaþjónustunnar

Árið 2014 var blásið til samstarfs stjórnvalda og Samtaka ferðaþjónustunnar um að vinna Vegvísi í ferðaþjónustu, að greina verkefni sem nauðsynleg voru til að efla þróun greinarinnar og setja markmið um þau. Í kjölfarið var Stjórnstöð ferðamála sett á laggirnar til að vinna þau verkefni sem lögð voru upp í Vegvísinum. Að stjórnstöðinni stóðu fjögur ráðuneyti, Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök ferðaþjónustunnar. Eitt af síðustu verkefnum Stjórnstöðvarinnar var að hefja vinnu við stefnumótun fyrir íslenska ferðaþjónustu til 2030. Stefnuramminn og grunnur að aðgerðaáætlun var unninn áður en Covid19 faraldurinn stöðvaði vinnuna.

Vinnan var svo tekin up aftur á vegum ráðuneytis ferðamála árið 2022 í samvinnu við SAF.

Í maí 2023 skipaði Lilja Dögg Alfreðsdóttir, þáverandi ferðamálaráðherra, sjö starfshópa sem falið var að vinna tillögur að aðgerðum í aðgerðaráætlun fyrir ferðamálastefnu til ársins 2030.

Verkefnið í heild var leitt af stýrihópi á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytisins (MVF) og formenn starfshópanna sjö áttu sæti í þeim stýrihópi, ásamt Ferðamálastjóra, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, MVF og formanni Ferðamálaráðs.

SAF skipaði 14 aðila af þeim 54 sem sátu í starfshópunum, þar sem hver starfshópur var skipaður af 6 til 8 sérfróðum aðilum, auk formanns. Jafnframt voru tveir starfsmenn verkefnisins starfsmenn SAF, það eru Ágúst Elvar Bjarnason, verkefnastjóri SAF og Diljá Matthíasardóttir, hagfræðingur SAF.

Ferðamálastefna og aðgerðaáætlunin var samþykkt sem þingsályktun í júní 2024 og hófst þá vinna við aðgerðir samkvæmt henni. Samtök ferðaþjónustunnar koma áfram að starfshópum og undirbúningi aðerða, enda er ferðamálastefnan í heild sameign stjórnvalda og SAF og samvinnuverkefni til framtíðar.

Pétur Óskarsson formaður SAF, Pétur Þ. Óskarsson framkvæmdastjóri Íslandsstofu, Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra, Arnar Már Ólafsson ferðamálastjóri og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar

Ertu með ábendingu varðandi ferðamálastefnu?