Ferðagögn - Atvinnutekjur

Hvert er umfang ferðaþjónustu í landshlutum og sveitarfélögum um allt land?

Hve margir starfa við ferðaþjónustu í mínu sveitarfélagi?

Í mælaborði ferðagagna má finna samantekt um atvinnutekjur í ferðaþjónustu í nærsamfélaginu og hvernig þær skiptast milli landshluta og sveitarfélaga. Þar er meðal annars hægt að sjá þróun tekna yfir tíma, samanburð milli svæða og hvernig tekjur endurspegla umsvif ferðaþjónustunnar á hverjum stað.

Atvinnutekjur eru einn skýrasti mælikvarðinn á efnahagsleg áhrif greinarinnar í heimabyggð. Þær sýna hvar verðmæti verða til, hvernig ferðaþjónustan styður við störf og þjónustu og hvaða vægi hún hefur í staðbundnu atvinnulífi. Gögnin undirstrika að ferðaþjónusta skapar verðmæti víða um land, þó umfang og vægi sé ólíkt milli svæða.

Atvinnutekjur af ferðaþjónustu

Í mælaborði Ferðagagna er hægt að nálgast helstu  yfirlitsstærðir um ferðaþjónustu á Íslandi. Í mælaborðinu eru tekin saman á einn stað ýmis gögn sem sýna ýmsar stærðir um ferðaþónustu á landinu í heild, í mismunandi landshlutum og alveg niður á einstök sveitarfélög. Grunnhugsunin í mælaborðinu er að ef horft er á hvert einstakt sveitarfélag sem lítið hagkerfi gefi mælaborðið upplýsingar um umfang ferðaþjónustu í því hagkerfi.  

Mælaborðið tekur m.a. saman

Hve stór hluti af atvinnutekjum í þínu nærsamfélagi verður til í ferðaþjónustu?

Atvinnutekjur í ferðaþjónustu sem verða til í nærsamfélögum skipta sköpum fyrir lífvænleg byggð og öflugt sveitarfélag. Þegar gestir kaupa þjónustu og afþreyingu á staðnum skapast aðstæður hjá fyrirtækjum til að fjölga fjölbreyttari heils árs störfum í sveitarfélaginu, kaupa vörur og þjónustu af öðrum í landshlutanum og styrkja hið staðbundna hagkerfi. Þetta styrkir líka skattstofna sveitarfélaga, eykur svigrúm til að byggja upp innviði, þjónustu og menningarlíf. Þannig styðja atvinnutekjur af ferðaþjónustu við búsetu, nýsköpun og framtíðartækifæri um land allt.

Hve margir starfa við ferðaþjónustu í þínu nærsamfélagi?

Fjöldi starfandi í ferðaþjónustu eftir landshlutum og sveitarfélögum sýnir skýrt hvar greinin skapar atvinnu og hversu víðtæk áhrif hennar eru um land allt. Störfin endurspegla ekki aðeins fjölda gesta heldur einnig getu fyrirtækja til að halda úti heilsársstarfsemi, byggja upp þekkingu og tryggja þjónustugæði sem nýtast einnig íbúum í nærsamfélaginu. Þegar fleiri starfa í greininni á staðnum styrkist vinnumarkaður, tekjugrunnur heimila og stoðir annarra greina sem tengjast virðiskeðju ferðaþjónustunnar. Slík dreifing starfa styður við búsetu, jafnar tækifæri milli svæða og eykur viðnámsþrótt sveitarfélaga gagnvart sveiflum.

Hvert er hlutfall ferðaþjónustu af heildarfjölda starfandi fólks í þínu nærsamfélagi?

Hlutfall ferðaþjónustu af heildarfjölda starfandi eftir landshlutum og sveitarfélögum varpar ljósi á hversu stórt hlutverk greinin gegnir í atvinnulífi hvers staðar. Þar sem hlutfallið er hátt er ferðaþjónustan oft lykilstoð í tekjuöflun heimila og starfsemi fyrirtækja, en jafnframt meiri viðkvæmni fyrir sveiflum í eftirspurn, árstíðasveiflum og ytri áföllum. Þar sem hlutfallið er lægra bendir það til þess að aðrar rótgrónari atvinnugreinar séu sterkari á viðkomandi svæði eða að mikil tækifæri séu þar enn ónýtt.

Hve mörg ferðaþjónustufyrirtæki greiða fólki laun í þínu nærsamfélagi?

Fjöldi launagreiðenda í ferðaþjónustu eftir landshlutum gefur mynd af því hvar fyrirtæki starfa og hversu fjölbreyttur rekstrargrunnur greinarinnar er á hverju svæði. Hafa þarf í huga að mörg fyrirtæki eru skráð á höfuðborgarsvæðinu og hafa þar höfuðstöðvar, en að það þýðir þó ekki endilega að starfsemin sé bundin við sama svæði. Fjöldi þessara fyrirtækja rekur margvíslega þjónustu víða um land. Við túlkun gagnanna er því mikilvægt að hafa í huga muninn á skráningu fyrirtækja og staðsetningu starfsemi, sérstaklega þegar metin eru áhrif ferðaþjónustu í nærsamfélögum.

Hvert er hlutfall ferðaþjónustu af heildarfjölda launagreiðenda í þínu nærsamfélagi?

Hlutfall ferðaþjónustu af heildarfjölda launagreiðenda á hverju svæði sýnir hversu stór hluti fyrirtækjaflórunnar starfar í ferðaþjónustu og hversu mikilvæg hún er sem burðarás í atvinnulífi nærsamfélagsins. Hátt hlutfall bendir til þess að ferðaþjónusta sé víða lykilgrein í rekstri, þjónustu og virðiskeðjum á svæðinu, en getur jafnframt aukið viðkvæmni fyrir árstíðasveiflum og breytingum í eftirspurn. Lægra hlutfall getur endurspeglað fjölbreyttari atvinnugrunn eða að ferðaþjónustan sé enn að vaxa. Gögnin nýtast því m.a. til að meta bæði tækifæri og áhættu, og styðja betri ákvarðanir um innviði, regluverk og stuðning við atvinnuþróun.