Ferðagögn - Gististaðir og árstíðasveifla

Hvert er umfang ferðaþjónustu í landshlutum og sveitarfélögum um allt land?

Hvað dvelja ferðamenn lengi í mínu nærsamfélagi?

Í mælaborði ferðagagna má finna samantekt um gististaði og gistinætur í nærsamfélaginu og hvernig þær skiptast milli landshluta og sveitarfélaga. Þar er meðal annars hægt að sjá þróun gistinátta yfir tíma, samanburð milli svæða, nýtingu gistirýmis og vísbendingar um árstíðasveiflu eftir mánuðum og tímabilum.

Gögn um gistingu eru meðal skýrustu mælikvörðunum á umsvif ferðaþjónustu á hverjum stað. Gistinætur sýna hvar gestir dvelja og hvernig eftirspurn dreifist, nýting gefur mynd af jafnvægi framboðs og eftirspurnar og rekstrarforsendum fyrirtækja, og árstíðasveifla varpar ljósi á toppa og dali sem hafa áhrif á innviði, þjónustu og heilsársstarfsemi. Gögnin undirstrika að ferðaþjónustan er mikilvæg um land allt, þótt nýting og dreifing gistinátta sé ólík milli svæða.

Gististaðir og árstíðasveifla ferðaþjónustu

Í mælaborði Ferðagagna er hægt að nálgast helstu  yfirlitsstærðir um ferðaþjónustu á Íslandi. Í mælaborðinu eru tekin saman á einn stað ýmis gögn sem sýna ýmsar stærðir um ferðaþónustu á landinu í heild, í mismunandi landshlutum og alveg niður á einstök sveitarfélög. Grunnhugsunin í mælaborðinu er að ef horft er á hvert einstakt sveitarfélag sem lítið hagkerfi gefi mælaborðið upplýsingar um umfang ferðaþjónustu í því hagkerfi.  

Mælaborðið tekur m.a. saman

Gistinætur sem mælikvarði

Gistinætur eru einn gagnlegasti mælikvarðinn á umsvif ferðaþjónustu, því þær sýna bæði fjölda gesta og lengd dvalar á áfangastaðnum. Með gistinóttum má greina þróun yfir tíma, bera saman landshluta og sveitarfélög og meta hvernig eftirspurn dreifist milli mánaða og árstíða. Þær tengjast einnig beint nýtingu innviða, svo sem gistirýmis, samgangna og þjónustu, og eru því gagnlegar við áætlanagerð fyrirtækja og sveitarfélaga.

Um leið er mikilvægt að hafa í huga að gistinætur eru mældar miðað við mismunandi tegundir gististaða (stundum t.d. aðeins á hótelum) og ná því ekki alltaf yfir alla dvöl, til dæmis þegar gestir gista hjá vinum og vandamönnum eða í óskráðri gistingu. Því er best að lesa gistinætur samhliða öðrum mælikvörðum, svo sem komum ferðamanna, eyðslu og atvinnu, til að fá heildstæða mynd af áhrifum ferðaþjónustu.

Hér eru gistinætur birtar sem mæling gistinátta á öllum tegundum gististaða.

Hve margar gistinætur voru seldar í þínu nærsamfélagi?

Fjöldi gistinátta er lykilmælikvarði á það hvernig ferðaþjónustan skilar umsvifum og verðmætasköpun í hverju nærsamfélagi. Þær sýna hvar gestir dvelja, hversu lengi og hvernig eftirspurn dreifist milli landshluta og sveitarfélaga yfir árið. Þannig nýtast gistinætur til að meta nýtingu gistirýmis og annarra innviða, álag á þjónustu og hvaða svigrúm er til uppbyggingar og heilsársstarfsemi. Fyrir nærsamfélög skipta gistinætur sérstaklega máli vegna þess að gestir verkja verðmætum á og nærri dvalarstað, t.d. á veitingastöðum, í afþreyingu og verslun. Gögn um gistinætur hjálpa því bæði fyrirtækjum og sveitarfélögum að taka betri ákvarðanir um skipulag, fjárfestingar og þjónustu sem nýtist jafnt íbúum og gestum.

Hvernig mælum við árstíðasveifluna?

Árstíðasveifla er mismunandi milli landshluta og getur endurspeglað bæði aðgengi, þjónustuframboð og hvernig gestir dreifast yfir árið. Á sumum svæðum (fjær höfuðborgarsvæðinu) safnast eftirspurnin á fáa sumar­mánuði, sem leiðir til mikilla toppa í álagi á gistingu, samgöngur og þjónustu, en rólegra tímabila þess á milli. Á öðrum svæðum (nær höfuðborgarsvæðinu) er dreifingin jafnari, til dæmis þar sem afþreying, viðburðir, aðgengi eða náttúruaðstæður styðja vetrar- og axlartímabil og skapa stöðugri rekstrarforsendur.

Fyrir nærsamfélög skiptir því miklu að vinna markvisst að því að byggja upp heilsársstörf. Jafnari eftirspurn gerir fyrirtækjum kleift að halda í þekkingu og starfsfólk, bæta þjónustugæði, fjárfesta í öryggi og viðhaldi. Hún dregur einnig úr sveiflum í tekjum fyrirtækja og heimila, styrkir staðbundinn atvinnugrunn og auðveldar sveitarfélögum áætlanagerð um innviði og þjónustu. Með minni árstíðasveiflu verður ferðaþjónustan stöðugri stoð í byggðaþróun og skapar fleiri heilsársstörf og betri framtíðartækifæri um land allt.

Hvernig er árstíðasveifla ferðaþjónustunnar í þínu nærsamfélagi?

Hlutfall ferðaþjónustu af heildarfjölda starfandi eftir landshlutum og sveitarfélögum varpar ljósi á hversu stórt hlutverk greinin gegnir í atvinnulífi hvers staðar. Þar sem hlutfallið er hátt er ferðaþjónustan oft lykilstoð í tekjuöflun heimila og starfsemi fyrirtækja, en jafnframt meiri viðkvæmni fyrir sveiflum í eftirspurn, árstíðasveiflum og ytri áföllum. Þar sem hlutfallið er lægra bendir það til þess að aðrar rótgrónari atvinnugreinar séu sterkari á viðkomandi svæði eða að mikil tækifæri séu þar enn ónýtt.

Hversu mörg leyfi til heimagistingar eru skráð í þínu nærsamfélagi?

Heimagisting og skráð leyfi til heimagistingar eru mikilvægur hluti gistimarkaðarins og segja til um hvernig framboð gistirýmis þróast í nærsamfélögum. Fjöldi skráðra leyfa gefur vísbendingu um umfang starfsemi sem er í formlegum farvegi og fellur undir skilyrði um skráningu og eftirlit. Þannig nýtast gögn um heimagistingu til að setja heildarframboð í samhengi, meta dreifingu gesta milli svæða og skilja áhrif á atvinnulíf og tekjur á staðnum. Jafnframt skipta þessi gögn máli fyrir sveitarfélög við skipulag og áætlanagerð, þar sem heimagisting getur haft áhrif á húsnæðismarkað, álag á þjónustu og þörf fyrir innviði. Með skýrri yfirsýn yfir skráða heimagistingu  og virkt eftirlit verður auðveldara að styðja sjálfbæra þróun ferðaþjónustu og jafnvægi í nærsamfélögum.

Hvernig eru innviðirnir nýttir?

Nýting hótelherbergja er mikilvægur mælikvarði á það hversu vel ferðaþjónustuinnviðir nýtast og hvaða forsendur eru fyrir uppbyggingu í nærsamfélögum. Hún er gjarnan sýnd sem nýtingarhlutfall (hlutfall seldra herbergja af heildarframboði á tímabili) og segir til um jafnvægi milli eftirspurnar og framboðs.

Há nýting getur bent til sterkrar eftirspurnar og skapað svigrúm til fjárfestinga, heilsársstarfsemi og aukinna tekna í nærsamfélaginu, en getur líka aukið álag á innviði og ýtt undir þörf fyrir markvissa stýringu og uppbyggingu. Lág eða mjög sveiflukennd nýting getur hins vegar bent til árstíðasveiflna, of mikils framboðs eða takmarkaðrar dreifingar gesta, sem hefur áhrif á afkomu fyrirtækja og getu þeirra til að fjárfesta.

Þannig nýtist herbergjanýting vel til að meta bæði tækifæri og áhættu í uppbyggingu ferðaþjónustu á hverju svæði.