Árstíðasveifla er mismunandi milli landshluta og getur endurspeglað bæði aðgengi, þjónustuframboð og hvernig gestir dreifast yfir árið. Á sumum svæðum (fjær höfuðborgarsvæðinu) safnast eftirspurnin á fáa sumarmánuði, sem leiðir til mikilla toppa í álagi á gistingu, samgöngur og þjónustu, en rólegra tímabila þess á milli. Á öðrum svæðum (nær höfuðborgarsvæðinu) er dreifingin jafnari, til dæmis þar sem afþreying, viðburðir, aðgengi eða náttúruaðstæður styðja vetrar- og axlartímabil og skapa stöðugri rekstrarforsendur.
Fyrir nærsamfélög skiptir því miklu að vinna markvisst að því að byggja upp heilsársstörf. Jafnari eftirspurn gerir fyrirtækjum kleift að halda í þekkingu og starfsfólk, bæta þjónustugæði, fjárfesta í öryggi og viðhaldi. Hún dregur einnig úr sveiflum í tekjum fyrirtækja og heimila, styrkir staðbundinn atvinnugrunn og auðveldar sveitarfélögum áætlanagerð um innviði og þjónustu. Með minni árstíðasveiflu verður ferðaþjónustan stöðugri stoð í byggðaþróun og skapar fleiri heilsársstörf og betri framtíðartækifæri um land allt.