Hvert er umfang ferðaþjónustu í landshlutum og sveitarfélögum um allt land?
Í mælaborði ferðagagna er að finna ýmis gögn um ferðaþjónustu í nærsamfélaginu, meðal annars um atvinnutekjur, skatttekjur sveitarfélaga, framboð og nýtingu gistirýmis og afkomu ferðaþjónustufyrirtækja.
Ferðaþjónusta hefur margvísleg áhrif á landshluta og sveitarfélög landsins sem koma meðal annars fram í fjölbrayttari atvinnutækifærum og auknum lífsgæðum íbúa. Vægi ferðaþjónustu er misjafnt eftir landshlutum og sveitarfélögum en gögnin sýna að atvinnugreinin er orðin traust stoð um allt land.
Í mælaborði Ferðagagna er hægt að nálgast helstu yfirlitsstærðir um ferðaþjónustu á Íslandi. Í mælaborðinu eru tekin saman á einn stað ýmis gögn sem sýna ýmsar stærðir um ferðaþónustu á landinu í heild, í mismunandi landshlutum og alveg niður á einstök sveitarfélög. Grunnhugsunin í mælaborðinu er að ef horft er á hvert einstakt sveitarfélag sem lítið hagkerfi gefi mælaborðið upplýsingar um umfang ferðaþjónustu í því hagkerfi.
Mælaborðið tekur m.a. saman
Ferðaþjónusta er stærsta einstaka útflutningsgreinin í efnahag Íslands og hefur mælst um 8-9% af landsframleiðslu frá árinu 206 (að faraldursárunum undanskildum. Hlutfall greinarinnar í heildarvinnustundum hefur mælst í kring um 10% á sama tímabili. Alþjóðlegur samanburðar sýnir að hlutfall af landsframleiðslu er ekki ósvipað Evrópuríkjum þar sem fjölbreytni efnahagslífs er takmörkuð líkt og hér. Aukin fjölbreytni með fleiri sterkum útflutningsstoðum mun því að líkindum draga úr hlutfallslegu vægi ferðaþjónustu í landsframleiðslu til framtíðar.
Þá er um tíunda hvert starf í ríkjum EES svæðisins ferðaþjónustustarf, svo að hlutfall heildarvinnustunda í ferðaþjónustu á Íslandi er fyllilega sambærilegt við það.
Yfirleitt er mest talað um erlenda ferðamenn þegar rætt er um ferðaþjónustu á Íslandi og verðmætin sem þeir skapa. En innlendir ferðamenn eru ekki síður mikilvægir fyrir atvinnugreinina og byggðir um allt land þar sem ferðaþjónusta stendur undir mikilvægum hlura atvinnutækifæra í nærsamfélaginu.
Á grafinu sést að hlutur innlendra ferðamanna í heildarneyslu í ferðaþjónustu á áfangastaðnum Íslandi stór, sérstaklega þegar litið er til þess að fjöldi íbúa hér á landi er töluvert minni en fjöldi erlendra ferðamanna. Innlendir ferðamenn eru því mikilvægir fyrir bæði atvinnugreinina og ferðaþjónustubyggðir um allt land.
Ferðaþjónusta stóð undir um þriðjungi allra útflutningstekna Íslands árið 2024 og fór hæst í rúm 40% á árunum 2016-2018. Útflutningstekjur færa nýtt fjármagn og erlendan gjaldeyri inn í samfélagið, sem styrkir efnahagsstöðugleika og greiðir fyrir nauðsynlegum innflutningi. Þær skapa störf og skatttekjur sem gera samfélaginu kleift að fjárfesta í innviðum, menntun og heilbrigðisþjónustu. Sterkur útflutningur dregur úr sveiflum og styður við byggðir um allt land, aukna velferð og svigrúm til að bregðast við áföllum. Sterkar útflutningstekjur eru lykillinn að bættum lífskjörum fólks á Íslandi.
Mikilvægt er að muna að tekjur í ferðaþjónustu geta vaxið án þess að afkoma fyrirtækja batni í sama takti. Tekjur mæla umsvif, en ekki hvað situr eftir þegar búið er að greiða laun og launatengd gjöld, húsaleigu, orkureikninga, aðföng, sölukostnað og þóknanir til milliliða. Þá geta hærri vextir, gengissveiflur og verðbólga þrengt að rekstrinum, jafnvel þegar sala og verð eru há. Í mati á stöðu atvinnugreinarinnar þarf því alltaf að horfa á framlegð, rekstrarhagnað og sjóðstreymi fyrirtækjanna.
Veltan ein og sér segir lítið um getu fyrirtækja til að standa undir skuldum og fjárfestingu í starfsfólki, hæfni, fasteignum, búnaði, viðhaldi, stafrænni tækni og öryggi þegar álag og kostnaður sveiflast.
Fjöldi erlendra ferðamanna er mælikvarði sem flestir þekkja og er mikið notaður í umræðu um ferðaþjónustu. Á bak við fjöldann geta hins vegar legið ýmsar breytur sem hafa áhrif á það hvað fjöldinn þýðir í raun og veru fyrir efnahagslífið. Samsetning ferðamanna frá mismunandi mörkuðum, mismunandi dreifing milli markhópa, dvalarlengd hvers og eins, hvernig dreifing ferðamanna er um landið ofl. hefur áhrif á það hvaða verðmæti hver ferðamaður skilur eftir sig í íslenska hagkerfinu.
Þess vegna eru mælikvarðar sem mæla þau verðmæti sem ferðaþjónusta skapar og ferðamenn skilja eftir í samfélaginu mun sterkari og mikilvægari, t.d. útflutningstekjur, neysla í ferðaþjónustu og verðmæti á hvern ferðamann.
© 2025 SAMTÖK FERÐAÞJÓNUSTUNNAR. Allur réttur áskilinn.