Flugnefnd SAF stóð nýlega fyrir opnum félagsfundi um alþjóðaflug og losunarheimildir ETS þar sem til umræðu var sérlausn Íslands með losunarheimildir í flugi, sem mun að óbreyttu renna út í lok árs 2026.
Á fundinum fór Ingólfur Friðriksson, deildarstjóri Evrópumála í utanríkisráðuneytinu yfir hvernig viðskiptakerfi með losunarheimildir hefur þróast frá því kerfið var fyrst tekið upp árið 2005 og fór yfir þróun viðskiptakerfisins með tilliti til flugsamgangna. Þá ræddi Ingólfur stuttlega loftslagsmarkmið sem lönd innan ESB og EES hafa tileinkað sér, eins og FIT for 55, sem gengur út á að minnka kolefnislosun um 55% fyrir árið 2030.
Ingólfur kynnti fundarmönnum sérlausn Íslands vegna viðskiptakerfis losunarheimilda (ETS) í flugstarfsemi sem rennur út í lok árs 2026. Hann fór yfir áhrifagreiningar og þann aukna kostnað sem flugumferð til og frá Íslandi verður fyrir ef ekkert verður að gert. Ljóst er aukinn kostnaður vegna losunarheimilda (ETS) mun hafa gríðarleg áhrif á flugumferð um Ísland þar sem vegalengdir á milli áfangastaða eru mjög langar.
Fram kom hjá Ingólfi að stjórnvöld gera sér grein fyrir mikilvægi millilandaflugs í íslensku hagkerfi og þeim áhrifum sem aukinn þungi viðskiptakerfis með loftslagsheimildir felur í sér. Í því samhengi fór Ingólfur yfir hvað verið er að gera til að viðhalda samkeppnishæfni í millilandaflugs á Íslandi eftir 1. janúar 2027 og eru miklar vonir bundnar við að sú vinna skili góðum árangri.
