Evrópusambandið hefur undanfarin ár unnið að rafrænu skráningarkerfi ferðamanna sem ferðast inn fyrir sameiginleg landamæri Schengen svæðisins – svokölluðu Entry/Exit System(skammstafað EES). Nú hefur verið tilkynnt að innleiðing skráningarkerfisins muni hefjast þann 12. október 2025 á öllum ytri landamærum Schengen-svæðisins, þar á meðal á landamærum Íslands.
Kerfið mun leysa af hólmi handstimplun vegabréfa og færa skráningu komu og brottfarir ferðamanna til og frá ríkjum utan Schengen yfir í stafrænt form.
Samevrópskt kynningarefni er tilbúið til dreifingar
Evrópusambandið hefur útbúið samræmt kynningarefni um Entry/Exit kerfið og það er nú aðgengilegt félagsmönnum SAF á 26 tungumálum sem ættu að hafa fengið niðurhalstengil í pósti. SAF hvetja aðildarfyrirtæki til að nýta efnið vel í samskiptum við viðskiptaaðila sína.
Hvað er Entry/Exit kerfið og hvernig virkar það?
Kerfið skráir sjálfkrafa helstu upplýsingar um ferðamanninn, þ.e. nafn, fæðingardag, vegabréfanúmer, fingraför og andlitsmynd, þegar hann fer um ytri landamæri Schengen. Markmið skráningarinnar er að flýta fyrir afgreiðslu á landamærum, bæta öryggi og tryggja nákvæma skráningu um hvenær ferðamenn koma og fara, sem hjálpar til við að koma í veg fyrir ólöglega yfirveru.
Kerfið tekur aðeins til borgara utan Evrópska efnahagssvæðisins og Sviss sem ferðast til eða frá Schengen.
Innleiðing á Íslandi hefst 12. október 2025
Ísland, sem aðili að Schengen-samstarfinu, tekur þátt í innleiðingu frá 12. október 2025. Samkvæmt ákvörðun Evrópusambandsins verður innleiðingin stigvaxandi og gert er ráð fyrir að henni verði að fullu lokið að sex mánuðum liðnum
- Frá 12. október 2025: Aðeins lítið hlutfall farþega fer í gegnum EES kerfið við brottför.
- Hlutfallið hækkar smám saman næstu sex mánuði þar til 100% innleiðing næst.
- Fyrstu mánuðina verður kerfið einungis í notkun á Keflavíkurflugvelli.
- Að sex mánuðum liðnum verður það komið í gagnið á öllum ytri landamærum Íslands.
Hvað þurfa aðildarfélög SAF að hafa í huga?
Breytingin mun hafa áhrif á ferðaupplifun margra viðskiptavina íslenskrar ferðaþjónustu. Ferðaþjónustufyrirtæki þurfa því að kynna sér nýju reglurnar og tryggja að starfsfólk sé vel upplýst. Þá er mikilvægt að gera ráð fyrir að upplýsa þurfi erlenda viðskiptavini um breytingarnar áður en þeir ferðast til eða frá landinu og vera undirbúin fyrir mögulegar tafir fyrstu vikurnar þar sem kerfið verður tekið í notkun í bland við núverandi ferla.
ATHUGIÐ: Mikilvægt að aðskilja annars vegar Entry/Exit landamærakerfið sem mun taka gildi 12. október 2025, og hins vegar ETIAS ferðaheimildakerfið sem áætlað er að taki ekki gildi fyrr en á fjórða ársfjórðungi 2026.