Fimmtudaginn 25. september sl. bauð afþreyingarnefnd Samtaka ferðaþjónustunnar til félagsfundar undir yfirheitinu „Öryggismál í ævintýraferðaþjónustu“. Tilefni fundarins var m.a. sú umræða sem hefur átt sér stað í samfélaginu í kjölfar slyss á Breiðamerkurjökli í ágúst 2024 en sú umræða hefur snúið að öryggi ferðamanna í skipulögðum ævintýraferðum.
SAF hafa löngum unnið að hinum ýmsu verkefnum er kemur að öryggismálum ferðaþjónustunnar en fundir sem þessir eru gott tækifæri fyrir rekstraraðila að hittast og ræða saman um málefnið.
Góð staða en tækifæri til úrbóta

Fundurinn hófst á erindi frá Jeff Baierlein, framkvæmdastjóra Viristar, alþjóðlegs ráðgjafafyrirtækis sem sérhæfir sig í öryggi, gæðum og fagmennsku í ævintýraferðaþjónustu. Hann þekkir Ísland vel en hann starfaði sem einn af kennurum í leiðsögunámi í ævintýraferðamennsku við Keili. Í erindinu var farið yfir reynslu Viristar í þeirra störfum við stefnumótun og innleiðingu á öryggiskröfum í ævintýraferðaþjónustu. Hann fór yfir hvernig reglur og staðlar hafa reynst í löndum eins og Nýja-Sjálandi, Sviss og Bretlandi og hvernig samræmd nálgun getur aukið öryggi, tryggt sanngjarnari samkeppni og styrkt orðspor áfangastaða. Í erindinu kom fram að Ísland hefur þegar trausta stöðu í öryggismálum ferðaþjónustu en tækifæri séu til úrbóta með skýrara regluverki, úttektum á öryggismálum og markvissum stuðningi stjórnvalda við fyrirtæki í greininni.
Á fundinum var m.a. rætt um stöðu öryggismála í ævintýraferðaþjónustu, hvernig megi efla öryggismenningu og hvernig fyrirtæki og samtökin geta unnið saman að því efla traust og fagmennsku í greininni.
Sjónarhorn rekstraraðila
Að loknu erindi Jeff fór fram vinnufundur þar sem framtíðarsýn öryggismála í ævintýraferðaþjónustu á Íslandi var rædd og hvernig atvinnugreinin sjálf vill sjá þróun næstu ára þegar kemur að málaflokknum. Þar komu meðal annars fram hugmyndir til þess að styðja við öryggismenningu fyrirtækja, stafrænar lausnir og aukin fræðsla og hvatning. Þá var einnig rætt um eftirlit og eftirfylgni, sem og mikilvægi samstarfs atvinnugreinarinnar og stjórnvalda um málaflokkinn.
SAF og Viristar hefja samstarf
Á fundinum var samstarf SAF og Viristar kynnt. En aðilarnir hafa skrifað undir samstarfssamning sín á milli sem snýr að þjálfun í áhættustjórnun fyrir rekstraraðila í ævintýraferðaþjónustu á Íslandi. Félagsmenn SAF geta því nú fengið 20% afslátt af námskeiðinu Risk Management for Outdoor Programs.
Námskeiðið er 40 klukkustunda netnámskeið þar sem boðið er upp á alhliða öryggisþjálfun sem er sniðin að atvinnulífinu og ævintýrafólki. Námskráin sameinar sjálfsnám á netinu og umræður í beinni útsendingu í gegnum fjarfundi. Lykiláherslur sem fjallað er um eru öryggismenning, bestu starfshættir í greininni, kerfisbundin hugsun og fleira sem snýr að því að efla öryggi í starfsemi fyrirtækja í ævintýraferðaþjónustu. Að námskeiði loknu fá þátttakendur skírteini frá Viristar.
Félagsmönnum í SAF sem vilja nýta sér afsláttinn er bent á að hafa samband við Ágúst Elvar Bjarnason, verkefnastjóra afþreyingarnefndar í gegnum netfangið agust@saf.is
Eitt skref í einu
Ferðaþjónusta á Íslandi er framarlega þegar kemur að öryggi ferðamanna og því ber að halda á lofti. Atvinnugreinin sjálf hefur leitt þennan málaflokk þegar kemur að ævintýraferðum og það er mikilvægt að halda því áfram. Fundurinn var einungis eitt skref í áttina að aukinni öryggismenningu og munu samtökin halda áfram að styðja íslenska ferðaþjónustu í þeirri vegferð. Við eigum ekki að vera hrædd við taka þessa umræðu um öryggismál í íslenskri ferðaþjónustu enda eigum við aldrei að gefa afslátt á öryggi.