Hótel Breiðdalsvík hlaut hvatningarverðlaun Ábyrgrar ferðaþjónustu 2022

Frá afhendingu hvatningarverðlauna Ábyrgrar ferðaþjónustu 2022. Friðrik Árnason, framkvæmdastjóri Hótels Breiðdalsvíkur ásamt Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, sem afhenti verðlaunin og þeim Jóhannesi Þór Skúlasyni, framkvæmdastjóra SAF og Ástu Kristínu Sigurjónsdóttur, framkvæmdastjóra Íslenska ferðaklasans.

Dagur Ábyrgrar ferðaþjónustu fór fram í Grósku þann 13. desember sl. en við sama tilefni afhenti forseti Íslands, Guðni Th Jóhannesson, hvatningaverðlaun Ábyrgrar ferðaþjónustu.

Í ár var viðfangsefni hvatningarverkefnisins Ábyrg ferðaþjónusta að tengja saman sjálfbærnistefnu, heimsmarkmiðin og ábyrga ferðaþjónustu. Á degi Ábyrgrar ferðaþjónustu var litið yfir farinn veg og horft á það sem hefur áunnist á árinu og viðurkenning veitt fyrir eftirtektarverðan árangur.

Margar frambærilegar tilnefningar bárust dómnefnd að þessu sinni og því var valið ekki auðvelt. Í tilnefningunum komu fram sýnishorn frá fyrirtækjum sem hafa með verkum sínum sýnt fram á að sjálfbærni og ábyrg ferðaþjónusta, þ.e. með áherslu á umhverfi, réttindi starfsfólks, öryggismál og nærumhverfi stendur hjarta þeirra nærri og eru öðrum til eftirbreytni.

Hvatningarverðlaunin að þessu sinni fær Hótel Breiðdalsvík fyrir að taka á þessu stóra og mikilvæga verkefni á skipulagðan og markvissan hátt síðastliðið ár. Sjálfbærnistefna hótelsins er afar vel ígrunduð. Hringrásarhagkerfið er haft að leiðarljósi og markvisst unnið með Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna við gerð sjálfbærnistefnunnar. Hér birtist hugmyndafræði sjálfbærrar ferðaþjónustu á mannamáli sem er allt í senn auðlesin, fróðleg og innihaldsrík.

Frá degi Ábyrgrar ferðaþjónustu 2022.

Við gerð sjálfbærnistefnunnar var horft til gilda Hótel Breiðdalsvíkur sem eru: metnaður, gleði og framúrskarandi þjónusta í sátt við umhverfið. Þessi gildi endurspeglast vel í útskýringum forsvarsmanna hótelsins á því hvernig markmiðum stefnunnar er fylgt eftir í daglegum rekstri. Því til viðbótar er mikil áhersla lögð á að hótelið er ekki bara hótel heldur virkur og ábyrgur þátttakandi í samfélaginu á Breiðdalsvík.

Forsvarsmenn Hótels Breiðdalsvíkur eru hvattir til að halda áfram að byggja ofan á þá vinnu sem hefur verið lögð í að gera ferðaþjónustu að leiðandi afli í samfélagi sem byggir á því að allir hagaðilar njóti góðs af. Í skilaboðunum frá rekstraraðilum kemur fram að það þarf ekki að finna upp hjólið; við skiptumst á hugmyndum, gögnum og þekkingu, vinnum stanslaust að því að gera betur og vinnum saman á sviði vöruþróunar. Hótel Breiðdalsvík er vel að þessum hvatningarverðlaunum komið.

Í dómnefnd fyrir Hvatningarverðlaun Ábyrgrar ferðaþjónustu 2022 sátu Berglind Viktorsdóttir, gæðastjóri hjá Ferðaþjónustu bænda hf. – Hey Iceland og Bændaferðir, Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknamiðstöðvar ferðamála og Jón Gestur Ólafsson, gæða, umhverfis og öryggisstjóri hjá Höldi ehf. – Bílaleigu Akureyrar.

Dómnefnd valdi þrjú fyrirtæki af þeim fimmtán tilnefningum sem bárust til að kynna sérstaklega sína vegferð þar sem þau þykja framúrskarandi í sinni vinnu. Hin tvö auk Hótel Breiðdalsvíkur voru Midgard Adventure og Pink Iceland.

Óskum við þeim öllum innilega til hamingju auk allra þeirra frábæru fyrirtækja sem hafa lagt af stað í sjálfbærniferðalagið með markvissum hætti.

Dagur Ábyrgrar ferðaþjónustu er haldinn í samstarfi Íslenska ferðaklasans, Samtaka ferðaþjónustunnar, Ferðamálastofu og Íslandsstofu.

Tengdar fréttir

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök hafa opnað fyrir tilnefningar til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins 2025. Hvetja samtökin aðildarfyrirtæki til að senda inn tilnefningar eigi síðar …

Vesturland sótt heim

Á dögunum gerðu Samtök ferðaþjónustunnar víðreist um Vesturland þar sem formaður og starfsfólk samtakanna hittu fyrirtæki í ferðaþjónustu, forystufólk í sveitarstjórnum og …

Fjöldi kvenna í ferðaþjónustu komu saman í Gamla kvennaskólanum sl. miðvikudag til þess að fagna upphafi verkefnisins Konur í ferðaþjónustu sem Samtök …

Samtök ferðaþjónustunnar hafa skilað umsögn til forsætisráðuneytisins um áform um atvinnustefnu Íslands til 2035, sem kynnt voru í Samráðsgátt stjórnvalda 11. ágúst. …

Eitt ár er þar til Íslendingar upplifa almyrkva á sólu í fyrsta sinn síðan 1954. Um sögulegan atburð er að ræða því …

Evrópusambandið hefur undanfarin ár unnið að rafrænu skráningarkerfi ferðamanna sem ferðast inn fyrir sameiginleg landamæri Schengen svæðisins – svokölluðu Entry/Exit System(skammstafað EES). …