Samráðsfundur norrænna systursamtaka SAF í Reykjavík

Á dögunum fór fram fundur Nordisk Besöksnaring – samstarfsvettvangs norrænnar ferðaþjónustu, sem haldinn var í Reykjavík að þessu sinni. Samtök ferðaþjónustunnar tóku þar á móti forystufólki í ferðaþjónustu á hinum Norðurlöndunum; Horesta frá Danmörku, NHO Reiseliv frá Noregi, Visita frá Svíþjóð og MaRa frá Finnlandi. Norrænu samtökin fjögur eru ólík SAF að því leyti að þau eru fyrst og fremst samtök “hospitality” fyrirtækja, þ.e. að stærstur hluti aðildarfyrirtækja þeirra eru í hótel og veitingarekstri. Sum samtakanna eru þó nokkuð víðari og hafa einnig t.d. hluta afþreyingarfyrirtækja innan sinna raða, en þau eru ekki heildarsamtök allra fyrirtækja í ferðaþjónustu í viðkomandi löndum eins og SAF er á Íslandi. Á fundinum var farið yfir ýmis viðfangsefni sem snerta ferðaþjónustu á Norðurlöndunum, þar á meðal stöðu efnahagsmála í löndunum, rekstrarumhverfi fyrirtækja, skattheimtu- og mannauðsmál, kjaraviðræður og stöðu vinnumarkaðsmála.

Samtök ferðaþjónustunnar hafa tekið þátt í þessu norræna samstarfi um margra ára skeið og hefur það reynst mikilvægur vettvangur í erlendu samstarfi samtakanna. Samvinna ferðaþjónustusamtaka á Norðurlöndum gefur meðal annars tækifæri til mikilvægs samanburðar við nágrannalöndin hvað varðar kjaramál, samskipti við stjórnkerfið, þróun skattheimtu á greinina, mannauðsmál og fjölda annarra sameiginlegra áskorana sem ferðaþjónustufyrirtæki glíma við. Þá vinna samtökin þétt saman á vettvangi HOTREC sem eru regnhlífarsamtök hótel- og veitingasamtaka í Evrópu og eru afar mikilvægur vettvangur gagnvart laga- og reglugerðabreytingum Evrópusambandsins sem hafa einnig víðtæk áhrif hér á landi.

Frá vinstri: Merete Habberstad, NHO Reiseliv; Kristin Krohn-Devold, NHO Reiseliv; Carl Johan Swanson, Visita; Mervi Oksanen, MaRa; Jóhannes Þór Skúlason, SAF; Torbjörn Granvärn, Visita; Jonas Siljhammar, Visita; Pia E. Voss, Horesta; Timo Lappi, MaRa; Henrik Messmer, Horesta; Veli-Matti Aittoniemi, Mara; Skapti Örn Ólafsson, SAF.

Að þessu sinni hittust upplýsingafulltrúar allra samtakanna á fundi þar sem meðal annars var fjallað um markaðs- og kynningarmál samtakanna, hvernig samtök í mismunandi löndum nálgast m.a. kynningu á jákvæðum áhrifum ferðaþjónustu á samfélagið, möguleikum til menntunar í ferðaþjónustugreinum og upplýsingagjöf til fjölmiðla og stjórnkerfisins, m.a. á sveitarstjórnastigi, en SAF kynnti m.a. verkefnin Ferðagögn og Góðir gestgjafar á fundinum. Athygli vekur að þótt nálgun á verkefnin sé með mismunandi hætti í mismunandi löndum eru áskoranir í upplýsingagjöf afar áþekkar og því mikil tækifæri til að samtökin læri af reynslu hvers annars.

Kristin Krohn-Devold, framkvæmdastjóri NHO Reiseliv; Pia E. Voss, framkvæmdastjóri Horesta í Danmörku; Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF; Jonas Siljhammar, framkvæmdastjóri Visita í Svíþjóð og Timo Lappi, framkvæmdastjóri MaRa í Finnlandi;

Brot af því besta í Reykjavík

Að fundinum loknum fékk hópurinn skemmtilega og fræðandi leiðsögn um Alþingishúsið í fylgd Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, alþingismanns og fyrrverandi forsætisráðherra. Þá fékk hópurinn að kynnast nokkrum af þeim frábæru ferðaþjónustufyrirtækjum sem höfuðborgarsvæðið hefur upp á að bjóða; Lava Show, Fly Over Iceland, Perlan, Sky Lagoon og Elding. Mikil ánægja var hjá erlendu gestunum með það sem Reykjavík hafði upp á að bjóða, og ekki skemmdi fyrir að veðurguðirnir buðu upp á sólríka daga á meðan á heimsókninni stóð.

Rétt er að benda félagsmönnum SAF á að þótt fundir Nordisk Besöksnaring séu lokaðir er ávallt hægt að koma ábendingum og athugasemdum um málefni sem varðað geta norrænt samstarf eða eru sameiginleg áskorunarefni ferðaþjónustu á Norðurlöndum til skrifstofu SAF. Þá skal einnig bent á í því samhengi að samtökin eiga í reglulegu samráði við nokkur samtök annarra greina ferðaþjónustunnar á Norðurlöndum, t.d. rekstraraðila hópferðabifreiða og siglingafyrirtækja.

Tengdar fréttir

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök hafa opnað fyrir tilnefningar til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins 2025. Hvetja samtökin aðildarfyrirtæki til að senda inn tilnefningar eigi síðar …

Vesturland sótt heim

Á dögunum gerðu Samtök ferðaþjónustunnar víðreist um Vesturland þar sem formaður og starfsfólk samtakanna hittu fyrirtæki í ferðaþjónustu, forystufólk í sveitarstjórnum og …

Fjöldi kvenna í ferðaþjónustu komu saman í Gamla kvennaskólanum sl. miðvikudag til þess að fagna upphafi verkefnisins Konur í ferðaþjónustu sem Samtök …

Samtök ferðaþjónustunnar hafa skilað umsögn til forsætisráðuneytisins um áform um atvinnustefnu Íslands til 2035, sem kynnt voru í Samráðsgátt stjórnvalda 11. ágúst. …

Eitt ár er þar til Íslendingar upplifa almyrkva á sólu í fyrsta sinn síðan 1954. Um sögulegan atburð er að ræða því …

Evrópusambandið hefur undanfarin ár unnið að rafrænu skráningarkerfi ferðamanna sem ferðast inn fyrir sameiginleg landamæri Schengen svæðisins – svokölluðu Entry/Exit System(skammstafað EES). …