Samtök ferðaþjónustunnar hafa um langt skeið átt í samskiptum við ráðuneyti og Alþingi um áform um upptöku kílómetragjalds á ökutæki. Í samskiptunum hafa samtökin ítrekað varað við því að í þeim áformum og frumvarpi sem kynnt hafa verið felist bæði óhemju mikill kostnaður vegna innheimtu og umsýslu fyrir fyrirtæki sem hafa yfir stórum flota ökutækja að ráða, þá sérstaklega ökutækjaleigur og hópbifreiðafyrirtæki, sem og stjórnsýsluvandkvæði sem nauðsynlegt sé að ráða bót á með samráði við fyrirtækin sem um ræðir.
Þá hafa samtökin bent á að með færslu skattheimtu af dælu og til fyrirtækja hafi breytingin neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna á kostnaði við ferðalög til Íslands, þar sem kostnaður við akstur er færður inn í verð vörunnar. Breytingin mun því einnig koma til með að hafa áhrif á akstur ferðamanna um landið, hversu langt þeir fara frá höfuðborginni og að líkindum draga úr dreifingu þeirra um svæði fjarri höfuðborginni, þvert á yfirlýsta stefnu stjórnvalda um uppbyggingu ferðaþjónustu og atvinnulífs á landsbyggðinni.
Frumvarp um upptöku kílómetragjalds er nú í meðförum Alþingis og SAF hafa skilað inn ítarlegum umsögnum um málið til efnahags- og viðskiptanefndar og komið fyrir nefndina til að kynna sjónarmið og svara spurningum alþingismanna.
Samtökin hafa nú látið leggja mat á þjóðhagsleg áhrif af upptöku kílómetragjalds eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Matið er gert með því að nota QMM þjóðhagslíkan Ferðamálastofu sem hefur verið sérstaklega þróað með ferðaþjónustugeirann í huga. Helstu forsendur sem lagðar voru til grundvallar matinu voru:
- Gjaldtaka vegna kílómetragjaldsins byggir á upplýsingum um akstur á árinu 2024.
- Ekki verður um verðlækkun eldsneytisverðs á móti. Kílómetragjaldið felur því í sér hækkun á opinberum gjöldum.
- Bílaleiga og önnur flutningsþjónusta með bifreiðum hækkar því sem samsvarar kílómetragjaldinu.
- Þá er gert ráð fyrir að eftirspurnarteygni í ferðaþjónustu (og öðrum þjónustuútflutningi) sé einn.
Kílómetragjald minnkar verga landsframleiðslu og útflutningstekjur en eykur viðskiptahalla
Helstu niðurstöður þjóðhagslíkansins í þessu dæmi eru neikvæðar, það er lækkun í vergri landsframleiðslu, minni fjárfesting, minni útflutningstekjur og aukinn viðskiptahalli. Nánar tiltekið eru áhrifin á ársgrundvelli, miðað við verðlag í apríl 2025, sem hér segir:
Lækkun í vergri landsframleiðslu: -2,7 milljarðar króna
Minni útflutningur: -4,1 milljarðar króna
Aukinn viðskiptahalli: -3,3 milljarðar króna
Nánari samantekt á áhrifum álagningar kílómetragjalds á ökutækjaleigur er að finna í samantektinni hér að neðan:
