Aukinn þungi í alþjóðasamstarfi SAF

Nordic Tourism Conference 2025

Erlent samstarf er reglulegur hluti af starfsemi Samtaka ferðaþjónustunnar og á vormánuðum hafa fulltrúar samtakanna sótt fundi og ráðstefnur og aflað þekkingar erlendis á ýmsum vettvangi.

Meðal alþjóðasamstarfs á vormánuðum var Vorþing Hotrec, sambands hótel- og veitingasamtaka Evrópu sem haldið var í Osló í lok apríl, en á vettvangi Hotrec koma saman fulltrúar systursamtaka SAF úr nær öllum Evrópuríkjum. Á dagskrá þingsins var meðal annars undirnúningur hópmálsóknar gegn Booking.com vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu á árunum 2004-2024. Íslensk fyrirtæki geta tekið þátt í málsókninni sér að kostnaðarlausu og allar upplýsingar má nálgast á saf.is/hopmalsokn.

Framkvæmdastjóri SAF sótti boðsráðstefnu Norrænu ráðherranefndarinnar í Stokkhólmi í byrjun júní, Nordic Tourism Conference, en þar komu saman fulltrúar úr atvinnulífi og opinbera geiranum á Norðurlöndum til að ræða sameiginlegar áskoranir og möguleika á auknu samstarfi landanna, t.d. í sameiginlegri markaðssetningu á svæðinu. Á ráðstefnunni var ný ferðamálastefna Norðurlanda kynnt (Nordic Tourism Plan 2025-2030), en unnið hefur verið að stefnunni á vegum ráðherraráðsins síðustu ár.

Á ráðstefnunni voru kynntar niðurstöður nokkurra norrænna samstarfsverkefna á vettvangi ferðaþjónustu sem unnið hefur verið að síðastliðin þrjú ár með stuðningi ráðherrranefndarinnar. Ólöf Ýr Atladóttir kynnti þar NorReg verkefnið (Nordic Regenerative Tourism) um nærandi ferðaþjónustu sem Íslenski ferðaklasinn hefur unnið að. Verkefnið byggir á hugmyndafræði leggur áherslu á heildstæða nálgun í stefnumótun og rekstri með það markmið að ferðaþjónusta hafi jákvæð áhrif á nærumhverfi, samfélag og náttúru.

Í kjölfar ráðstefnunnar sóttu formaður og framkvæmdastjóri SAF ársfund Nordisk Besöksnäring í Finnlandi, þar sem formenn og framkvæmdastjórar norrænna systursamtaka SAF komu saman. Nordisk Besöksnäring er samstarfsvettvangur hótel- og veitingasamtaka á Norðurlöndunum, en auk SAF eru þar Horesta frá Danmörku, NHO Reiseliv frá Noregi, Visita frá Svíþjóð og MaRa frá Finnlandi.

Á fundinum voru ræddar áþekkar áskoranir í ferðaþjónustu í löndunum, m.a. varðandi síaukna skattheimtu, stöðu kjarasamninga, skammtímaleigu og farið yfir samanburðartölur um stöðu atvinnurekstrar í greininni og framlag til efnaahgslífs landanna. Samráðsfundir Nordisk Besöksnäring eru að jafnaði haldnir þrisvar á ári en samtökin vinna einnig þétt saman á vettvangi Hotrec.

Alþjóðasamstarf verður sífellt mikilvægari þáttur í starfi hagsmunasamtaka í atvinnulífi, ekki síst nú þegar blikur eru á lofti í alþjóðasamskiptum og viðskiptakerfi heimsins. Auk þess sem hér hefur verið nefnt eiga SAF m.a. í samstarfi við ýmis norræn og evrópsk samtök, t.d. rekstraraðila hópbifreiða og farþegaskipa og eiga í reglulegum samskiptum við ýmsa erlenda aðila og alþjóðastofnanir. Það sannast iðulega að áskoranir íslenskrar ferðaþjónustu eru ekki sér á báti heldur er hægt að leita þekkingar og lausna í samstarfi við nágranna og samkeppnislönd.

Tengdar fréttir

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) boða til opins fundar um vetrarþjónustu og öryggismál á íslenska vegakerfinu. Fundurinn fer …

Síðustu vikur hefur fjöldi ferðaþjónustuaðila stigið fram og rætt stöðuna í atvinnugreininni og áhrif boðaðra skattabreytinga á rekstur ferðaþjónustufyrirtækja og verðmætasköpun greinarinnar …

Samtök ferðaþjónustunnar og Swiss Hotel Management School (SHMS) standa að rafrænni Masterclass vinnustofu miðvikudaginn 26. nóvember nk. undir yfirskriftinni Empowering Service Excellence through Leadership and Team Collaboration.  📅 26. nóvember 2025⏱️ 13:00 – 16:00📍 Í netheimum // ZOOM🎟️ 9.900 kr / 19.900 kr  …

Formaður SAF og forsætisráðherra - ferðaþjónustudagurinn 2025

Ferðaþjónustudagurinn 2025 var haldinn í Silfurbergi í Hörpu þann 23. október síðastliðinn. forsætis- og ferðamálaráðherra tóku þátt í fundinum og ræddu stöðu …

Ríkisstjórnin hefur kynnt að hækka skuli vörugjöld á ökutæki frá og með næstu áramótum. Hækkunin nemur nærri tvöföldun og mun hækka verð …

Ekki hafa allir stjórnmálamenn aldur til að muna hvernig ferðaþjónustan birtist eins og upplýstur björgunarbátur út úr svartnættinu sem lá yfir öllu …