Ferðaþjónustan á Íslandi er öflug atvinnugrein sem hefur á síðustu tveimur áratugum fest sig í sessi sem ein af grunnstoðum íslenska hagkerfisins. Hún skapar störf um allt land, eykur verðmætasköpun í borg, bæjum og sveitum og styrkir þjónustu og mannlíf. Ef rétt er að staðið skapar ferðaþjónustan verðmæti og styrkir samfélög án þess að ganga á náttúrulegar auðlindir.
Of mikið álag – á örfáum stöðum – stundum
Í umræðu um ferðaþjónustu er oft bent á þann veruleika að troðningur geti myndast á vinsælum stöðum. Það er rétt. Á stöðum á borð við Þingvelli, Gullfoss, Geysi, Seljalandsfoss, Skógafoss, Jökulsárlón, Skaftafell og Goðafoss koma saman margir gestir á sama tíma. En þessi álagstími er oftast bundinn við fáeinar klukkustundir á dag, á háannatímum ársins. En þegar við horfum á heildarmyndina er staðreyndin sú að langflestar náttúruperlur landsins og langflestir ferðamannastaðir eru vannýttir. Þeir gætu tekið á móti miklu fleiri gestum, alla daga ársins, án þess að það hefði neikvæð áhrif á staðinn sjálfan, upplifun gestanna eða nærsamfélagsins. Þvert á móti gætu fleiri heimsóknir haft mjög jákvæð áhrif á uppbyggingu ferðaþjónustu, framlag hennar til samfélagsins, afkomu fyrirtækja og búsetuskilyrði á viðkomandi svæði.
Ferðaþjónustan gengur ekki á náttúruauðlindir
Ferðaþjónustan er frábrugðin flestum öðrum atvinnugreinum sem byggja á náttúruauðlindum. Hún byggist á því að sýna – ekki sækja. Þannig tekur hún ekki fisk úr sjó eða tré úr skógi. Ferðamenn koma til að sjá, upplifa og skilja – ekki til að nýta auðlind í þeim skilningi að hún hverfi við notkun þótt heimsóknir þeirra hafi vissulega áhrif. Með réttum innviðum, skipulagi og stýringu er tiltölulega auðvelt að halda þeim áhrifum í lágmarki. Frá árinu 2018 hefur Náttúruverndarstofnun vaktað 145 áfangastaði ferðamanna á friðlýstum svæðum og gefið út árlegt ástandsmat. Niðurstöður matsins eru í heildina mjög góðar og meðaleinkunn áfangastaðanna hefur verið að hækka. Í síðustu skýrslu fyrir árið 2024 hækkuðu 12 áfangastaðir umtalsvert á meðan eingöngu tveir hafa lækkað að sama skapi. Áfangastöðum í hættu hefur jafnframt fækkað, nú eru þeir einungis tveir, Suðurnám innan Friðlanda að Fjallabaki og Vigdísarvellir í Reykjanesfólkvangi. Þetta eru jákvæð merki um að stýring gesta á áfangastöðunum og innviðauppbygging sé að skila sér og staðfestir að við getum rekið hér öfluga ferðaþjónustu án þess að ganga á náttúru landsins.
Ísland er stórt og árið er langt
Íslensk ferðaþjónusta hefur lengi haft það markmið að starfa allt árið um allt land. Í þessu sambandi hefur stundum verið talað um markmiðið að „dreifa betur ferðamönnum“ í tíma og rúmi. Það gerist auðvitað ekki af sjálfu sér, þó að landið okkar sé stórt og árið sé langt, að gestirnir okkar komi utan háannar og fari eitthvað annað en á þekktustu ferðamannastaðina. Margt hefur áunnist en við erum langt frá því að nýta öll þau tækifæri sem felast í greininni.
Stjórnvöld sinni sínu hlutverki
Íslensk ferðaþjónusta er í harðri alþjóðlegri samkeppni og tryggja þarf samkeppnishæfni greinarinnar á hverjum tíma. Heilbrigt og gott rekstrarumhverfi ásamt áframhaldandi fjárfestingum í innviðum eru lykilþættir í því sambandi. Setja þarf fjármagn í almenna landkynningu til þess að laða hingað verðmætustu markhópana, en því hefur ekki verið sinnt frá árinu 2022.
Framtíðin er björt
Ferðaþjónustan á Íslandi stendur á sterkum grunni. Við búum yfir náttúru sem vekur aðdáun um allan heim, öflugum fyrirtækjum og mannauði sem sýnt hefur ótrúlegan sveigjanleika og seiglu þegar gefið hefur á bátinn. Við erum í dauðafæri til þess að halda áfram að þróa ferðaþjónustuna á Íslandi sem eina af mikilvægustu stoðum efnahagslífsins, til þess að byggja áfram undir framúrskarandi lífskjör til framtíðar.
Landið er stórt, árið er langt – og framtíð íslenskrar ferðaþjónustu er björt ef vilji er til að grípa tækifærin sem eru í seilingarfjarlægð.
Pétur Óskarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar
Greinin birtist í Viðskiptablaði Morgunblaðsins 16. júlí 2025