
Fjöldi kvenna í ferðaþjónustu komu saman í Gamla kvennaskólanum sl. miðvikudag til þess að fagna upphafi verkefnisins Konur í ferðaþjónustu sem Samtök ferðaþjónustunnar hafa ýtt úr vör. Markmið verkefnisins er að skapa vettvang til að efla tengslanet og samstöðu meðal kvenna í atvinnugreininni en því er einnig ætlað miðla fræðslu og hagnýtum upplýsingum ásamt því að veita innblástur og hvatningu til frekari þátttöku og forystu kvenna í ferðaþjónustu. Verkefnið verður unnið í formi viðburða í vetur sem verða gerð góð skil á vettvangi SAF.
Kraftmikið upphaf í Gamla kvennaskólanum
Verkefnið fór vel af stað þar sem fjöldi kvenna mættu og áttu saman góða stund. María Rut Ágústsdóttir verkefnastjóri SAF og Diljá Matthíasardóttir hagfræðingur samtakanna kynntu verkefnið og fengu til sín góða gesti til þess að deila sinni reynslu af því að starfa í atvinnugreininni. Bjarnheiður Hallsdóttir framkvæmdastjóri Katla DMI og fv. formaður SAF og Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri hjá Bláa lóninu og fv. framkvæmdastjóri SAF sögðu frá sinni reynslu og sýn á þróun atvinnugreinarinnar, sem og hlutverki kvenna í henni. Inga Hlín Pálsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins leiddi samtalið.
Allar ræddu þær mikilvægi tengslanetsins í síbreytilegri og ört vaxandi atvinnugrein, hvernig konur geta ýtt undir og stutt hvor aðra og deildu lærdómi af þeim áskorunum sem þær hafa staðið frammi fyrir á löngum og viðburðaríkum starfsferli í ferðaþjónustu.
Konur hvattar til þátttöku
Vettvangur sem þessi er jákvæð viðbót við tengslanet íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja og annarra hagaðila greinarinnar og ljóst á samtölum kvöldsins að ánægja ríkti með framtakið. Konur í ferðaþjónustu eru því hvattar til þess að taka þátt, efla tengslin sín á milli og styrkja samstöðu kvenna í atvinnugreininni.
Upplýsingar um verkefnið veitir María Rut Ágústsdóttir í gegnum netfangið mariarut@saf.is en áhugasamar geta einnig skráð sig á póstlista verkefnisins hér.