Hópmálsókn evrópskra hótela gegn Booking.com hefur nú verið lögð formlega fram fyrir dómstól í Amsterdam. Málið snýr að kröfum um skaðabætur vegna svokallaðra verðjöfnunarskilmála (e. parity clauses) Booking.com, sem hafa valdið samkeppnisröskun á gistimarkaði og veikt beinar söluleiðir hótela um árabil.
Hópmálsóknin byggir á dómi Evrópudómstólsins frá 19. september 2024, þar sem staðfest var að verðjöfnunarskilmálar Booking.com féllu undir og brytu gegn evrópskum samkeppnisreglum.
Samkvæmt framlagðri kröfugerð eru þúsundir hótela víðs vegar um Evrópu aðilar að málinu. Kröfugerðin er lögð fram af sjálfstæðri stofnun sem fer með málssóknina fyrir hönd hótelanna, með stuðningi HOTREC og meira en 30 landssamtaka gistigeirans í Evrópu. Gert er ráð fyrir að kröfum vegna enn fleiri hótela verði bætt við málsóknina á árinu 2026.
Nánari upplýsingar
- Upplýsingar um þátttöku og bakgrunn málsóknarinnar: saf.is/hopmalsokn
- Frétt um framlagningu málsins á vef HOTREC