[:IS]Ferðaþjónusta er undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, burðarás efnahagslífsins. Til að ferðaþjónusta haldi áfram að vera grundvöllur bættra lífskjara, atvinnuuppbyggingar á Íslandi til framtíðar og eflingar byggða landsins er nauðsynlegt að stjórnvöld taki skýrar og framsýnar ákvarðanir sem bæta rekstrarumhverfi ferðaþjónustufyrirtækja og tryggja heilbrigt samkeppnisumhverfi þeirra. Allar ákvarðanir stjórnvalda um framtíð ferðaþjónustu verða að hafa bætta alþjóðlega samkeppnishæfni greinarinnar að leiðarljósi.
Kjaramál
Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar lýsir fullum og eindregnum stuðningi við samninganefnd Samtaka atvinnulífsins í þeim kjaraviðræðum sem nú fara fram. Fundurinn lýsir furðu á fyrirhuguðum verkfallsaðgerðum VR, Eflingar, VLFA og VLFGRV gegn völdum fyrirtækjum sem virðast sérstaklega hannaðar til að valda gífurlegu tjóni, ekki aðeins fyrir atvinnurekendur í ferðaþjónustu heldur einnig fyrir samfélagið í heild, og þar með félagsmenn þeirra sjálfra. Ennfremur telur SAF að aðgerðirnar ýti undir ólöglega starfsemi sem vinnur gegn hagsmunum launafólks, fyrirtækja og samfélagsins. Aðalfundur SAF hvetur forsvarsmenn þessara félaga til að fresta aðgerðum og koma aftur að samningaborðinu til að vinna að sameiginlegri sýn á þær áskoranir sem fyrir liggja við kjarasamningagerðina. Aðeins þannig mun nást sátt sem leitt getur til raunverulegra kjarabóta, aukins kaupmáttar og bættra lífskjara launafólks.
Gjaldtaka
SAF hafna sértækri gjaldtöku af ferðaþjónustu. Árið 2018 skilaði ferðaþjónustan samfélaginu 520 ma. króna í gjaldeyristekjur og nettó tekjur ríkis og sveitarfélaga vegna ferðamanna numu mörgum tugum milljarða króna. Fullyrðingar um að ferðamenn og ferðaþjónusta skili ekki nægum arði til samfélagsins eru því ekki á rökum reistar. Óskynsamlegt er að innheimta sértæk gjöld eða skatta af ferðaþjónustufyrirtækjum, sérstaklega nú þegar mikil óvissa ríkir í rekstrarumhverfi þeirra, m.a. vegna átaka á vinnumarkaði, erfiðrar stöðu flugfélaga og versnandi afkomu vegna kostnaðarhækkana og tekjulækkunar vegna gengisþróunar. Skynsamlegast er fyrir alla að hluta þeirra tugmilljarða tekna sem samfélagið hefur nú þegar af ferðamönnum og ferðaþjónustu verði forgangsraðað til rannsókna, verndar, viðhalds og uppbyggingar vegna komu ferðamanna til landsins og þeim þannig ráðstafað sem endurfjárfestingu til nauðsynlegra verkefna sem tengjast ferðaþjónustu, náttúruvernd og styrkingu innviða og bætts öryggis.
Landsbyggðin
SAF leggja sérstaka áherslu á eflingu ferðaþjónustu á landsbyggðinni. Mikil hætta er á að óvissa og erfiðleikar í rekstri ferðaþjónustufyrirtækja hafi neikvæðust áhrif á fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins. Nauðsynlegt er fyrir framtíðaruppbyggingu ferðaþjónustu í heild að góð skilyrði séu til að byggja upp og reka lífvænleg ferðaþjónustufyrirtæki um allt land. Uppbygging ferðaþjónustu er mikilvægur grundvöllur fjölbreyttra atvinnutækifæra á landsbyggðinni, ekki síst á svæðum fjærst höfuðborginni. Mikilvægt er að stjórnvöld greini og hrindi í framkvæmd aðgerðum sem efla þá uppbyggingu, m.a. aðgerðum sem stuðla að virkari dreifingu ferðamanna um landið allt á markvissan hátt, m.a. með skýrum áherslum í markaðsstarfi og samgöngum. Auka þarf þjónustu, snjómokstur og hálkuvarnir á vinsælustu ferðaþjónustustöðum svo grundvöllur sé fyrir frekari uppbyggingu heilsárs ferðaþjónustu á landsbyggðinni.
Rannsóknir
Skipuleg öflun áreiðanlegra gagna og öflugar rannsóknir í ferðaþjónustu eru undirstaða nauðsynlegrar þekkingar á atvinnugreininni, grundvöllur stefnumótandi ákvarðana og þróunar greinarinnar til framtíðar og þar með aukins virðisauka fyrir samfélagið. Mikilvægt er að stjórnvöld leggi þegar stóraukið fjármagn til rannsókna í ferðaþjónustu og efli skipulag þeirra, samræmingu og stjórn, enda er það góð fjárfesting til framtíðar. Ótækt er að rannsóknir á mikilvægustu útflutningsatvinnugrein þjóðarinnar séu ár eftir ár eftirbátur annarra atvinnugreina þegar kemur að úthlutun fjár til gagnaöflunar og rannsókna.
Orkuskipti
Íslensk ferðaþjónusta getur orðið leiðandi í orkuskiptum hér á landi og í heiminum. Grundvöllur þess er að stjórnvöld auki hratt uppbyggingu á nauðsynlegum innviðum sem eru forsenda orkuskipta, m.a. í samgöngum. Mikilvægt er að sett verði á stofn verkefni um uppbyggingu hleðslustöðva fyrir rafvædd farartæki hjá ferðaþjónustufyrirtækjum um allt land, þar sem stjórnvöld leggi til styrki á móti framlagi ferðaþjónustufyrirtækja til uppsetningar stöðva á athafnasvæði þeirra. Til að flýta fyrir orkuskiptum í samgöngum er mikilvægt að stjórnvöld liðki fyrir útflutningi bílaleigubíla knúnum jarðefnaeldsneyti með niðurfellingu eða endurgreiðslu gjalda, til að létta á endursölumarkaði. SAF hvetur ferðaþjónustufyrirtæki til að kolefnisjafna rekstur sinn.
Samskipti við stjórnvöld
SAF fagna jákvæðu viðhorfi stjórnvalda til samráðs við atvinnugreinina sem m.a. kemur skýrt fram í stjórnarsáttmála og á vettvangi Stjórnstöðvar ferðamála. Afar mikilvægt er að þekking og reynsla fagaðila í ferðaþjónustu nýtist við stefnumörkun og ákvarðanatöku sem varðar rekstrarumhverfi og samkeppnishæfni greinarinnar. SAF leggur áherslu á að ríkisstjórn beiti sér fyrir aukinni samvinnu ráðuneyta og stofnana þvert á stjórnkerfið þegar kemur að málefnum ferðaþjónustu. SAF telur mikilvægt að ráðuneyti ferðamála fari með stjórn mála sem að atvinnugreininni lúta og sé leiðandi í samstarfi ráðuneyta og stofnana í málum er varða ferðaþjónustu. Styrkja þarf ráðuneyti ferðamála og undirstofnanir þess í þeim tilgangi.
Flug
SAF fagna því að hafin sé vinna stjórnvalda við gerð Flugstefnu og áréttar mikilvægi þess að haft sé náið samráð við greinina. Innanlandsflug á að vera skilgreint sem almenningssamgangnakerfi og brýnt er að fjárfesta í innviðum fyrir flugsamgöngur þannig að hægt sé að byggja upp til framtíðar.
Hvalveiðar
SAF skora á stjórnvöld að stöðva hvalveiðar þegar í stað. Samhliða er nauðsynlegt að láta gera úttekt á áhrifum hvalveiða á helstu viðskiptamarkaði ferðaþjónustu og annarra útflutningsatvinnugreina erlendis. Þannig er hægt að undirbyggja ákvarðanir sem hafa áhrif á þjóðarhag. Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunnar 2018 námu útflutningstekjur af hvalaafurðum á árunum 2009 – 2017 tæplega 1,3 milljörðum króna á ári að meðaltali. Það er lægri upphæð en ferðaþjónusta skapar á einum degi í gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið. Með ákvörðun um áframhaldandi hvalveiðar er meiri hagsmunum því augljóslega fórnað fyrir minni. Það er efnahagslega skynsamleg ákvörðun fyrir stjórnvöld að láta útflutningsatvinnugreinar sem árlega færa þjóðarbúinu hundruð milljarða króna í útflutningstekjur njóta vafans.
Ólögleg starfsemi
SAF beina til stjórnvalda að setja þegar í stað á stofn sérstakt átak til að efla eftirlit og sporna við erlendri og ólöglegri starfsemi á íslenskum ferðaþjónustumarkaði, sbr. tillögur SAF frá 5. mars 2019. Íslensk ferðaþjónusta er í daglegri samkeppni á Evrópska efnahagssvæðinu sem og á heimsvísu við erlenda millisöluaðila sem gerir fyrirtækjum kleift að stunda viðskipti yfir landamæri hindrunarlítið. Fjöldi fyrirtækja nýtir sér of máttlítið og óskilvirkt eftirlit á íslenskum ferðaþjónustu- og vinnumarkaði til að stunda óáreitta brotastarfsemi sem skekkir samkeppnisgrundvöll.
Óáreitt brotastarfsemi fyrirtækja sem fara ekki að lögum og kjarasamningum sem gilda á Íslandi, og stunda í krafti þess stórfelld undirboð í samkeppni við fyrirtæki sem fara að lögum í ferðaþjónustu, veldur því að samkeppnisstaða fyrirtækja sem fara að reglum versnar mikið, atvinnuöryggi launþega minnkar og samfélagið verður af miklum tekjum.
Það eru sameiginlegir hagsmunir atvinnurekenda, launþega og hins opinbera að stöðva skattsvik, félagsleg undirboð og aðra starfsemi í ferðaþjónustu sem ekki fylgir lögum, reglum og kjarasamningum. Átak í baráttu við brotastarfsemi í ferðaþjónustu mun leiða til jafnara samkeppnisumhverfis og betri afkomu ferðaþjónustufyrirtækja, tryggari atvinnu og betri atvinnuöryggis starfsfólks í ferðaþjónustu og eykur tekjur ríkisins sem nýtast til uppbyggingar samfélagsins. Til að árangur náist þarf eftirlit opinberra stofnana, lögreglu og annarra aðila sem mælt er fyrir um í lögum að vera skilvirkt, samstillt og nægilega vel fjármagnað.
SAF benda á að átak stjórnvalda til að sporna við ólöglegri gistingu hefur skilað árangri. Þó er töluvert langt í land og því mikilvægt að tryggja fjármagn til að efla eftirlitið enn frekar og styrkja lagastoðir til handa eftirlitsaðilum. Þá hefur átakið staðið fjárhagslega undir sér og gott betur. Samtökin hvetja stjórnvöld til að halda áfram á sömu braut og nýta átakið sem fyrirmynd að sams konar vinnu í öðrum greinum ferðaþjónustu.
Ályktun aðalfundar Samtaka ferðaþjónustunnar
Húsavík 14. mars 2019
[:]