Eru 200 milljarðar ekki nóg sem atvinnugreinin skilar?

Pétur Óskarsson
Formaður SAF

Ekki hafa allir stjórnmálamenn aldur til að muna hvernig ferðaþjónustan birtist eins og upplýstur björgunarbátur út úr svartnættinu sem lá yfir öllu landinu eftir bankahrunið. Ferðaþjónustan lyfti íslensku þjóðinni upp úr dýpstu kreppu síðustu áratuga. Við snérum vörn í sókn, viðskiptajöfnuði í afgang sem hafði verið neikvæður í hálfa öld og komum okkur upp skuldlausum gjaldeyrisforða. Hinn mikli vöxtur í útflutningstekjum ferðaþjónustunnar var forsenda fyrir hinni miklu lífskjarasókn eftir hrun.

Ferðaþjónusta þriðja stoðin

Þjóð sem árið 1975 þurfti aðstoð frá þróunarsamvinnustofnun Sameinuðu þjóðanna til að kanna hvort ferðaþjónustan gæti orðið þriðja stoð efnahagslífsins gat loksins, á öðrum áratug þessarar aldar, svarað þeirri spurningu hátt og snjallt játandi.

Á sama tíma fóru sveitarfélög víða um land að blómstra – mörg þeirra sem voru við það að leggja upp laupana nokkrum árum áður. Það urðu til störf, já, líka vel launuð störf, um allt land. Þetta var sjálfsprottin byggðastefna og einkaframtak í sinni fegurstu mynd – drifið áfram af útsjónarsemi einstaklinga sem voru tilbúnir að fjárfesta og taka áhættu í nýrri atvinnugrein. Nýjum atvinnuháttum fylgdu vissulega áskoranir, en við höfum nýtt síðustu ár til að takast á við þær af aukinni fagmennsku og ábyrgð.

Stærsta einstaka útflutningsgrein landsins

Fylgifiskar ferðaþjónustunnar eru ekki aðeins gríðarlegar gjaldeyristekjur – rúmlega 600 milljarðar króna árlega – heldur renna af þeim um 200 milljarðar króna beint til ríkis og sveitarfélaga. Þá erum við ekki farin að tala um þær afleiddu tekjur sem verða til þegar þessi verðmæti hríslast í gegnum efnahagskerfið okkar. Skatttekjur af ferðaþjónustu halda uppi mörgum af okkar mikilvægustu kerfum.

Það eru blikur á lofti í ferðaþjónustunni þessi misserin, m.a. vegna sterks gengis krónunnar og þróunar í alþjóðamálum. Verkefnið núna ætti að vera að styrkja umhverfi atvinnugreinarinnar, sem starfar í grjótharðri alþjóðlegri samkeppni, en því miður eru stjórnvöld að bregðast í þessum aðstæðum. Þeirra hugmyndir snúast allar um það hvernig má kreista einhverjar hugsanlegar viðbótar skatttekjur út úr greininni.

Samkeppnishæfni ferðaþjónustunnar er undir

Hugmyndirnar eru margar. Má þar nefna fyrirvaralausa tvöföldun á gistináttaskatti í byrjun árs 2024, innviðagjöld á skemmtiferðaskip árið 2025, auðlindagjöld á fjölsótta ferðamannastaði árið 2026, hækkun vörugjalda af ökutækjum og kílómetragjaldið svokallaða. Allar þessar hugmyndir eiga svo að skila ríkissjóði tugum milljarða króna – aftur á móti er fullt tilefni til að efast um að þau áform muni ganga eftir þar sem þessi skattheimta mun birtast í verðhækkunum á Íslandsferðum. Ferðaþjónusta er næm fyrir verðbreytingum og markaðurinn miskunnarlaus. Fari svo að samkeppnishæfni íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja skerðist á alþjóðamörkuðum vegna skattlagningar stjórnvalda er raunin sú að þau áform geta hæglega leitt til minni verðmætasköpunar en ella hefði orðið og þar með minni skatttekna til ríkis og sveitarfélaga.

Áhættuhegðun stjórnvalda hefur afleiðingar

Ferðaþjónustan óx hratt þegar þjóðin þurfti á því að halda, en fyrir liggur að greinin getur líka dregist hratt saman ef samkeppnishæfnin hverfur. Að leggja stöðugt nýjar álögur á greinina er ekki ábyrg efnahagsstjórn, það er áhættuhegðun sem getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir okkur öll. Skatttekjur eru ekki ótæmandi uppspretta.

Ætli stjórnvöld sér að halda áfram á þessari braut, án innsýnar í raunveruleika ferðaþjónustunnar, spyrjum við okkur sem í greininni störfum einfaldrar spurningar: Eru 200 milljarðar ekki nóg? Hve mikið þarf atvinnugreinin að leggja af mörkum áður en mjólkurkúnni verður slátrað, gullgæsin drepin – og uppspretta þeirra verðmæta sem við njótum öll fyrir tilstilli ferðaþjónustunnar stöðvuð?

Pétur Óskarsson
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar

Greinin birtist fyrst í ViðskiptaMogganum, miðvikudaginn 29. október.

Tengdar fréttir

Ekki hafa allir stjórnmálamenn aldur til að muna hvernig ferðaþjónustan birtist eins og upplýstur björgunarbátur út úr svartnættinu sem lá yfir öllu …

Á dögunum skrifuðu Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, Óskar Hafnfjörð Gunnarsson, formaður MATVÍS og Þórir Erlingsson, forseti Klúbbs matreiðslumeistara undir nýjan …

Fimmtudaginn 25. september sl. bauð afþreyingarnefnd Samtaka ferðaþjónustunnar til félagsfundar undir yfirheitinu „Öryggismál í ævintýraferðaþjónustu“. Tilefni fundarins var m.a. sú umræða sem …

Ferðaþjónustudagurinn 2025 fer fram í Silfurbergi í Hörpu fimmtudaginn 23. október kl. 14.00.  Á Ferðaþjónustudeginum verður rætt um ferðaþjónustu með tilliti til …

Vissir þú að framleiðni í hótel- og veitingarekstri óx þrefalt hraðar en í hagkerfinu í heild á síðustu fimm árum? Og það …

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök hafa opnað fyrir tilnefningar til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins 2025. Hvetja samtökin aðildarfyrirtæki til að senda inn tilnefningar eigi síðar …