
Formaður SAF
Byggjum áfram á traustum grunni
Þegar árið 2025 er kvatt er eðlilegt að staldra við og draga lærdóm af ári sem var krefjandi á margan hátt. Fyrir tólf mánuðum blasti við mikil óvissa, ekki síst vegna veikrar bókunarstöðu inn í árið og versnandi samkeppnishæfni Íslands á lykilmörkuðum ferðaþjónustunnar. Þær áhyggjur reyndust ekki ástæðulausar. Þau markmið okkar að minnka árstíðarsveifluna, stóðust ekki en sumarið okkar óx og veturinn gaf eftir. Greinin náði þannig að halda við fjölda ferðamanna miðað við árið á undan en ekki með þeim hætti sem stefnt er að – Ísland allt árið og um allt land.
Nýtt pólitískt landslag
Í aðdraganda síðustu kosninga í lok ársins 2024 kom ítrekað fram að einn af núverandi stjórnarflokkum taldi sig geta leyst ýmis flókin vandamál eins og húsnæðisvanda, verðbólgu, álag á heilbrigðiskerfi, vegakerfið og aðra innviði með því að „koma böndum á ferðaþjónustuna“. Þrátt fyrir að greininni tækist þokkalega að miðla réttum upplýsingum um ferðaþjónustuna og áhrif hennar til stjórnmálamanna, var ástæða til þess að hafa þungar áhyggjur af því hvernig þessi hugmyndafræði birtist í stjórnarsáttmála. Ekki að ástæðulausu, því þar birtust svo áform um að hefja innheimtu á aðgangsgjöldum að náttúruperlum í eigu ríkisins. Það er auðvitað ekki skynsamlegt að auka skattheimtu á ferðaþjónustuna við núverandi aðstæður, en við teljum þó betra að taka sæti við borðið og taka þátt í samtali við stjórnvöld um þetta mál frekar en að svona ákvörðun verði tekin án okkar aðkomu.
Atvinnustefnan
Í samræmi við stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar hófst á árinu undirbúningur að mótun nýrrar atvinnustefnu fyrir Ísland. Það er auðvitað fagnaðarefni að ríkisstjórnin ætli að leggja áherslu á langtímahugsun í verðmætasköpun. Við þurfum sannarlega skýra langtímasýn, ekki síst núna þegar störf í mörgum atvinnugreinum eru í hættu vegna örra tæknibreytinga og mikil óvissa er í viðskiptakerfum heimsins. SAF hefur tekið virkan þátt í þeirri vinnu og við leggjum áherslu á að núverandi ferðamálastefna sé þar lögð til grundvallar. Atvinnustefna sem á að standa undir nafni verður að byggja á réttum upplýsingum, gagnsæi og samstarfi við atvinnugreinarnar sjálfar. SAF mun áfram leggja sitt af mörkum til að svo verði.
Kílómetragjöld og vörugjöld á jarðefniseldsneytisökutæki
Haustið einkenndist af harðri baráttu gegn auknum álögum á bílaleiguflotann. Samtökin og okkar félagar í bílaleigunefndinni beittu sér af festu allt fram að samþykkt fjárlaga 18. desember, aðeins 13 dögum áður en lög um kílómetragjald tóku gildi. Þessi stutti fyrirvari er auðvitað óásættanlegur. Það var ekki hlustað á okkur og því miður töpuðum við þessari orrustu. Það þýðir auðvitað ekki að við höfum tapað stríðinu. Hagsmunabaráttan heldur áfram og við munum fylgja því fast eftir þegar afleiðingar þessa máls birtast okkur á nýju ári.
Landkynning sem situr eftir
Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar og samtöl tókst ekki að ná pólitískri niðurstöðu um almenna landkynningu Íslands á lykilmörkuðum á árinu. Alþjóðleg samkeppni áfangastaða er hörð og síharðnandi. Ísland stendur ekki eitt og sér í þeirri samkeppni og getur ekki treyst eingöngu á orðspor sitt til lengri tíma litið. Við höfum skilgreint þá markhópa sem við viljum ná til sem skila okkur mestu. Ef við ætlum að auka verðmætasköpun og ná markmiðum okkar um ferðaþjónustu um land allt, allt árið um kring þá verða stjórnvöld að taka þátt í því verkefni með okkur. Þetta mál er áfram efst á dagskrá samtakanna okkar á nýju ári.
Kraftmikið starf SAF
Starf Samtaka ferðaþjónustunnar hefur verið bæði umfangsmikið og fjölbreytt á árinu. Samtökin hafa staðið fyrir þéttri dagskrá funda, málstofa og viðburða. Sérstaklega vil ég nefna fundaröðina Konur í ferðaþjónustu, þar sem konur úr greininni hafa komið saman, deilt reynslu og styrkt tengslanet sitt. Þessir viðburðir hafa verið vel sóttir og hafa bæði aukið sýnileika kvenna innan samtakanna og hvatt þær til þátttöku í forystu greinarinnar í gegnum SAF.
Byggjum á traustum grunni
Þrátt fyrir áskoranir er mikilvægt að horfa til þess að grunnur ferðaþjónustunnar á Íslandi er traustur. Innviðir á áfangastöðum um allt land hafa styrkst á undanförnum árum og fyrirtækin í greininni hafa ítrekað sýnt að þau geta brugðist við breyttum aðstæðum með ábyrgum hætti. Það eru gríðarleg tækifæri í seilingarfjarlægð, fyrirtækin eru tilbúin að grípa þau en við þurfum stjórnvöld með okkur í þann leiðangur.
Þakkir og nýtt ár
Stjórn SAF, starfsfólk samtakanna og fjölmargir trúnaðarmenn úr hópi félagsmanna hafa lagt mikla vinnu í starf ársins. Ég þakka þessu fólki einlæglega fyrir gott samstarf, fagmennsku og þrautseigju á krefjandi ári.
Fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar þakka ég kærlega fyrir samstarfið á liðnu ári og óska félagsmönnum og landsmönnum öllum farsæls og friðsæls nýs árs.
Pétur Óskarsson
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar