Á liðnum árum hafa veitingastaðir og Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) bent á rekstrarumhverfi veitingastaða. Athyglin hefur verið á eftirlitið með veitingastöðum og seinagang og flækjustig við leyfisveitingaferli þegar kemur að opnum veitingastaða. Sérstaklega var gagnrýndur biðtíminn sem fylgdi auglýsingaskyldu við útgáfu, endurskoðun og breytingu starfleyfa í að lágmarki fjórar vikur. Veitingastaðir hafa ítrekað bent á að óþarfa bið til að fá úthlutað starfsleyfi vegna lögbundins auglýsingartíma er kostnaðarsamur fyrir veitingastaður. Slíkur biðtími á útgáfu starfsleyfis hjá veitingastöðum og öðrum einföldum atvinnurekstri er bæði kostnaðarsamur og óþarfur. Atvinnulífið þarf á stjórnvöldum að halda sem reyna að gera umhverfi atvinnulífsins einfaldara og draga úr hindrunum fyrir atvinnulífið. Stjórnvöld eiga ekki að leggja hindranir í götu atvinnulífsins. Slíkar hindranir bitna á þjóðfélaginu í heild. Óþarfa kostnaður fyrir atvinnulífið endar alltaf á hærri kostnaði fyrir almenning.
SAF hafa staðið vaktina
Í þessum mánuði hafa verið gerðar tvær breytingar á umhverfi veitingastaða sem eru til þess að einfalda og draga úr óþarfa kostnað fyrir rekstraraðila við veitingu starfsleyfis fyrir veitingastaði.
Sú fyrri tók gildi með breytingu á reglugerð um hollustuhætti, með henni var verið að afnema auglýsingaskyldu þegar eingöngu væri um að ræða nafnabreytingu á starfsleyfi. Nýr rekstraraðili sem tekur við veitingastað í fullum rekstri þarf því ekki lengur að fara í auglýsingu í 4 vikur. Það er mikil bót.
Þegar málið var í samráðsgátt þá skiluðu SAF inn umsögn um málið. En í þeirri umsögn hvöttu samtökin ráðherra til þess að halda áfram að einfalda rekstrarumhverfi fyrirtækja með því að gera rekstur veitingastaða skráningarskyldan í stað starfleyfisskylda skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Því var mikið fagnaðarefni þegar ráðherra kynnti á samráðsgátt stuttu síðar tillögu að breytingum á reglugerð um skráningarskyldan atvinnurekstur skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Reglugerðin hefur verið birt og nú geta veitingastaðir sótt um skráningu skv. lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Að því tilefni birti ráðuneytið frétt um málið hér.
Með þeirri breytingu er ráðherra að leggja til veitingastaðir verði eingöngu skráningarskyldir en ekki starfsleyfisskyldir á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir. Skráningin er ekki háð auglýsingatíma og því er ráðherra alfarið að afnema 4 vikna óþarfa biðtíma. Það þarf eftir sem áður að gefa út starfsleyfi samkvæmt matvælalöggjöfinni en þar er hins vegar engin kvöð um auglýsingaskyldu. Slíkt starfsleyfi og skráning ætti ekki að flækja ferlið enda hafa mestu óþægindin hvað þessi leyfisveitingarmál snúið að töfum í kerfinu að óþarfa. Ef öll gögn veitingastaðarins eru í lagi og hann uppfyllir allar kröfur sem eru lagðar til samkvæmt lögum þá ætti engin óþarfa bið að vera til staðar. Öll umræða um fjórar vikur er því úr sögunni. Samtökin fögnuðu fyrirhuguðum breytingum með umsögn um málið.
Stjórnvöld hafa uppfært samræmd starfsskilyrði fyrir veitingastaði og er nú hægt að sækja um skráningu á heimasíðu island.is.
Með þessu er verið að einfalda regluverkið og gera hlutina skilvirkari og því ber að hrósa. En það er hægt að gera meira. Stjórnvöld vinna að því að endurskoða fyrirkomulags eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum. Samtök ferðaþjónustunnar skiluðu inn umsögn um þá vinnu sem má lesa hér.
Eftirlit verði samræmt
SAF hafa hvatt stjórnvöld til að stíga nauðsynlegt skref þegar kemur að eftirliti skv. matvælalögum og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir. Það er að eftirlitið verði samræmt, það einfaldað og gert skilvirkara. Því verður best náð með því að færa allt eftirlit frá heilbrigðiseftirlitum (sveitarfélögum) og til stofnana ríkisins.