Umsögn SAF um áform um atvinnustefnu til 2035

Samtök ferðaþjónustunnar hafa skilað umsögn til forsætisráðuneytisins um áform um atvinnustefnu Íslands til 2035, sem kynnt voru í Samráðsgátt stjórnvalda 11. ágúst. Í umsögninni, dagsettri 26. ágúst, leggja samtökin áherslu á samkeppnishæft, hagkvæmt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki og að stefnumótun byggi á gögnum, staðreyndum og samþykktri ferðamálastefnu til 2030.

Hagkvæmt rekstrarumhverfi og samkeppnishæf umgjörð

Í umsögninni ítreka SAF að hlutverk stjórnvalda sé fyrst og fremst að tryggja hagkvæmt rekstrarumhverfi og skýra skipulagsumgjörð fyrir atvinnulífið. Markaðsforsendur, tækniframfarir og breyttar þarfir ráða því síðan hvar vöxtur verður. Samtökin vara við nálgun þar sem tilteknar atvinnugreinar eru valdar umfram aðrar og leggja áherslu á að samkeppnishæfni sé lykilforsenda aukinnar verðmætasköpunar.

Sérstök áhersla er lögð á fyrirsjáanleika í sköttum og gjöldum. SAF telja skaðlegt að leggja á ný gjöld eða hækka álögur með stuttum fyrirvara, enda dragi slíkt úr fjárfestingargetu, auki óvissu og veikji samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart erlendum keppinautum.

Framleiðni og nýsköpun í ferðaþjónustu

Ferðaþjónusta er fjölbreytt atvinnugrein með ólíkar undirgreinar og víðtæka virðiskeðju. Framleiðni mælist há í sumum greinum, svo sem ökutækjaleigu og flutningum með flugi, en lægri í gisti- og veitingarekstri. Tækifæri eru til að auka framleiðni enn frekar, en til dæmist hefur framleiðni í gisti- og veitingarekstri vaxið um 13% á síðustu fimm árum sem er um þrefalt hraðar en í hagkerfinu almennt.

SAF benda á að rannsóknir og þróun í ferðaþjónustu hafi setið á hakanum miðað við aðrar greinar. Með markvissum stuðningi við nýsköpun, rannsóknir og þróun megi hraða framþróun, auka framleiðni og nýta tækifæri betur.

Áhrif á atvinnulíf og landsbyggð

Ferðaþjónusta styður við fjölbreyttar greinar atvinnulífsins, meðal annars verslun, byggingariðnað, hugverkaiðnað, sjávarútveg og landbúnað. Uppbygging þjónustu og aukin umsvif skapa eftirspurn eftir vörum og þjónustu frá fjölda fyrirtækja um land allt.

Atvinnugreinin hefur einnig haft afgerandi jákvæð áhrif á atvinnuþróun á landsbyggðinni. Frá 2010 til 2019 varð helmingur allra nýrra starfa utan höfuðborgarsvæðisins til í ferðaþjónustu. SAF telur mikilvægt að horft sé til þess að styrkja áfram þá atvinnuuppbyggingu sem þegar er til staðar.

Atvinnustefna byggi á gögnum og taki mið af ferðamálastefnu

SAF leggur áherslu á að umræða og stefnumótun byggi á opinberum gögnum. Þrátt fyrir mikla sókn eftir fjármálahrun hefur ferðaþjónusta lítið sem ekkert stækkað frá 2017 þegar horft er til lykilmælikvarða. Fjöldi starfandi í greininni var áætlaður um 31 þúsund bæði 2017 og 2024, fjöldi erlendra ferðamanna var sambærilegur árin 2017 og 2024 og hlutfall ferðaþjónustu af heildarútflutningsverðmætum lækkaði á sama tímabili. Þá skilar ferðaþjónusta að jafnaði um þriðju hverri krónu sem verðmætasköpun greinarinnar skapar til ríkis og sveitarfélaga í formi skatta og gjalda.

Samtökin minna á að Alþingi samþykkti í júní 2024 ferðamálastefnu og aðgerðaráætlun til 2030. Unnið er að innleiðingu hennar í samstarfi atvinnugreinarinnar og stjórnvalda undir forystu atvinnuvegaráðherra. Að mati SAF á atvinnustefna til 2035 að taka mið af þessari sameiginlegu stefnu og markmiðum hennar um arðbæra, samkeppnishæfa og ábyrga ferðaþjónustu í sátt við land og þjóð.

Umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar við áform um atvinnustefnu Íslands til 2035

Tengdar fréttir

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Samtök verslunar og þjónustu (SVÞ) boða til opins fundar um vetrarþjónustu og öryggismál á íslenska vegakerfinu. Fundurinn fer …

Síðustu vikur hefur fjöldi ferðaþjónustuaðila stigið fram og rætt stöðuna í atvinnugreininni og áhrif boðaðra skattabreytinga á rekstur ferðaþjónustufyrirtækja og verðmætasköpun greinarinnar …

Samtök ferðaþjónustunnar og Swiss Hotel Management School (SHMS) standa að rafrænni Masterclass vinnustofu miðvikudaginn 26. nóvember nk. undir yfirskriftinni Empowering Service Excellence through Leadership and Team Collaboration.  📅 26. nóvember 2025⏱️ 13:00 – 16:00📍 Í netheimum // ZOOM🎟️ 9.900 kr / 19.900 kr  …

Formaður SAF og forsætisráðherra - ferðaþjónustudagurinn 2025

Ferðaþjónustudagurinn 2025 var haldinn í Silfurbergi í Hörpu þann 23. október síðastliðinn. forsætis- og ferðamálaráðherra tóku þátt í fundinum og ræddu stöðu …

Ríkisstjórnin hefur kynnt að hækka skuli vörugjöld á ökutæki frá og með næstu áramótum. Hækkunin nemur nærri tvöföldun og mun hækka verð …

Ekki hafa allir stjórnmálamenn aldur til að muna hvernig ferðaþjónustan birtist eins og upplýstur björgunarbátur út úr svartnættinu sem lá yfir öllu …