Tillögur SAF til að hraða endurreisn ferðaþjónustu og árangursmælaborð
Öflug endurreisn íslensks efnahagslífs eftir kórónuveirufaraldurinn valt á hraðri viðspyrnu ferðaþjónustunnar, eins og kom m.a. fram í Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir 2022-2026. Til að styðja við öfluga endurreisn gáfu SAF út Vegvísi um viðspyrnu ferðaþjónustu til 2025. Í vegvísinum voru dregnar saman tillögur að aðgerðum stjórnvalda sem þóttu nauðsynlegar til að flýta viðspyrnu hennar, styðja við endurreisn efnahagslífs og takmarka neikvæð og langvarandi samfélagsleg áhrif faraldursins.
Í skýrslu KPMG um þróun starfsumhverfis ferðaþjónustunnar kom fram að eftir því sem viðspyrna ferðaþjónustu drægistá langinn myndi samfélagslegur kostnaður aukast. Hröð viðspyrna ferðaþjónustunnar væri því ekki aðeins grundvöllur nauðsynlegrar aukningar í verðmætasköpun, til að vinna upp tap sem orðið var af efnahagskreppunni, heldur einnig grundvöllur þess að komið yrði í veg fyrir enn frekari samfélagslegan kostnað og neikvæð áhrif af völdum hennar. Leiðin til þess lá ekki síst í aðgerðum til að styðja við jákvæða þróun og hraða viðspyrnu ferðaþjónustunnar, sem lykildrifhjóls efnahagslífsins.
Í tengslum við vegvísinn birti SAF árangursmælaborð þar sem ýmis mælanleg markmið sem tengjast viðspyrnunni og framtíðarsýn ferðaþjónustunnar voru sett fram til ársins 2025. Í árangursmælaborðinu var fylgst með framvindu markmiðanna og þess gætt að þau tengdust stefnumarkmiðum sem eru sett fram í framtíðarsýn ferðamálastefnu til 2030. Mælaborðið er uppfært eftir því sem ný gögn birtast.
Í mælaborðinu eru einnig fjórir mælikvarðar um alþjóðlega samkeppnishæfni, en ítarlegri greiningu á ýmsum þáttum í samkeppnishæfni Íslands sem áfangastaðar er að finna í regluglega útgefninni skýrslu World Economoc Forum: Travel and Tourism Development Index.
© 2025 SAMTÖK FERÐAÞJÓNUSTUNNAR. Allur réttur áskilinn.