Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar

Árleg viðurkenning fyrir framúrskarandi nýsköpunarstarf í ferðaþjónustu

Nýsköpun og vöruþróun eru hjarta ferðaþjónustunnar

Íslensk ferðaþjónusta hefur sýnt það á síðustu áratugum hversu frjór jarðvegur atvinnugreinin er fyrir hugmyndaríkt fólk og fyrirtæki. Á stuttum tíma byggðist upp ótrúlega fjölbreytt flóra þjónustu og atvinnutækifæra um allt land, sem lagt hefur grunninn að einni mikilvægustu útflutningsgrein þjóðarinnar. Nýsköpun og vöruþróun er eitt af aðalsmerkjum íslenskrar ferðaþjónustu og Samtök ferðaþjónustunnar veita viðurkenningu fyrir eftirtektarverð verkefni á þeim vettvangi árlega.

Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar eru afhent árlega fyrir athyglisverðar nýjungar og er markmiðið að hvetja fyrirtæki innan Samtaka ferðaþjónustunnar til nýsköpunar og vöruþróunar. Auk viðurkenningar hlýtur verðlaunahafi peningaverðlaun.

Meðal markmiða Samtaka ferðaþjónustunnar er að nýsköpun og fagmennska innan greinarinnar tryggi arðsemi allt árið, enda byggi ferðaþjónustan á sterkri ímynd, gæðum, þekkingu og traustum innviðum. Auk þess segir í stefnu SAF að landið allt verði kynnt til eflingar ferðaþjónustu og að náttúra, mannlíf og menning landsins gegni lykilhlutverki. Hvatt er til aukinnar samvinnu innan greinarinnar til að styrkja enn frekar innviði og efla markaðssetningu landsins sem heildar. Tekið er tillit til þessara þátta meðal annarra þegar tilnefningar eru metnar.

Nýsköpunarverðlaun SAF hafa verið afhent síðan 2004 en tvenn verðlaun eru veitt, annars vegar Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar og hins vegar Nýsköpunarviðurkenning ferðaþjónustunnar. Verðlaunin eru afhent í tengslum við afmæli SAF þann 11. nóvember ár hvert.

Frá afhendingu Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar 2023. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Bjarnheiður Hallsdóttir, formaður SAF ásamt þeim Birnu Hrönn Björnsdóttur, Evu Maríu Þórarinsdóttur Lange og Hannesi Pálssyni stofnendum og eigendum Pink Iceland.

Fyrri verðlaunahafar

Eftirfarandi fyirtæki hafa hlotið  Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar á liðnum árum:

2023 – Pink Iceland
2022 – Vök Baths
2021 – Icelandic Lava Show
2020 – Íslensk ferðaþjónusta í heild
2019 – Sjóböðin Húsavík
2018 – Bjórböðin á Árskógssandi
2017 – Friðheimar í Bláskógabyggð
2016 – Óbyggðasetur Íslands
2015 – Into The Glacier
2014 – Gestastofan Þorvaldseyri
2013 – Saga Travel
2012 – Pink Iceland
2011 – KEX hostel
2010 – Íslenskir fjallaleiðsögumenn
2009 – Fuglasafn Sigurgeirs í Mývatnssveit
2008 – Menningarsetrið Þórbergssetur
2007 – Norðursigling – Húsavík
2006 – Landnámssetur Íslands
2005 – Adrenalín.is, VEG Guesthouse á Suðureyri og Fjord Fishing
2004 – Sel Hótel Mývatn og Hótel Aldan

Vök Baths hlaut Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar árið 2022. Eliza Reid, forsetafrú og Bjarnheiður Hallsdóttur, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar ásamt Aðalheiði Ósk Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Vök Baths og Ívari Ingimarssyni, stjórnarmanni hjá Vök Baths.
Frá afhendingu Nýsköpunarverðlauna ferðaþjónustunnar 2021. Eliza Reid, forsetafrú og Bjarnheiður Hallsdóttur, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar ásamt fulltrúum Icelandic Lava Show þeim Ragnhildi Ágústsdóttur, stofnanda og eins eiganda Icelandic Lava Show, Hildi Árnadóttur og Ragnari Þóri Guðgeirssyni.

Viltu tilnefna fyrirtæki til verðlaunanna?