Bláa Lónið er Menntafyrirtæki ársins 2023

Menntaverðlaun atvinnulífsins voru veitt í dag fyrirtækjum sem skara fram úr í fræðslu- og menntamálum. Bláa lónið er Menntafyrirtæki ársins og Vaxtarsprotar OR hljóta Menntasprotann 2023. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA afhentu verðlaunin á Menntadegi atvinnulífsins sem fram fór í Hörpu í dag.

Bláa lónið er Menntafyrirtæki ársins 2023

Frá afhendingu Menntaverðlauna atvinnulífsins 2023. Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður SA, Sigrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Bláa Lónsins, Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins og Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA.

Bláa Lónið er eitt af stærstu fyrirtækjum í ferðaþjónustu á Íslandi með yfir 700 starfsmenn sem starfa við tvö baðlón, tvö hótel, fjórar verslanir, fjóra veitingastaði, lækningamiðstöð og rannsóknar- og þróunarsetur. Eins og önnur fyrirtæki í ferðaþjónustu fylgja því margar áskoranir að koma rekstrinum á fullt skrið eftir samdrátt COVID áranna og taka á ný á móti fjölda ferðafólks af öllum þjóðernum.

Mikilvægur þáttur þess er að byggja upp viðeigandi þjálfun og viðhalda þekkingu í síbreytilegu rekstrarumhverfi þar sem byggt er á grunngildum félagsins og það mannlega er tengt við náttúruna, um leið og gestir eignast ógleymanlega minningar.

„Það að tengja allt fræðslustarf félagsins við leiðarljós þess og innri gildi hefur skilað árangri. Okkur hefur tekist, með þessu, að byggja upp sterkan hóp samstarfsfólks sem hefur sjálfstraust og þekkingu til þess að sinna starfi sínu vel, jafnvel við kerfjandi aðstæður, þar sem oft þarf að bregðast við af festu og fagmennsku til að tryggja upplifun gesta okkar og góðar minningar,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa Lónsins.

Nýtt upphaf Blá Lónsins var vel undirbúið með fræðslu- og vinnustofum starfsfólks með forstjóra og framkvæmdastjórum þar sem þau gátu komið með tillögur að fræðsluefni, aðgerðum og verkefnum. Valið var milli fjölmargra hugmynda starfsfólksins með kosningu þeirra um þær hugmyndir sem setja ætti í forgang og urðu að veruleika.

Mikil tækifæri og áskoranir felast í starfsfólki af 40 þjóðernum, að tryggja að þekking og fræðsla taki mið af því og nái til þess alls, en um leið nýtist þessi fjölbreytni til þess að ná markmiðunum um að skapa gestum af öllum þjóðernum einstaka upplifun.

„Við trúum því einnig að með því að hlúa að starfsfólki, gefa þeim rödd, svigrúm og sjálfræði til þess að hafa áhrif á þróun fræðslunnar og miðlun hennar skili það sér í aukinni ánægju og sjálfstrausti fólksins okkar,“ segir Sigrún Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri mannauðssviðs Bláa Lónsins.

Bláa Lónið sýnir með fræðsluáætlun, mælikvörðum og mælingum að árangur fræðslustarfs er mikill og góður. Þátttaka er með miklum ágætum enda fjölbreyttar fræðsluleiðir í boði, námskeið, rafræn námskeið, fræðsla með Bláa Lóns fræðslumyndböndum og í Bláa Lóns akademíu, auk námskeiða hjá fræðsluaðilum utanhúss. Mikil áhersla er lögð á að þjálfa leiðbeinendur úr hóp starfsfólksins og skapa þeim þar með tækifæri til framþróunar með markvissri þátttöku sem ýtir undir styrkleika og hæfileika. Í fræðsluráði Bláa Lónsins starfa þannig 42 einstaklingar frá öllum sviðum fyrirtækisins sem hafa það markmið að skapa sterkan hóp starfsfólks með sjálfstraust og þekkingu til að sinna starfi sínu af festu og fagmennsku þar sem gesturinn er ávallt í fyrsta sæti.

„Menntun á sér nærri órjúfanlegan feril frá fyrstu árum lífsins til starfsreynslu á vinnumarkaði og símenntunar út æviskeiðið. Ef vel er haldið á spöðunum verður þessi ferill til þess að auka færni starfsfólks, ýta undir verðmætasköpun og bæta þar með lífskjör allra. Við hjá SA erum stolt að sjá félagsmenn okkar sinna vandaðri fræðslu á vinnustað og það er til eftirbreytni hvernig Bláa lóninu hefur tekist að rísa úr heimsfaraldri með sterkari mannauð sökum öflugs fræðslustarfs þar sem inngilding og sjálfræði starfsmanna skiptir sköpum,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA af þessu tilefni

Verðlaunin voru veitt af forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni á Menntadegi atvinnulífsins í Hörpu í dag. Dagurinn er samstarfsverkefni Samtaka atvinnulífsins og aðildarsamtaka þvert á atvinnugreinar og var haldinn í tíunda sinn í ár. Menntaverðlaunin eru valin af dómnefnd úr fjölda tilnefninga og veitt þeim fyrirtækjum sem þykja skara fram úr á sviði fræðslu- og menntamála.

Menntaverðlaun atvinnulífsins eru veitt á árlegum menntadegi atvinnulífsins. Þetta er í tíunda sinn sem dagurinn er haldinn. Yfirskrift menntadagsins að þessu sinni var Færniþörf á vinnumarkaði. Að deginum standa Samtök atvinnulífsins, Samorka, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök fjármálafyrirtækja, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtök iðnaðarins og Samtök verslunar og þjónustu.

Tengdar fréttir

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök hafa opnað fyrir tilnefningar til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins 2025. Hvetja samtökin aðildarfyrirtæki til að senda inn tilnefningar eigi síðar …

Vesturland sótt heim

Á dögunum gerðu Samtök ferðaþjónustunnar víðreist um Vesturland þar sem formaður og starfsfólk samtakanna hittu fyrirtæki í ferðaþjónustu, forystufólk í sveitarstjórnum og …

Fjöldi kvenna í ferðaþjónustu komu saman í Gamla kvennaskólanum sl. miðvikudag til þess að fagna upphafi verkefnisins Konur í ferðaþjónustu sem Samtök …

Samtök ferðaþjónustunnar hafa skilað umsögn til forsætisráðuneytisins um áform um atvinnustefnu Íslands til 2035, sem kynnt voru í Samráðsgátt stjórnvalda 11. ágúst. …

Eitt ár er þar til Íslendingar upplifa almyrkva á sólu í fyrsta sinn síðan 1954. Um sögulegan atburð er að ræða því …

Evrópusambandið hefur undanfarin ár unnið að rafrænu skráningarkerfi ferðamanna sem ferðast inn fyrir sameiginleg landamæri Schengen svæðisins – svokölluðu Entry/Exit System(skammstafað EES). …