Nadine Guðrún Yaghi, forstöðumaður samskipta og þjónustu hjá Play
Kæru félagar í SAF,
Ég heiti Nadine Guðrún Yaghi og hef starfað sem forstöðumaður samskipta- og þjónustu hjá flugfélaginu PLAY síðustu tvö ár. Þar áður starfaði ég sem fréttamaður hjá Stöð2, Bylgjunni og Vísi í um sjö ár. Ég er með meistaragráðu í lögfræði frá Háskóla Íslands.
Á tíma mínum í fjölmiðlum fjallaði ég talsvert um ferðaþjónustuna, sérstaklega í tengslum við heimsfaraldurinn og þær áskoranir sem greinin stóð frammi fyrir á þeim tíma. Þar áttaði ég mig strax á því mikilvæga hlutverki sem SAF gegnir. Hjá PLAY hef ég síðan uppgötvað að ég hef sérstaka ástríðu fyrir vexti og viðgangi þessarar greinar og mér er orðið ljóst að Íslendingar eiga mikið undir. Við hjá PLAY viljum ólm leggja okkar af mörkum til að vinna að hagsmunum ferðaþjónustunnar og býð ég mig því fram til stjórnarsetu í SAF.
Með reynslu mína úr fjölmiðlum og nú úr ferðaþjónustu að vopni tel ég mig geta komið sterka inn við að efla mikilvægt hlutverk SAF við að skapa jákvæða umræðu um ferðaþjónustu í landinu og koma brýnum málefnum á dagskrá. Eftir að ég steig inn á svið ferðaþjónustunnar hef ég áttað mig á hve góðar forsendur ég hef til að beita mér fyrir hagsmunum greinarinnar vegna reynslunnar úr heimi fjölmiðla.
PLAY er kröftugt nýtt fyrirtæki sem hefur stimplað sig rækilega inn í íslenska ferðaþjónustu á skömmum tíma. Það liggur beinast við að fyrirtækið leggi sitt af mörkum við að efla hag greinarinnar á vettvangi SAF.
Fluggeirinn spilar lykilhlutverk í að móta viðskiptavinahóp Íslands til framtíðar og þar gegnir PLAY lykilhlutverki. Við áætlum að flytja hátt í 1,7 milljón farþega til og frá landinu á árinu og mun fjölga hratt í þeim hópi á næstu árum.
Það er óumdeilt að lág fargjöld PLAY hafa áhrif á vilja ferðamanna til að koma til landsins en sá misskilningur er lífseigur að þessi sömu fargjöld laði aðeins að viðskiptavini með lítinn kaupmátt. Því er öfugt farið. Þessi fargjöld leiða einmitt til þess að viðkomandi ferðamenn hafi meira á milli handanna þegar hingað er komið.
Þar sem góðum flugsamgöngum sleppir verða innviðirnir innanlands að taka við. Þeim hefur verið ábótavant. Í uppbyggingunni fram undan verða innviðirnir að geta þjónustað hópinn og við þurfum að berjast fyrir því til að ná sem bestum árangri. Þar tel ég að ferðaþjónustan verði að koma fram sem ein heild. Eitt er framboð af flugsætum en annað er að innviðirnir séu í lagi. Það er samvinnuverkefni okkar allra og ekki síður stjórnvalda.
Við erum þegar á réttri leið með árstíðasveifluna en þar verðum við einnig að gera enn betur og hugsa sameiginlega í lausnum. Á landsbyggðinni eru gífurleg sóknarfæri og þar gæti til dæmis miklum árangri getur verið náð með því að nýta fleiri flugvelli og fjölga gáttum inn í landið. Framtíð ferðaþjónustunnar er björt ef haldið er rétt á spilunum og ég vil gjarnan fá að taka virkan þátt í þessari mikilvægu uppbyggingu.