Undanfarin misseri hafa raddir í stjórnkerfinu á ný viðrað þá hugmynd að hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu í 24% gæti verið hentug leið til að auka tekjur ríkissjóðs af greininni. Er þar gjarnan vísað til lægra VSK þreps ferðaþjónustu sem einhvers konar “skattaafsláttar” sem valdi því að ríkið gefi eftir miklar tekjur.
Sá vandi er þó vel þekktur að á bak við þær tölur sem oft er vísað til í því samhengi, svonefnda “skattastyrki”, liggur ekkert áhrifamat á raunáhrifum breytingar skattprósentunnar á eftirspurn og samkeppnishæfni, heldur er einungis stuðst við einfalda aðferðafræði um eftirgefnar tekjur (e. revenue forgone method), eins og fjármálaráðuneytið hefur staðfest.
Þetta hafa Samtök ferðaþjónustunnar ítrekað bent á og einnig að slík hækkun myndi örugglega hafa bein neikvæð áhrif á samkeppnishæfni og eftirspurn og þar með neikvæð áhrif á verðmætasköpun og skatttekjur. Samtökin óskuðu því eftir því við Hagrannsóknir sf. að nýta hið nýja þjóðhagslíkan með ferðaþjónustugeira sem gert var fyrir Ferðamálastofu til að vinna óháða rannsókn á raunáhrifum slíkrar grundvallarbreytingar á rekstrar- og samkeppnisumhverfi greinarinnar. Sérstaklega var horft til þess að sannreyna hvort þær tugmilljarða skatttekjur sem margir telja að muni skila sér til ríkisins með svona breytingu skili sér í raun og veru.
Skýrslan er aðgengileg í heild sinni hér: Um áhrif hækkana á hlutfalli virðisaukaskatts á ferðaþjónustugreinar.pdf
Niðurstöður rannsóknarinnar eru afdráttarlausar
Í samantekt niðurstaðna rannsóknarinnar segir:
- Almenn greining á grundvelli viðtekinnar þjóðhagfræði bendir til þess að svona hækkun [úr 11% í 24%] muni:
- Minnka veltu í ferðaþjónustu, veikja samkeppnisstöðu greinarinnar og draga úr vexti hennar á komandi árum.
- Draga úr vergri landsframleiðslu og vexti hennar.
- Auka opinberar skatttekjur mun minna en nemur hækkun virðisaukaskattshlutfallsins og ef til vill lækka þær í framtíðinni miðað við það sem að öðrum kosti hefði orðið.
- Lækka gengi og hækka verðlag og þar með verðbólgu á viðkomandi ári. Til lengri tíma eru verðbólguáhrifin hins vegar óviss og gætu orðið neikvæð.
- Athugun á reynslu annara þjóða af hliðstæðum skattahækkunum (-lækkunum) staðfesta
ofangreindar niðurstöður í öllum aðalatriðum. Hærra hlutfall virðisaukaskatts á greinar
ferðaþjónustu dregur úr umsvifum í ferðaþjónustu, lækkar verga landsframleiðslu og í
framhaldinu opinberar skatttekjur, en lækkun virðisaukaskattshlutfalls hefur gagnstæð
áhrif. - Formleg þjóðhagslíkön með ferðaþjónustugeira staðfesta þessar almennu niðurstöður og
bæta við tölulegu mati á áhrifunum.- DSGE-líkan Hagrannsókna sf. gefur til kynna að hækkun virðisaukaskattshlutfallsins
hafi umtalsverð neikvæð áhrif á verga landsframleiðslu þegar á fyrsta ársfjórðungi og
aukning opinberra skatttekna á fyrsta ári sé miklu minni en hækkun
virðisaukaskattshlutfallsins gefur tilefni til að ætla. - QMM-líkan með ferðaþjónustugeira, sem Hagrannsóknir hafa þróað, staðfestir að
hækkun opinberra skatttekna á fyrsta ári sé miklu minni en hækkun
virðisaukaskattshlutfallsins gefur tilefni til að ætla og lækkun vergra þjóðartekna sé
talsvert meiri en aukning skattteknanna. Þessu til viðbótar telur QMM-líkanið að
hækkun virðisaukaskattsins muni veikja gengi krónunnar og hækka verðbólgu á
fyrsta ári.
- DSGE-líkan Hagrannsókna sf. gefur til kynna að hækkun virðisaukaskattshlutfallsins
- Ofangreind þjóðhagslíkön eru hönnuð til hagspáa til skamms tíma. Einföld
hagvaxtarlíkön sem geta horft lengra fram á veginn benda til að hækkun virðisaukaskatts
muni draga úr hagvexti til lengri tíma og verg landsframleiðsla haldi því áfram að lækka
mörg ár fram í tímann miðað við það sem að öðrum kosti hefði orðið. Af þessari ástæðu
telja þau einnig að draga muni úr tekjuaukningu hins opinbera með tímanum og innan
tiltölulegra fárra ára muni opinberar skatttekjur verða minni en þær hefðu ella orðið. - Eigi opinber útgjöld og skattheimta að vera þjóðhagslega hagkvæm er nauðsynlegt að
jaðarábati samfélagsins af sérhverjum þætti opinberra fjármála sé sá sami. Þar sem þessi
samanburður hefur ekki verið framkvæmdur eru engin haldbær rök fyrir því að umrædd
hækkun virðisaukaskatts sé þjóðhagslega vænlegri en einhver önnur skattahækkun eða
samsvarandi útgjaldalækkun.
Kynningarfundur um niðurstöður rannsóknarinnar
Samtök ferðaþjónustunnar standa í dag fyrir fundi um ferðaþjónustuna og virðisaukaskattinn á Berjaya Reykjavík Natura Hótel og stendur á milli kl. 9.00 og 10.30. Á fundinum munu Hagrannsóknir sf. kynna niðurstöður sínar á áhrifum hækkunar virðisaukaskatts á ferðaþjónustuna. Þá verða pallborðsumræður á vettvangi stjórnmálanna um niðurstöður skýrslunnar.
Dagskrá:
Ávarp
• Pétur Óskarsson, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar
Hagrannsóknir sf. kynna skýrslu um áhrif virðisaukaskattshækkana á ferðaþjónustu
• Dr. Birgir Þór Runólfsson
• Dr. Marías H. Gestsson
• Prófessor Ragnar Árnason
Pallborðsumræður á vettvangi stjórnmálanna
• Lilja D. Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra
• Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins
• Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins
• Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar
Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA stýrir fundinum og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, leiðir pallborðsumræður.
Fundurinn er sendur út hér: https://vimeo.com/event/4320539