Skarphéðinn Berg Steinarsson, eigandi Sjávarborgar
Allt frá árinu 2010 hef ég unnið í ferðaþjónustu, verkefnum af ýmsu tagi. Ég hef fengist við gistingu, afþreyingu, flug og veitingar. Síðustu ár hef ég verið ferðamálastjóri. Lengst af þessa tíma hef ég svo ásamt konu minni og félögum átt og rekið Sjávarborg í Stykkishólmi, lítið gistihús og kaffihús. Reynslan er því fjölbreytt.
Samtök ferðaþjónustunnar hafa verið í forystu atvinnugreinarinnar og verið málsvari gagnvart stjórnvöldum og öðrum við mótun rekstrarumhverfis og framtíðar. Eftir áhrif heimsfaraldurs stendur ferðaþjónustan á krossgötum en ákveða þarf hvernig við ætlum að standa að málum á næstu árum. Hvernig áfangastaður ætlum við að verða og hvernig ætlum við að hafa framfærslu af þessu? Það eru mörg álitaefni sem varða sjálfbærni greinarinnar, aðgangsstýringu og álag.
Ég hef áhuga á að taka þátt í starfi SAF og leggja mitt af mörkum í þeirri vinnu sem fram undan er við að móta öfluga og trausta atvinnugrein. Reynsla mín og bakgrunnur eiga að koma þar að gagni. Auk hennar nýt ég þess að vera í atvinnurekstri á landsbyggðinni og koma með sjónarmið þeirra sem þaðan eru og reka þar lítil fyrirtæki.