
Samtök ferðaþjónustunnar fögnuðu 25 ára afmæli samtakanna með pomp og prakt á dögunum með glæsilegri afmælisráðstefnu sem fram fór á Hilton Reykjavík Nordica undir yfirskriftinni „Samtaka í 25 ár“.
Hann var þéttsetinn bekkurinn í aðalsal Hilton Reykjavík Nordica þegar þær Erna Hauksdóttir og Helga Árnadóttir, fyrrverandi framkvæmdastjórar SAF, opnuðu afmælisráðstefnuna, en rúmlega 400 manns tóku þátt í ráðstefnunni. Erna var fyrsti framkvæmdastjóri SAF, en samtökin voru stofnuð 11. nóvember árið 1998. Erna starfaði hjá SAF í 15 ár þar til Helga tók við undir lok árs 2013 og stýrði samtökunum í 5 ár. Í skemmtilegum inngangi fóru framkvæmdastjórarnir fyrrum yfir viðburðarrík, krefjandi og skemmtileg ár á vettvangi SAF.
Nýsköpunarverðlaun afhent

Á ráðstefnunni voru Nýsköpunarverðlaun ferðaþjónustunnar afhent í 20. skipti. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti verðlaunin með viðhöfn fyrir troðfullum sal á Hilton Reykjavík Nordica, en rúmlega 400 manns tóku þátt í afmælisráðstefnu SAF. Pink Iceland hlaut Nýsköpunarverðlaunin ferðaþjónustunnar árið 2023 og Skriðuklaustur í Fljótsdal fékk sérstaka nýsköpunarviðurkenningu.
Ásamt því að afhenda verðlaunin flutti forseti Íslands afar góða ræðu þar sem hann fjallaði um ferðaþjónustuna á sinn einstaka hátt ásamt því að senda Grindvíkingum góðar kveðjur í þeim áskorunum sem þeir standa frammi fyrir.
Glæsileg dagskrá

Dagskráin á afmælisráðstefnunni var sérlega glæsilega en hátt í 50 fyrirlesarar komu fram á 16 viðburðum sem síðan skiptust upp í fjögur þemu sem fjölluðu um framtíð ferðaþjónustunnar, vöruþróun í greininni, þekkingu á ferðaþjónustu og áhrif hennar á samfélagið. Góður rómur var gerður að þessu fyrirkomulag hjá ráðstefnugestum. Ætla má að Afmælisráðstefna SAF hafi verið stærsti viðburður sem haldin hefur verið hér á landi og hverfist um ferðaþjónustu með þessu fyrirkomulagi.
Allir viðburðirnir voru teknir upp og geta ráðstefnugestir og aðrir áhugasamir nálgast upptökurnar á ráðstefnusíðu SAF.
Iðandi markaðstorg
Í tengslum við afmælisráðstefnuna var sett upp markaðstorg á Hilton Reykjavík Nordica þar sem fyrirtæki og stofnanir sem starfa í stoðkerfi ferðaþjónustunnar kynntu vörur sínar og þjónustu. Var gerður góður rómur markaðstorginu, en eftirtalin fyrirtæki og stofnanir tóku þátt: A4, Akademias,Ferðagögn, Ferðamálastofa, Glaze, Godo, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, Keeps, Markaðsstofur landshlutanna og Safetravel.
Framtíðin er björt

Það kom í hlut núverandi forystu SAF, þeirra Bjarnheiðar Hallsdóttur, formanns og Jóhannesar Þórs Skúlasonar, framkvæmdastjóra ásamt Lilju Dögg Alfreðsdóttur, ráðherra ferðamála, að slá botninn í formlega hlutann á afmælisráðstefnunni. Voru þau öll á því að framtíð SAF og ferðaþjónustu á Íslandi væri sannarlega björt.
Að aflokinni frábærri ráðstefnu var síðan slegið upp afmælisfögnuði og netagerð undir ljúfum tónum og glæsilegum veitingum.
Ljósmyndir frá ráðstefnunni

Hirðljósmyndari SAF, Birgir Ísleifur Gunnarsson, var að sjálfsögðu á staðnum og myndaði afmælisráðstefnuna í bak og fyrir.
Takk fyrir okkur!
Samtök ferðaþjónustunnar færa öllum þeim sem tóku þátt í 25 ára afmælinu sínar bestu þakkir – þeim sem fluttu erindi og tóku þátt í umræðum, fyrirtækjunum sem tóku þátt í markaðstorginu og síðast en ekki síst þeim fjölmörgu ráðstefnugestunum sem fylltu sali og ganga Hilton Reykjavík Nordica.