Í aðdraganda aðalfundar SAF 2024 sem fram fer fimmtudaginn 21. mars hefur kjörnefnd verið að störfum sem hefur það hlutverk að undirbúa og hafa yfirumsjón með stjórnarkjöri á aðalfundi samtakanna. Kjörnefnd hefur þegar auglýst eftir framboðum til stjórnar og formanns SAF fyrir starfsárin 2024 – 2026.
Samkvæmt lögum SAF skal stjórnarkjöri þannig háttað að annað hvert ár skal kjósa formann og þrjá meðstjórnendur en hitt árið eru hinir þrír meðstjórnendurnir í kjöri.
Framboðsfrestur rann út fimmtudaginn 7. mars og skiluðu 7 aðilar inn framboði í stjórn SAF. Eitt framboð barst til formanns SAF, en Pétur Óskarsson, framkvæmdastjóri Viator ehf. gefur kost á sér og verður því sjálfkjörinn á aðalfundi samtakanna sem fram fer á Hilton Reykjavík Nordica, fimmtudaginn 21. mars nk.
Frambjóðendur til stjórnar SAF eru eftirtaldir í stafrófsröð:
- Ásgeir Baldurs, forstjóri Arctic Adventures
- Björn Ragnarsson, forstjóri Icelandia
- Bragi Skaftason, framkvæmdastjóri 10 sopa
- Erna Dís Ingólfsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Íslandshótelum
- Hildur Guðbjörg Kristjánsdóttir, eigandi Midgard
- Ragnhildur Ágústsdóttir, stofnandi og eigandi Lava Show
- Sævar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustunnar Mjóeyri við Eskifjörð
Kosningar á aðalfundi fara fram með rafrænum hætti líkt og undanfarin ár. Fyrirtækið Könnuður ehf. annast kosninguna fyrir hönd SAF, en hún fer fram í gegnum Þínar síður Húss atvinnulífsins og hefst fimmtudaginn 14. mars og lýkur á aðalfundardaginn fimmtudaginn 21. mars nk.