Sjálfbærniráðstefna sótt í Svíþjóð

Undir lok aprílmánaðar lögðu starfsmenn SAF, þau Ágúst Elvar Bjarnason og María Rut Ágústsdóttir, verkefnastjórar, leið sína á ráðstefnu Global Sustainable Tourism Council (GSTC) sem haldin var í Stokkhólmi. GSTC er leiðandi stofnun í þróun sjálfbærnistaðla en stofnunin þróar og stjórnar alþjóðlegum stöðlum fyrir sjálfbæra ferðaþjónustu, sem kallast GSTC viðmiðin (e. GSTC Criteria). Viðmiðunum er ætlað að búa til sameiginlega skilning um sjálfbæra ferðaþjónustu og veitir stofnunin faggildingu til vottunaraðila ásamt því að veita viðurkenningu til sjálfbærnistaðla sem fara eftir GSTC viðmiðunum.

Yfir 500 þátttakendur frá 57 löndum

Ráðstefnur GSTC eru frábær vettvangur ferðaþjónustuaðila, opinberra aðila, fræðimanna, frjálsra félagasamtaka og annarra hagsmunaaðila til að koma saman og efla alþjóðlegt samtal um sjálfbærnimál. Yfir 500 þátttakendur sóttu ráðstefnuna frá 57 löndum. Boðið var upp á yfir 20 fyrirlestra, kynningar og vinnustofum um hin ýmsu málefni, þar á meðal umhverfismál, samfélagsmál og stjórnsýslu. Meðal fyrirlesara var Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri, en hann tók þátt í pallborði um hvernig hvetja má ferðamenn til lengri dvalar á áfangastöðum.

Luigi Cabrini, formaður GSTC, talaði í pallborði um hlutverk ferðaþjónustunnar í stuðningi við líffræðilegan fjölbreytileika.

Aukin þörf á gagnaöflun og rannsóknum

Meðal þess sem kom ítrekað fram í ýmsum fyrirlestrum ráðstefnunnar var þörf á aukinni gagnaöflun og rannsóknum í ferðaþjónustu, auk samræmingar á þeim stöðlum sem notaðir eru í sjálfbærri þróun. Í opnunarræðu sinni talaði Randy Durband, framkvæmdastjóri GSTC, einnig um mikilvægi þess að ferðaþjónustuaðilar þrói með sér ferla til að mæla og skýra frá sjálfbærnimælikvörðum, til dæmis með notkun vottanakerfa. Heyra mátti á ýmsum sérfræðingum sem sóttu ráðstefnuna að mikilvægi gagna og rannsókna fer sívaxandi og að ólíkir hagsmunaaðilar sjá aukinn hag í því að vinna saman að þessum málum svo atvinnugreinin í heild sinni styrkist í sjálfbærri þróun.

Þá var einnig rætt um flókinn veruleika gagna sem snúa að samfélagslegum áhrifum ferðaþjónustu og gagnadrifna nýsköpun og fjallaði meðal annars einn fyrirlestrana um notkun gagna frá gervihnöttum og hvernig þau geta nýst til þess að bregðast við umhverfislegum breytingum, ákvarðanatöku um þolmörk ferðamannastaða og áhættustjórnun.

Mikilvægt að samstaða skapist um sjálfbærni

Arnar Már Ólafsson, ferðamálastjóri.

Þá fór mikið fyrir umræðum um mikilvægi þess að samstaða sé um sjálfbærni innan greinarinnar og hvernig áfangastaðir og fyrirtæki séu farsæl á þeirri vegferð. Mikil áhersla var lögð á notkun sjálfbærnivottana og ólíkra leiða sem hægt er að fara í þeim málum. Sérfræðingar frá ýmsum löndum sögðu frá þeim leiðum sem farnar hafa verið í þeirra heimalöndum, t.d. með aðkomu stjórnvalda í gegnum reglusetningar og í gegnum fræðslu innan greinarinnar. Mikill samhugur virtist meðal þátttakenda að einfalda þurfi frumskóg vottanakerfa og efla þurfi fræðslu og fjármagn í sjálfbærnimálum, sér í lagi til þess að lítil fyrirtæki geti mætt auknum kröfum um vottanir sem myndast í gegnum virðiskeðju atvinnugreinarinnar. Þá voru þátttakendur sammála um að taka þurfi á grænþvotti innan greinarinnar en heyra mátti að margir voru uggandi yfir útfærslu hertra Evrópureglna um markaðssetningu til neytenda (e. Green Claims Directive).

Frábært tækifæri fyrir SAF

Ferðaþjónusta er ein stærsta atvinnugrein landsins og mikilvægt að hún vaxi og dafni í jafnvægi við efnahag, umhverfið og samfélagið. Því eru viðburðir sem þessir frábært tækifæri fyrir hagsmunasamtök líkt og SAF til að sækja sér þekkingu um sjálfbærni, heyra reynslusögur annarra áfangastaða og búa til tengsl við sérfræðinga um heim allan.

Tengdar fréttir

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök hafa opnað fyrir tilnefningar til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins 2025. Hvetja samtökin aðildarfyrirtæki til að senda inn tilnefningar eigi síðar …

Vesturland sótt heim

Á dögunum gerðu Samtök ferðaþjónustunnar víðreist um Vesturland þar sem formaður og starfsfólk samtakanna hittu fyrirtæki í ferðaþjónustu, forystufólk í sveitarstjórnum og …

Fjöldi kvenna í ferðaþjónustu komu saman í Gamla kvennaskólanum sl. miðvikudag til þess að fagna upphafi verkefnisins Konur í ferðaþjónustu sem Samtök …

Samtök ferðaþjónustunnar hafa skilað umsögn til forsætisráðuneytisins um áform um atvinnustefnu Íslands til 2035, sem kynnt voru í Samráðsgátt stjórnvalda 11. ágúst. …

Eitt ár er þar til Íslendingar upplifa almyrkva á sólu í fyrsta sinn síðan 1954. Um sögulegan atburð er að ræða því …

Evrópusambandið hefur undanfarin ár unnið að rafrænu skráningarkerfi ferðamanna sem ferðast inn fyrir sameiginleg landamæri Schengen svæðisins – svokölluðu Entry/Exit System(skammstafað EES). …