Lokaritgerð um ferðamál á Íslandi verðlaunuð

Á dögunum veittu Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) og Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerð um ferðamál á Íslandi. Julia Kienzler hlaut verðlaun fyrir MS-ritgerð sína í umhverfis- og auðlindafræði frá líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. Guðrún Þóra Gunnarsdóttir forstöðumaður RMF og Pétur Óskarsson formaður SAF afhentu Juliu verðlaunin.

Ritgerð Juliu nefnist „Almannarétturinn á tímum vaxtar ferðamennsku: Sjónarhorn landeigenda“ (e. Public Right of Access in Times of Tourism Boom: Landowners‘ Perspectives). Leiðbeinendur Juliu voru Anna Dóra Sæþórsdóttir prófessor og Edda Ruth Hlín Waage dósent við Háskóla Íslands.

Viðfangsefni ritgerðarinnar voru viðhorf landeigenda á Íslandi til vaxandi ferðamennsku, nauðsynlegrar uppbyggingar vinsælla ferðamannastaða og áhrifa þessa á almannaréttinn. Tekin voru viðtöl við landeigendur á vinsælum ferðamannastöðum sem gáfu innsýn í þær áskoranir sem þeir standa frammi fyrir við stýringu á fjölda ferðamanna og uppbyggingu kostnaðarsamra innviða til að vernda sameiginlega auðlind. Viðtölin sýndu fram á nauðsynlega aðkomu hins opinbera til að styðja við uppbyggingu innviða einkum til þeirra landeigenda sem hafa engan efnahagslegan ábata af komu ferðamanna. Höfundur ályktar að þörf sé á skýrari lagaramma um ferðamennsku á einkalandi og endurskoðun á almannaréttinum hér á landi með hliðsjón af umfangi ferðaþjónustunnar.

Við afhendingu verðlaunanna sagði Guðrún Þóra þetta væri í 19. sinn sem verðlaunin væru veitt og að kallað væri eftir tilnefningum úr öllum háskólum landsins. Mat dómnefndar byggir á framlagi verkefnisins til nýsköpunar um ferðamál og ferðaþjónustu á Íslandi, fagmennsku og gæðum rannsóknavinnu. Hún minnti á að á heimasíðu RMF væri haldið utan um bæði verðlaunaverkefni og tilnefningar fyrri ára. „Af þessu er bæði áhugavert og ánægjulegt að sjá að verkefni um íslensk ferðamál hafa komið úr fjölbreyttum áttum og sem er til marks um að ferðamálin eiga víða snertifleti. Verkefnið sem varð fyrir valinu í ár tekur sannarlega viðfangsefni sem er brýnt úrlausnar fyrir íslenska ferðaþjónustu og samfélagið allt“, sagði Guðrún Þóra að lokum.

Dómnefndin sem fékk það hlutverk að fara yfir tilnefnd lokaverkefni í ár var skipuð af Vilborgu Helgu Júlíusdóttur fv. hagfræðing SAF, Oddnýju Þóru Óladóttur hjá rannsókna- og tölfræðisviði Ferðamálastofu og Eyrúnu Jennýju Bjarnadóttur sérfræðingi RMF.

Að mati dómnefndar veitir rannsóknin innsýn í þær áskoranir sem landeigendur standa frammi fyrir þegar kemur að aðgerðum sem stuðla að sjálfbærri þróun og leiðum til að takast á við þær. Höfundur fjallar á áhugaverðan hátt um ólík sjónarmið um frelsi til nýtingar náttúrunnar í viðskiptalegum tilgangi og náttúruverndar. Telur dómnefnd að rannsóknin gæti komið að gagni við framtíðarþróun ferðaþjónustu hér á landi og verið grunnur fyrir pólitíska umræðu í samfélaginu milli allra hlutaðeigandi hagsmunaaðila, þar með talið ferðaþjónustuaðila, almennings, ferðamanna og opinberra aðila.

Tilnefningar til lokaverkefnisverðlauna SAF og RMF 2024

Fólk á rétt á að fara sér að voða. Aðgerðir stjórnvalda í þágu öryggis ferðamanna sem fara á eigin vegum gangandi eða hjólandi um hálendi Íslands

  • Erla Sigurðardóttir, MPA-gráða í opinberri stjórnsýslu, stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands
  • Leiðbeinandi: Guðrún Þóra Gunnarsdóttir

Public Right of Access in Times of Tourism Boom: Landowners‘ Perspectives

  • Julia Kienzler, MS-gráða í umhverfis- og auðlindafræði, líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands
  • Leiðbeinendur: Anna Dóra Sæþórsdóttir og Edda Ruth Hlín Waage

Vistvæn myrkurgæðaferðaþjónusta – Hvernig getur hún gagnast íslenskum ferðaþjónustufyrirtækjum?

  • Magnea Lára Elínardóttir, BA-gráða í ferðamálafræði, Háskólinn á Hólum
  • Leiðbeinandi: Kjartan Bollason

„Þú heyrir mig alveg öskra af gleði þegar ég skíða“: Hvati og upplifun fjallaskíðafólks

  • Hilda Steinunn Egilsdóttir og Kristín Elísabet Skúladóttir, BS-gráða í ferðamálafræði, Háskóli Íslands
  • Leiðbeinandi: Anna Dóra Sæþórsdóttir

Þyrluskíðun: Áhrif á umhverfi, efnahag og samfélag í Fjallabyggð

  • Bryndís Guðjónsdóttir, BS-verkefni í náttúru- og umhverfisfræði, Landbúnaðarháskóli Íslands
  • Leiðbeinandi: Ragnhildur Helga Jónsdóttir
Frá afhendingu verðlauna fyrir framúrskarandi lokaritgerð um ferðamál á Íslandi. Pétur Óskarsson, formaður SAF, Julia Kienzler, verðlaunahafi og Guðrún Þóra Gunnarsdóttir, forstöðumaður RMF.
Julia Kienzler hlaut verðlaun fyrir MS-ritgerð sína í umhverfis- og auðlindafræði frá líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.

Tengdar fréttir

Samtök atvinnulífsins og aðildarsamtök hafa opnað fyrir tilnefningar til Umhverfisverðlauna atvinnulífsins 2025. Hvetja samtökin aðildarfyrirtæki til að senda inn tilnefningar eigi síðar …

Vesturland sótt heim

Á dögunum gerðu Samtök ferðaþjónustunnar víðreist um Vesturland þar sem formaður og starfsfólk samtakanna hittu fyrirtæki í ferðaþjónustu, forystufólk í sveitarstjórnum og …

Fjöldi kvenna í ferðaþjónustu komu saman í Gamla kvennaskólanum sl. miðvikudag til þess að fagna upphafi verkefnisins Konur í ferðaþjónustu sem Samtök …

Samtök ferðaþjónustunnar hafa skilað umsögn til forsætisráðuneytisins um áform um atvinnustefnu Íslands til 2035, sem kynnt voru í Samráðsgátt stjórnvalda 11. ágúst. …

Eitt ár er þar til Íslendingar upplifa almyrkva á sólu í fyrsta sinn síðan 1954. Um sögulegan atburð er að ræða því …

Evrópusambandið hefur undanfarin ár unnið að rafrænu skráningarkerfi ferðamanna sem ferðast inn fyrir sameiginleg landamæri Schengen svæðisins – svokölluðu Entry/Exit System(skammstafað EES). …