Hitamælir: Ferðaþjónustureikningar

[:IS]Í nýjum ferðaþjónustureikningum Hagstofu Íslands kemur fram að vægi ferðaþjónustu hér á landi hafi vaxið úr 3,5% af VLF á árinu 2009 í um 8,6% í fyrra (2017). Ferðaþjónustureikningar hafa það hlutverk að leggja mat á bein áhrif ferðaþjónustu í hagkerfi landa og draga fram þróun atvinnugreinarinnar yfir tíma. Reikningarnir færa til bókar eftirspurn eða neyslu ferðamanna á leið til og á „áfangastað“; neyslu erlendra og innlendra ferðamanna. Reikningarnir mæla bein hagræn áhrif greinarinnar en gott er að hafa í huga að óbein og afleidd áhrif ferðaþjónustu á íslenskt atvinnulíf eru jafnframt mikil og eru þá ótalin ýmis samfélagsleg verðmæti sem erfitt er að mæla líkt og fjölbreyttara og skemmtilegra atvinnu- og mannlíf. Í raun endurspeglar neysla ferðamanna virðiskeðju atvinnugreinarinnar eða; veitinga- og gistihúsarekstur, samgöngur í lofti, legi og láði, verslunarrekstur, rekstur sögulegra staða, safna, sundlauga, ýmiskonar afþreyingu, dagsferðir, hestaferðir, hvalaskoðun o.s.frv.

Hvað eru ferðaþjónustureikningar?

Af hverju eru ferðaþjónustureikningar gagnlegir? Jú, sennilega eru fáar atvinnugreinar sem flétta saman eins margar atvinnugreinar og snerta eins marga fleti mannlífsins og ferðaþjónusta. Greining á vægi hennar í þjóðarbúskapnum og hagþróuninni er því mikilvæg ekki síst ef breytingar verða í rekstarumhverfi greinarinnar. Samkvæmt nýjum ferðaþjónustureikningum var heildarneysla ferðamanna hér á landi um 534 milljarðar kr. í fyrra (2017), þar af nam neysla erlendra ferðamanna (gjaldeyrisinnstreymi) um 377 milljörðum kr. eða 71% af heildareftirspurn ferðamanna. Umfang erlendra ferðamanna í heildareftirspurn eða heildarframboði á vöru og þjónustu, sem er hin hliðin á sama pening, var þannig um 6,4% á síðasta ári.
Vægi eða ferðaþjónustuhlutfall (e. Tourism ratio) ferðamanna í hópi viðskiptavina fyrirtækja í ferðaþjónustu er mismunandi milli atvinnugreina. Ferðaskrifstofur, ferðaskipuleggjendur, fyrirtæki í gistiþjónustu, í leigu flutningstækja og í afþreyingar- og menningarferðaþjónustu reiða sig hvað mest á ferðamennsku. Í þessum atvinnu-greinum hefur eftirspurn erlendra ferðamanna hér á landi skipt sköpum. Það er líka vel þekkt að fjölmargar aðrar atvinnugreinar hafa nokkurn hag af viðskiptum við ferðamenn, s.s. fyrirtæki í verslunarrekstri og margvíslegri þjónustu.
Í farþegaflutningum með flugi vekur athygli að kaup erlendra ferðamanna á flugmiða til Íslands nam um 66 milljörðum króna á árinu 2016 eða um 28% af heildartekjum. [1] Á sama tíma námu gjaldeyristekjur íslenskra flugrekstraraðila vegna farþegaflutninga með erlenda ferðamenn um 173 milljörðum króna, þannig að fargjaldatekjur vegna farþegaflutninga um og utan Íslands voru þá rúmlega 107 milljarðar kr. Á árinu 2017 fjölgaði skiptifarþegum um Ísland um 38,5% sem er meiri fjölgun en í erlendum ferðamönnum til (frá) landsins (24%) og í ferðum Íslendinga til annarra landa (15%). Samkvæmt spá ISAVIA ohf. fjölgar skiptifarþegum hlutfallslega meira í ár en öðrum farþegum þannig að þessi markaður er í miklum vexti og ekkert sem bendir til annars en að svo verði áfram.

Eftirspurn erlendra ferðamanna vegur þungt í veitingahúsarekstri

Samkvæmt nýjum ferðaþjónustureikningum hefur vægi erlendra ferðamanna – í hópi viðskiptavina fyrirtækja í veitingaþjónustu vaxið úr því að vera um 19% af heildarveltu á árinu 2009 í að vera um 35% í fyrra. Það munar um minna.
Gera má ráð fyrir að í fyrra (2017) hafi velta í veitingahúsaþjónustu verið um 113 milljarðar kr. Í ferðaþjónustureikningum kemur fram að fyrirtæki í veitingarekstri hafi selt vörur og þjónustu til ferðamanna fyrir um 45 milljarða kr. sem er um 44% af heildarveltu greinarinnar. Kaup erlendra ferðamanna námu um 39 milljörðum króna sem eru 3,5 falt meiri verðmæti, á föstu verðlagi [2], en kaup þeirra á árinu 2009. Hægt er að lesa úr reikningunum að viðskiptaumhverfi fyrirtækja í veitingastarfsemi og matvælaframleiðslu hafi tekið miklum breytingum undanfarin ár, frá því að vera bundin við lítinn heimamarkað yfir í þjónustu á alþjóðlegum markaði þar sem samkeppnin snýst um hylli erlendra ferðamanna á faraldsfæti. Stærri markaður hefur verið mikil hvatning og skapað mikilvæg tækifæri til nýsköpunar í matar- og veitingamenningu landsins ekki síst þegar kemur að því að bjóða eitthvað gamalt á nýjan hátt – sem byggir sannarlega á hugviti og sköpun.
Það kemur því í raun ekki á óvart að markaðshlutdeild erlendra ferðamanna hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár en upplýsingar Hagstofunnar sýna að eftirspurn erlendra ferðamanna var um fimmtungur (19%) af heildartekjum fyrirtækja í veitingaþjónustu á árinu 2009 en var í fyrra um 35%. Eftirspurn Íslendinga á ferðalagi um landið lækkar á sama tíma úr 14% á árinu 2009 en er nú innan við 10%. Eftirspurn á heimamarkaði (e. From non-tourism sources). Heimilin í landinu, fyrirtækin og aðrir aðilar í daglegu amstri er enn stærsti „kúnnahópur“ fyrirtækja í veitingaþjónustu en fer lækkandi. Veitingastaðir eru að sjálfsögðu margbreytilegir eins og þeir eru margir en reikningarnir draga fram vægi einstaka hópa í viðskiptaumhverfi þeirra.

Erlendir ferðamenn og meira úrval veitingastaða

Markaðshlutdeild einstakra hópa teikna upp stóru myndina en gefa jafnframt innsýn í hvaða áhrif breytingar í eftirspurn einstakra hópa getur haft á atvinnugreinina í heild. Niðurstöður ferðaþjónustureikninga gefa til kynna; hvar samkeppnin liggur, þeir gefa líka færi á að meta áhrif af breyttri eftirspurn einstakra hópa á vinnumarkaði. Til dæmis auka reikningarnir skilning á að; ef veruleg breyting verður á markaðshlutdeild erlendra ferðamanna í viðskiptavinahóp í veitingastarfsemi eru sterkar vísbendingar um, að það muni hafa áhrif á um 34% starfa í greininni.
Eftir nokkuð langt gróskutímabil í veitingahúsarekstri, aðallega vegna fjölgunar erlendra ferðamanna hér á landi er nokkuð góður samhljómur um að samkeppnin sé að harðna. Landsmenn búa nú við meira úrval veitingastaða en nokkru sinn fyrr og mikilvægt er að svo verði áfram. Markaðshlutdeild erlendra gesta sýnir að íslenskir veitingastaðir eru í harðri alþjóðlegri samkeppni; verðlag og kaupgjald þarf að taka mið af því, sérstaðan þarf að vera sýnileg og upplifunin þannig að ímynd og orðspor styrki samkeppnisstöðuna til langs tíma.
Vilborg H. Júlíusdóttir, hagfræðingur SAF
 
—————————————————–
[1] Heildarframleiðsluvirði á markaðsverði.
[2] Veitinga- og kaffihús í samræmdri vísitölu neysluverðs.[:]

Tengdar fréttir

Rannsóknasetur skapandi greina (RSG) stendur að ráðstefnunni Menningarauðlind ferðaþjónustunnar, ráðstefnu um menningarferðaþjónustu og nýja ferðamálastefnu til 2030 þann 14. maí í Hofi, …

Hringborðsumræður með sérfræðingum í hótel-, veitinga- og ferðaþjónustugreinum. Samtök ferðaþjónustunnar og Iðan fræðslusetur bjóða öllum sem áhuga hafa að taka þátt í …

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa óveðursský hrannast upp í alþjóðaviðskiptum í kjölfar ófyrirsjáanlegrar stefnu og aðgerða bandaríkjaforseta í alþjóðasamskiptum. Tíu prósent …

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar fór fram á Hótel Örk í Hveragerði fimmtudaginn 20. mars sl. Félagsmenn í SAF fjölmenntu í Hveragerði, en dagurinn …

Í tengslum við aðalfund Samtaka ferðaþjónustunnar, sem fram fór í Hveragerði fimmtudaginn 20. mars, var kjörið í fagnefndir SAF. Eftirtaldir einstaklingar skipa …

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2025 fór fram á Hótel Örk í Hveragerði í gær, fimmtudaginn 20. mars. Í aðdraganda aðalfundar fór fram …