Ásdís Ýr Pétursdóttir, forstöðumaður samskipta og samfélagsábyrgðar Icelandair.
Kæru félagar,
Það er óhætt að segja að undanfarin tvö ár hafi verið viðburðarík en ég hef starfað sem forstöðumaður samskipta og samfélagsábyrgðar hjá Icelandair síðan í byrjun árs 2019. Þá hef ég jafnframt setið í stjórn SAF frá aðalfundi samtakanna sama ár.
Ég tel að reynsla mín hjá Icelandair og úr atvinnulífinu á undanförnum árum hafi komið sér vel í þeim krefjandi verkefnum sem við höfum staðið frammi fyrir á þessum tíma. Síðastliðin 20 ár hef ég starfað við almannatengsl og samskipti bæði hérlendis og alþjóðlega hjá fjölbreyttum fyrirtækjum og sem sjálfstæður ráðgjafi.
Í því mótlæti sem ferðaþjónustan hefur staðið frammi fyrir síðan kórónuveirufaraldurinn skall á, hafa Samtök ferðaþjónustunnar gegnt gríðarlega mikilvægu hlutverki, skapað mikilvægan vettvang umræðna og barist ötullega fyrir hagsmunum greinarinnar. Hlutverk SAF er ekki síður mikilvægt í uppbyggingunni sem framundan er, þar sem við, hvar sem við störfum innan greinarinnar, höfum tækifæri til þess að koma fram sem ein rödd gagnvart stjórnvöldum, fjölmiðlum og almenningi í landinu.
Ég hef fulla trú á því að við stöndum þessar krefjandi aðstæður af okkur og að okkur beri gæfa til þess að grípa þau tækifæri sem munu skapast í kjölfarið. Ísland verður áfram eftirsóttur áfangastaður og það er okkar sameiginlega verkefni að móta áherslur til framtíðar sem skapa verðmæti fyrir samfélagið, íbúa landsins um allt land og gesti okkar, í sátt við umhverfið. Við hjá Icelandair hlökkum til að leggja okkar af mörkum í þeirri vegferð. Þá langar mig jafnframt að bjóða fram krafta mína áfram í þágu ferðaþjónustunnar á þessum vettvangi hér og býð mig því fram til áframhaldandi stjórnarsetu í SAF.
Bestu kveðjur,
Ásdís Ýr Pétursdóttir