Birgir Guðmundsson, hótelstjóri Icelandair Hotel Reykjavík Marina.
Kæru félagar í SAF,
Ég heiti Birgir Guðmundsson og er hótelstjóri hjá Icelandair Hotel Reykjavik Marina sem ég hef gegnt síðustu sjö ár. Ég hef starfað á hótelum hérna á Íslandi síðustu 18 árin og gengið í gegnum þær miklu breytingar sem ferðaþjónustan á Íslandi hefur farið í gegnum á þeim tíma. Ég hef verið formaður gististaðanefndar hjá SAF síðustu fjögur ár og einnig hef ég áður setið í veitinganefnd SAF. Á tíma mínum í gististaðanefnd ef ég einnig tekið þátt í starfi Hotrec, sem eru hótel- og veitingasamtök Evrópu, fyrir hönd SAF.
Ég hef mikinn áhuga á að halda áfram að vinna að hagsmunamálum okkar samtaka og tel að reynsla mín og fyrri störf nýtist þar vel. Við stöndum nú á tímamótum þar sem eftir mikinn vöxt síðasta áratug höfum við þurft að takast á við áföll sem náðu hámarki síðastliðið ár. Ég tel að samtökin munu gegna mikilvægu hlutverki í að styðja fyrirtækin í að skapa umhverfi þar sem við getum komið sterkari út þeim áskorunum sem við höfum gengið í gegnum.
Einnig er mikilvægt að fyrirtækin styðji samtökin okkar við að búa til skilyrði til framtíðar þar sem ferðaþjónustan getur blómstrað ásamt því að koma stjórnvöldum og öðrum hagsmunaaðilum í skilning um mikilvægi okkar greinar fyrir framtíðarhagsæld á Íslandi. Að því sögðu hef ég ákveðið að bjóða mig fram til stjórnar SAF þar sem ég get lagt þessu verkefni lið og tel að mín fyrri störf og reynsla munu nýtast í þeirri baráttu sem fram undan er.
Með baráttukveðju og bjartsýni von um betri tíma framundan,
Birgir Guðmundsson