Skortur á starfsfólki dragbítur á vöxt hagkerfisins

Menntadagur atvinnulífsins var haldinn í ellefta sinn í dag undir yfirskriftinni Göngum í takt: Er menntakerfið að halda í við þarfir atvinnulífsins.

Á fundinum kynntu SA og aðildarsamtök uppfærða greiningu á eftirspurn eftir vinnuafli þvert á atvinnugreinar í því augnamiði að skilgreina hvaða aðgerðir eru nauðsynlegar svo vinnuaflsskortur verði ekki hamlandi fyrir vöxt í atvinnu- og efnahagslífi.

Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri SA kynnti niðurstöðurnar í erindi um færniþörf á vinnumarkaði.

Þar kom meðal annars fram að aðeins 43% stjórnenda telji menntakerfið uppfylla færniþörf síns fyrirtækis vel í dag. Sömu sögu er síðan að segja þegar litið er til næstu fimm ára. Menntakerfið skarar ennþá fram úr þegar kemur að því að búa til opinbera starfsmenn og 60% stjórnenda í opinberri stjórnsýslu telja menntakerfið koma til með að mæta færniþörf þeirra á næstu fimm árum. Þá eru stjórnendur í atvinnulífinu allt eins líklegir til að telja að menntakerfið muni ekki mæta þörfum þeirra næstu fimm árin.

Sigríður Margrét ítrekaði að framúrskarandi lífskjör yrðu aðeins tryggð með því að auka fjölbreytni hagkerfisins og aðlögunarhæfni þess. Það er því nauðsynlegt að efla enn frekar þær atvinnugreinar sem eiga ekki allt sitt undir auðlindum náttúrunnar. Þar leikur menntakerfið lykilhlutverk, eins og í svo mörgu öðru.

Menntakerfið mætti ekki vera enn einn flöskuhálsinn á leið okkar í átt að bættum lífskjörum. Framboði og eftirspurn eftir vinnuafli verða að vera gerð góð skil svo hægt sé að skilgreina leiðirnar áfram.

„Í dag horfum við enn fram á að fleiri þurfi að ljúka námi við hæfi og draga þurfi úr brottfalli. Vinnuaflsskortur má nefnilega ekki verða dragbítur á íslensku atvinnu- og efnahagslífi,“ sagði Sigríður Margrét.

Lausnirnar eru sannarlega í sjónmáli en þarfir atvinnulífsins eru skýrar:

Það verður að fjölga iðn-, tækni- og verkmenntuðu vinnuafli. Til að svo megi verða þarf að:

  • Auka við húsnæði iðnskóla og auka rekstrarfé þeirra.
  • Bæta viðhorf í garð fagþekkingar.

Þá þarf einnig að fjölga STEAM menntuðu vinnuafli. Í raun þarf hlutfall brautskráðra á háskólastigi í STEAM greinum að vera komið upp í 30% árið 2030. Við mætum þeirri þörf með því að:

  • Auka áherslu á færni framtíðarinnar í menntakerfinu.
  • Efla og hvetja til nýsköpunar og nýstárlegrar kennslutækni á öllum skólastigum.
  • Auka áherslu á forritun og raun- og tæknigreinar frá yngstu stigum grunnskóla.
  • Liðka fyrir komu sérfræðinga erlendis frá.

Ýmislegt annað getur haldið aftur af vexti í atvinnu- og efnahagslífinu. Þar má sem dæmi nefna starfsumhverfi atvinnulífsins. Þar mega stjórnvöld ekki slá slöku við. Tryggja verður atvinnulífinu stöðugleika, hagkvæmt skattaumhverfi og skilvirkni og stjórnvöld mega ekki halda aftur af verðmætasköpun í hagkerfinu með íþyngjandi laga- og reglugerðarumhverf

Þetta helst allt í hendur og myndar samkeppnishæft atvinnulíf sem stendur undir framúrskarandi lífskjörum þjóðarinnar.

Tengdar fréttir

Rannsóknasetur skapandi greina (RSG) stendur að ráðstefnunni Menningarauðlind ferðaþjónustunnar, ráðstefnu um menningarferðaþjónustu og nýja ferðamálastefnu til 2030 þann 14. maí í Hofi, …

Hringborðsumræður með sérfræðingum í hótel-, veitinga- og ferðaþjónustugreinum. Samtök ferðaþjónustunnar og Iðan fræðslusetur bjóða öllum sem áhuga hafa að taka þátt í …

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa óveðursský hrannast upp í alþjóðaviðskiptum í kjölfar ófyrirsjáanlegrar stefnu og aðgerða bandaríkjaforseta í alþjóðasamskiptum. Tíu prósent …

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar fór fram á Hótel Örk í Hveragerði fimmtudaginn 20. mars sl. Félagsmenn í SAF fjölmenntu í Hveragerði, en dagurinn …

Í tengslum við aðalfund Samtaka ferðaþjónustunnar, sem fram fór í Hveragerði fimmtudaginn 20. mars, var kjörið í fagnefndir SAF. Eftirtaldir einstaklingar skipa …

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2025 fór fram á Hótel Örk í Hveragerði í gær, fimmtudaginn 20. mars. Í aðdraganda aðalfundar fór fram …