Miðvikudaginn 16. október sl. tilkynnti formaður Grindavíkurnefndar breytt fyrirkomulag á aðgangi að Grindavík. Frá og með kl. 06.00 mánudaginn 21. október verður aðgangur að bænum opinn öllum. Augljóst er að áhugi ferðamanna vegna jarðskjálfta og eldgosa á svæðinu kann að vera töluverður og því líklegt að ferðaþjónustuaðilar fari að bjóða upp á ferðir á svæðið.
Þegar kemur að ferðþjónustu á hamfarasvæðum er nauðsynlegt að sýna ábyrgð og flana ekki að neinu. Samtök ferðaþjónustunnar vilja hvetja ferðaþjónustuaðila sem hafa hug á að bjóða upp á ferðir til Grindavíkur að vinna ferðirnar af virðingu við samfélagið á svæðinu, hvort sem er í gegnum markaðs- og kynningarefni eða þegar kemur að framkvæmd ferðanna. Þá vilja SAF brýna fyrirtæki í ferðaþjónustu til að gæta varkárni og tryggja öryggi sinna gesta og starfsfólks í hvívetna.
Ferðaþjónusta getur verið öflugur aðili þegar kemur að endurreisn Grindavíkur og því er mikilvægt að vanda til verka.
Pétur Óskarsson
Formaður Samtaka ferðaþjónustunnar