Hugsanleg áhrif tollastríðs á ferðaþjónustu

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa óveðursský hrannast upp í alþjóðaviðskiptum í kjölfar ófyrirsjáanlegrar stefnu og aðgerða bandaríkjaforseta í alþjóðasamskiptum. Tíu prósent tollar sem leggjast á vörur fluttar frá Íslandi til Bandaríkjanna hafa nú tekið gildi og óvíst er hvenær eða með hvaða hætti verður breyting á. Ekki er heldur ljóst hver viðbrögð Evrópusambandsríkja verða eða hvort Ísland verður fyrir áhrifum af þeim.

SAF hafa verið í reglulegum samskiptum við utanríkisráðuneytið og stjórnvöld um upplýsingar og mögulega þróun þessarar stöðu inn í árið. Þeim samskiptum verður haldið áfram og upplýsingum miðlað til stjórnvalda um breytingar sem átt geta sér stað í ferðaþjónustu vegna stöðunnar.

Reynslan sýnir að ferðaþjónusta er viðkvæm fyrir efnahagsstöðu fólks í helstu markaðslöndum okkar. Tilhneiging bandarískra neytenda til að halda að sér höndum í neyslu þegar óvissa er uppi í efnahagsmálum og markaðir falla er til að mynda vel þekkt.

Það sem af er árinu hefur bandarískum ferðamönnum fjölgað í samanburði við fyrra ár, en ætla má að mikill hluti ferða sem framkvæmdar hafa verið á tímabilinu janúar til mars hafi verið bókaðar áður en nýr bandaríkjaforseti tók við embætti í lok janúar eða í það minnsta áður en fyrirætlanir hans í tollamálum komu til framkvæmda. Því má gera ráð fyrir því að möguleg neikvæð áhrif af núverandi tollastríði muni heldur koma fram upp úr miðju sumri og inn í haustið, ef þau koma fram. Gögn sýna að nú þegar hafi almennt hægt á ferðaneyslu bandarískra neytenda inn í haustið miðað við fyrri ár.

Erfitt er að meta möguleg áhrif sem óvíst er að komi fram í krónum og aurum, en bandarískir ferðamenn voru 27% af öllum erlendum ferðamönnum á Íslandi 2024 og stóðu undir 38% af verðmætunum. Þeir eru því mjög mikilvægur og verðmætur markhópur fyrir þjóðarbúið. Þjóðhagslíkan Ferðamálastofu sýnir einnig að 5% samdráttur í ferðaþjónustu leiði til 22 milljarða lækkunar á gjaldeyristekjum.

SAF hvetja félagsmenn til að veita samtökunum strax upplýsingar ef bera fer á afbókunum vegna þessarar stöðu til að samtökin séu sem best í stakk búin að veita stjórnvöldum upplýsingar og aðhald varðandi stöðu greinarinnar inn í framtíðina.

Tengdar fréttir

Rannsóknasetur skapandi greina (RSG) stendur að ráðstefnunni Menningarauðlind ferðaþjónustunnar, ráðstefnu um menningarferðaþjónustu og nýja ferðamálastefnu til 2030 þann 14. maí í Hofi, …

Hringborðsumræður með sérfræðingum í hótel-, veitinga- og ferðaþjónustugreinum. Samtök ferðaþjónustunnar og Iðan fræðslusetur bjóða öllum sem áhuga hafa að taka þátt í …

Á undanförnum vikum og mánuðum hafa óveðursský hrannast upp í alþjóðaviðskiptum í kjölfar ófyrirsjáanlegrar stefnu og aðgerða bandaríkjaforseta í alþjóðasamskiptum. Tíu prósent …

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar fór fram á Hótel Örk í Hveragerði fimmtudaginn 20. mars sl. Félagsmenn í SAF fjölmenntu í Hveragerði, en dagurinn …

Í tengslum við aðalfund Samtaka ferðaþjónustunnar, sem fram fór í Hveragerði fimmtudaginn 20. mars, var kjörið í fagnefndir SAF. Eftirtaldir einstaklingar skipa …

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar árið 2025 fór fram á Hótel Örk í Hveragerði í gær, fimmtudaginn 20. mars. Í aðdraganda aðalfundar fór fram …