Í aðdraganda aðalfundar SAF 2025, sem fram fer fimmtudaginn 20. mars á Hótel Örk í Hveragerði, hefur kjörnefnd verið að störfum sem hefur það hlutverk að undirbúa og hafa yfirumsjón með stjórnarkjöri á aðalfundi samtakanna. Kjörnefnd hefur þegar auglýst eftir framboðum til stjórnar SAF fyrir starfsárin 2025 – 2027 og bárust sex framboð þegar framboðsfrestur rann út fimmtudaginn 6. mars sl.
Frambjóðendur til stjórnar SAF eru eftirtaldir í stafrófsröð – smellið á tenglana til að sjá kynningu frambjóðenda:
- Jóhanna Margrét Gísladóttir, forstöðumaður viðskiptaþróunar hjá Play
- Rannveig Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Eldingar hvalaskoðunar
- Stefán Gunnarsson, framkvæmdastjóri hjá GJ Travel
- Stefnir Ingi Agnarsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Godo
- Sævar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Ferðaþjónustunnar Mjóeyri við Eskifjörð
- Tómas Ingason, framkvæmdastjóri tekju-, þjónustu- og markaðssviðs Icelandair
Samkvæmt lögum SAF skal stjórnarkjöri þannig háttað að annað hvert ár skal kjósa formann og þrjá meðstjórnendur en hitt árið eru hinir þrír meðstjórnendurnir í kjöri. Formaður SAF var kjörinn á aðalfundi SAF árið 2024 og því er kjörið um 3 meðstjórnendur á aðalfundinum í ár.
Á aðalfundinum í ár hætta þau Helgi Már Björgvinsson, yfirmaður alþjóðasamskipta Icelandair og Nadine Guðrún Yaghi, samskiptastjóri flugfélagsins Fly Play í stjórn SAF. Rannveig Grétarsdóttir, eigandi Eldingar hvalaskoðunar er í kjöri til stjórnar SAF, en hún hefur setið í stjórn samtakanna undanfarin ár. Í aðdraganda aðalfundar tók Hildur Guðbjörg Kristjánsdóttir, eigandi Midgard, sæti í stjórn SAF í stað Björns Ragnarssonar, forstjóra Icelandia, sem setið hefur í stjórn samtakanna undanfarin 6 ár. Samkvæmt lögum SAF getur stjórnarmaður að hámarki setið í stjórn samtakanna í 6 ár samfellt. Hildur situr í stjórn SAF fram að aðalfundi árið 2026.
Rafrænar kosningar
Rafræn kosning til stjórnar SAF hófst í dag, fimmtudaginn 13. mars, og stendur fram yfir kynningu frambjóðenda á aðalfundi samtakanna sem fram fer fimmtudaginn 20. mars á Hótel Örk í Hveragerði.
Sem kunnugt er hefur hver félagsmaður atkvæðamagn á aðalfundi í hlutfalli við greitt félagsgjald í SAF um síðastliðin áramót. Hverjum heilum þúsund krónum greiddra félagsgjalda fylgir eitt atkvæði. Á atkvæðaseðlinum er tiltekið hversu mörg atkvæði fyrirtækið á rétt á í atkvæðagreiðslunni. Forsvarsmenn fyrirtækja í Samtökum ferðaþjónustunnar hafa fengið sendan tölvupóst með upplýsingum um kjörið.
Til að taka þátt í kjörinu smellir þú á tengilinn „Taka þátt“ hér að neðan og þá færist þú yfir á innskráningarsíðu. Eftir auðkenningu er atkvæðaseðillinn aðgengilegur. Athugið að einungis er hægt að kjósa einu sinni.
- Hlekkur: Taka þátt!
Könnuður ehf. annast rafrænar kosningar fyrir hönd Samtaka ferðaþjónustunnar. Öll meðhöndlun gagna tryggir að svör verða aldrei rakin til einstakra kjósenda.
Þeir félagsmenn sem lenda í vandræðum með að kjósa er bent á að senda tölvupóst á netfangið skapti@saf.is